Enn einn kvenkyns golfmeistarinn af siglfirskum ættum


Eins og nefnt hefur verið á þessari fréttaveitu eiga tveir kvenkyns golfmeistarar landsins ættir að rekja til Siglufjarðar. Þetta eru Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, íþróttamaður ársins 2017, og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari kvenna í golfi árið 2018. Sá þriðji var reyndar að bætast við, Ásta Birna Magnúsdóttir. Þetta er með ólíkindum og hlýtur að vera einhvers konar met.

Ásta Birna er fædd 16. janúar 1988 og alin upp á Djúpavogi. Foreldrar hennar eru Ingveldur Björk Björnsdóttir og Magnús Hreinsson. Eldri systir Ástu Birnu er Agnes Ösp, fædd 1985. Föðurafi þeirra var Siglfirðingur, Hreinn Magnússon, fæddur hér í bæ 20. maí 1932, dáinn 15. ágúst 2015. Foreldrar hans voru Antonía Vilhelmína Guðbrandína Erlendsdóttir, fædd 1901 á Ámá í Héðinsfirði, dáin 1987, og Magnús Baldvinsson, fæddur 1895 á Siglunesi, dáinn 1956. Þau voru bændur á Siglunesi á árunum 1924-1951.

Um Ástu Birnu segir m.a. í viðtali sem birtist 8. þessa mánaðar á Golf.is:

„Ásta Birna var á árum áður einn besti kylfingur Íslands í kvennaflokki en hún hefur ekki sagt skilið við íþróttina og leikur í sterkri deild í Þýskalandi þar sem hún er búsett. „Ég flutti til Þýskalands árið 2009, nánar tiltekið til Lippstadt. Ég hóf nám í sjúkraþjálfun haustið 2009 og lauk því 2013. Síðan ég lauk náminu hef ég starfað sem sjúkraþjálfari á sjúkrahúsinu hér í Lippstadt og ég gef mér enn tíma í keppnisgolfið þegar ég get.“ Ásta Birna vakti mikla athygli á sínum tíma hér á Íslandi fyrir árangur sinn í barna- og unglingaflokkum. Ekki síst fyrir þá staðreynd að hún hóf ferilinn á Djúpavogi þar sem lítið var um kylfinga og áhuginn ekki mikill á íþróttinni. Ásta varð m.a. Íslandsmeistari í holukeppni árið 2008 og sigraði á mótum á Eimskipsmótaröðinni.“

Sjá líka hér.

Mynd: Af Golf.is.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is