Enn veiðast grjótkrabbarnir hér


Eins og nefnt var í Siglufjarðarpistlinum á laugardag, sem gerður var að beiðni Morgunblaðsins, og birtist þar og hér, hafa enn fleiri grjótkrabbar komið upp úr höfninni við Óskarsbryggju/Öldubrjót en áður hefur verið greint frá í þessum vefmiðli. Ef litið er yfir atburðarásina er hún á þennan veg: Hinn 18. júlí í fyrra náðist sá fyrsti, sem vitað er um í Siglufirði. Um er að ræða norður-ameríska tegund sem varð fyrst vart við Íslandsstrendur árið 2006, í Hvalfirði. Ísland er nyrsti og jafnframt eini þekkti fundarstaður hans í Evrópu til þessa. Annar náðist svo hér við sömu bryggjur 17. júlí á þessu ári og hinn þriðji 8. ágúst.

Síðan hafa fjórir bæst við: 24. ágúst, 25. ágúst, 27. ágúst og 31. ágúst. Þeir eru af ýmsum stærðum og litum. Einnig náðist grjótkrabbi 30. ágúst sem veiðst hafði áður og er því ekki talinn hér með.

Sömu drengir hafa náð þeim öllum.

Verður að teljast merkilegt að svo margir grjótkrabbar finnist hér, því ekki er vitað um að tegundin sé komin austar en í Eyjafjörðinn og þar eru fundnir og séðir grjótkrabbar teljandi á fingrum annarrar handar.

Myndir: Júlíus Þorvaldsson, Tryggvi Þorvaldsson og Mikael Sigurðsson.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is