Elliðalíkanið


Elliði var einn af átta nýsköpunartogurum sem smíðaðir voru fyrir íslenska ríkið hjá skipasmíðastöð Cochrane & Sons í Selby í Yorkshire í Englandi. Skipið var 53,95 metrar á lengd, 9,14 á breidd og mældist 654 brúttótonn. Aðalvélin var þriggja þjöppu olíukynt gufuvél frá Amos & Smith í Hull.

Hugmyndin að smíði líkans af Elliða kom fram áður en smíði líkans af Hafliða var lokið, en það líkan var afhent 2008. Strax var hafist handa við að leita teikninga og gekk það vægast sagt illa, í byrjun a.m.k. Leitað var til skjalasafna þeirra staða sem Elliði og systurskip hans voru gerð út frá, sem voru Akureyri, Seyðisfjörður, Hafnarfjörður og Reykjavík, auk þess sem leitað var vel og lengi á Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Allt án árangurs. Við fengum að vísu teikningu frá Bókasafni Siglufjarðar en sú var einskonar söluteikning, þ.e.a.s. teikning sem Nýsköpunarráð sendi út til að auglýsa smíði nýsköpunartogaranna 1945-1946 og slíka teikningu var alls ekki hægt að nota.

Þegar við leituðum að teikningum af Hafliða komum við einnig að tómum kofanum hér heima en fengum teikningarnar að lokum frá Sjóminjasafninu í Hull (Hull Maritime Museum). Endurtekin vandræði okkar í teikningamálum leiddu okkur aftur til Hull en við fengum þær upplýsingar þar að fyrir nokkrum áratugum hefði áin Ousa, sem borgin Selby stendur við, flætt yfir bakka sína og m.a. flætt inn í skjalageymslu hvar í voru geymdar teikningar að öllum þeim skipum sem smíðuð höfðu verið í Selby. Svo illa vildi til að teikningar allra skipa sem smíðuð voru á árunum 1940-1950 eyðilögðust í þessum flóðum og engar slíkar fyndust því á fyrrnefndu safni í Hull.

Við dóum ekki ráðalausir, enda hafði okkur verið kennt á Hafliða forðum daga að maður gefst ekki upp þó á móti blási, heldur breytir verklaginu og um leið leiðinni að markmiðinu; skipti um hendi ef sinaskeiðabólgan var að drepa mann í aðgerðinni, skipti um gils ef slíkur slitnaði, eða notaði annan gils, skipti um hlera ef þeir voru ekki að virka o.s.frv. Það var aldrei gefist upp. Við ákváðum því að láta smíða líkanið af Elliða eftir ljósmyndum en komumst að því að margir ljóðir voru á þeirri hugmynd og sá stærstur að skrokklag skipsins sást illa á öllum þeim myndum sem okkur tókst að finna. Áður en við sendum myndabunkann út til líkanasmiðsins datt okkur í hug að gera lokatilraun til að hafa upp á teikningunum með því að fá birta grein í Morgunblaðinu um vandræði okkar í þeirri von að lesendur blaðsins gætu komið okkur til hjálpar. Tveim dögum eftir að greinin birtist hringdi Friðrik Friðriksson, fyrrverandi farmaður hjá Eimskip, í okkur og kvaðst vera með teikningar af Selby-togara sem okkur væri frjálst að nota ef við vildum! Mikið lifandis ósköp urðum við fegnir að þurfa ekki að láta smíða líkanið eftir ljósmyndum!

Teikningin var send út til Svíþjóðar í snatri, til Lennarts Loov, sem hefur verið okkar milliliður í þessu, og hann kom henni áfram til Daniels Todorov líkanasmiðs frá Búlgaríu, sem einnig smíðaði líkanið af Hafliða. Í apríl s.l. kom líkanið með Samskipum til Íslands við mikinn fögnuð okkar félaga. Það var síðan ákveðið að afhenda líkanið á Siglufirði 21. júlí í sambandi við Sjómannahátíðina á Akureyri en þar innfrá hófst hátíðin með veislu í Oddvitanum. Þar skemmtu Helena Eyjólfs og Raggi Bjarna ásamt Valgeiri Guðjóns sem stjórnaði samkomunni af alkunnri röggsemi. Síðan lék hljómsveit þeirra Gylfa, Rúnars og Megasar fyrir dansi fram á nótt.

Menn risu síðan snemma úr rekkjum og héldu í sjómannamessu á Siglufirði hvar séra Sigurður Ægisson hélt uppi stuðinu ásamt þeim Kristjáni Elíassyni, Sveini Björnssyni og Valgeiri Guðjónssyni. Eftir messu var boðið upp á súpu og brauð á krirkjuloftinu í boði Fjallabyggðar. Þaðan var haldið að minnismerki um drukknaða og lögðu þeir sjö, sem mættir voru af níu eftirlifandi skipverjum á Elliða í síðustu veiðiferðinni ásamt Dagnýju Finnsdóttur, blómsveig að minnismerkinu.

Þá var komið að stóru stundinni, afhendingu líkansins af Elliða. Sú athöfn fór fram í kaffihúsinu Rauðku að viðstöddu fjölmenni og bauð Hafliðafélagið upp á kaffi og kleinur. Gunnar Trausti Guðbjörnsson ávarpaði viðstadda og bauð þá velkomna. Því næst tók Kristján Elíasson til máls og rakti nokkuð tilurð líkansins og framtíðarsýn Hafliðafélagsins. Sjömenningarnir áðurnefndu afhjúpuðu svo líkanið við mikinn fögnuð viðstaddra. Anita Ellefsen tók við líkaninu fyrir hönd FÁUM og þegar allir voru við það að kveðja rauk Bjössi Birgis á sviðið og fékk alla viðstadda með sér í fjöldasöng um hana Önnu Láru og því næst í Einkall úti að slá sem hann flutti á sinn einstaka hátt.

Dagur var að kvöldi kominn og messufólkið frá Akureyri hélt sína leið, væntanlega með viðkomu í Bruggverksmiðju Kalda á Árskógsandi og þar framhaldandi siglingu með Húna II inn til Akureyrar. Við félagarnir fluttum hinsvegar líkanið í bátahús Síldarminjasafnsins og stilltum því upp við hlið líkansins af Hafliða. Þótti okkur ljóst að eitthvað yrði að gera í sambandi við undirstöður líkananna og bíður það síðari tíma.

Myndir (þrjár efstu): Aðsendar.
Mynd af Friðrik og konu hans: Guðmundur Gauti Sveinsson.
Mynd af líkaninu á Síldarminjasafninu: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Kristján Elíasson.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is