Enginn makríll hér


Sú var tíð að það mokveiddist við bryggjur í Siglufirði og gat verið um ýmsar tegundir að ræða,  m.a. kola, lúðu, steinbít, þorsk og ufsa. Og ef annað brást mátti alla vega treysta á að fá marhnút. En nú er öldin önnur, lítið að sjá og enn minna að hafa.

Þegar spurðist að makríll væri farinn að gleðja íbúa nokkurra plássa með nærveru sinni, m.a. Blönduóss, var ekki um annað að ræða en að fara af stað til að athuga hvort eitthvað kynni að leynast hér af þeim góða fiski.

En þrátt fyrir nokkrar tilraunir með hina ýmsu spúna og annað gómgæti fengust engin viðbrögð úr djúpinu.

Það sakaði ekki að reyna.

Á http://is.wikipedia.org/wiki/Makr%C3%ADll má lesa eftirfarandi:

Makríll (fræðiheiti: Scomber scombrus) er straumlínulagaður, hraðsyntur uppsjávarfiskur af makrílætt sem finnst báðum megin við Norður-Atlantshafið. Makríll er algengur fiskur í svölum sjó og ferðast um í stórum torfum nálægt yfirborði sem koma að ströndum í fæðuleit að sumarlagi þar sem vatnshiti er milli 11° og 14°C. Á veturna halda torfurnar sig á meira dýpi og fjær landi. Markríll er svifæta og heldur sig þar sem áta og hitastig er hagstætt. Í ætisleit fer hann í miklar göngur norður um Noregshaf, norður með Noregi og síðustu ár til Íslands. Rauðáta er mikilvæg fæða hans en hann étur einnig svif og fiska. Makríll er sundmagalaus og sekkur því ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu. Magn af makríl í Norðursjó minnkaði mikið upp úr 1960 vegna ofveiði. Hann er langlífur og hefur hámarksaldur makríls greinst 25 ár og þekkt er að fiskar geta orðið meira en 66 sm langir. Fiskurinn verður kynþroska við 2-3 ára aldur. Í lok fyrsta árs er makríll um 27-28 sm og er þyngdin þá 160-179 gr. Við níu ára aldur er meðallengd makríls um 40 sm og þyngdin um og yfir 600 gr. Þrír stofnar makríls eru í NA-Atlantshafi en þeir eru Vesturstofn sem er lang stærstur, Suðurstofn og Norðursjávarstofn. Makrílgöngur hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár og er breytt göngumynstur talið orsakast af hlýnun sjávar ? Makríll fannst svo vitað sé í fyrsta skipti við Ísland árið 1895.

Svo mörg voru þau orð.

Kannski er hann bara á leiðinni.

Þótt ekkert veiðist er björgunarvesti lífsnauðsyn, ekki síst þegar unga fólkið á í hlut.


Makríllinn er glæsilegur fiskur og herramannsmatur.

Mynd af bryggjuveiði og texti: Sigurður Ægissonsae@sae.is

Ljósmynd af makríl: Hans Hillewaert (http://is.wikipedia.org/wiki/Mynd:Scomber_scombrus.jpg)

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is