Enn eru nokkrar silkitoppur í firðinum


Enn eru nokkrar silkitoppur eftir í firðinum okkar. Flestar hafa þær undanfarið sést 8 talsins, a.m.k. á Hvanneyrarhólnum. Kannski eru þær fleiri annars staðar. Einnig leit gráþrösturinn í heimsókn í morgun, auk þess sem músarrindill hefur sungið fyrir íbúana upp á hvern dag í vetur.

Silkitoppur eru glæsilegir fuglar. Þær verpa í norðanverðri Skandinavíu og fylgja þaðan barrskógabeltinu austur um Rússland og í Norður Ameríku. Þær eru miklar berjaætur. Þegar fæðuframboðið minnkar leggjast þær í flakk og sjást þá í vestanverðri Evrópu, m.a. hér á landi. Þær koma yfirleitt í byrjun vetrar en hverfa á brott þegar líða tekur á, vanalega í apríl. Árið 2011 ílentist eitt parið reyndar og verpti og kom upp ungum í Mývatnssveit.

Þessi fugl sem myndin er af var ásamt nokkrum öðrum í trjám á Siglufirði í fyrradag. Og spurst hefur af þeim fleiri víða um land. Svo er bara að vona.

Silkitoppa í birkitré á Hvanneyrarhólnum í fyrradag.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is