Erlendir gestir um áramótin


Nokkrir erlendir gestir munu heiðra okkur Siglfirðinga yfir áramótin, með nærveru sinni, því hettusöngvari er á sveimi við Hvanneyrarhólinn, sem og ein silkitoppa og allnokkur fjöldi svartþrasta. Einnig hafa nokkrir skógarþrestir ákveðið að fresta utanför og þreyja frekar veturinn nyrst á Tröllaskaga.

Umræddur hettusöngvari, kvenfugl, er búinn að vera hér frá því í lok október eða byrjun nóvember, en silkitoppan er nýlega komin. Hún náðist í gær, fékk á sig númerað álmerki frá Náttúrufræðistofnun Íslands og var sleppt að því búnu.

Silkitoppan verpir í furuskógum nyrst í Evrópu, Síberíu og Ameríku. Utan varptíma lifir hún á berjum og flakkar sum ár, ef fæðuskortur er, í hópum út fyrir vetrarheimkynni sín. Oftast sést hún á Íslandi í nóvember og þar um kring og er þá sólgin í epli og þvíumlíkt, eins og hinir fuglarnir sem nefndir voru.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is