Ekki lengur brædd síld á Siglufirði


Peningalyktin heyrir nú sögunni til í Siglufirði. Stóra fiskimjölsverksmiðjan, sem er sú síðasta í þessum fyrrverandi helsta síldarbæ landsins, hefur verið seld til útlanda. Þar með lýkur meira en 80 ára sögu síldar- og loðnubræðslu á Siglufirði.

Fyrsta fiskimjölsverksmiðjan var reist þar 1929. Brotthvarf verksmiðjunnar markar skil í sögu Siglufjarðar en mikil tímamót lífi Þórðar Georgs Andersen, verksmiðjustjóra. Hann hefur varið allri starfsævinni í verksmiðjunni og tengdum rekstri.

?Ég hef ekki unnið annars staðar síðan ég var níu ára,? sagði Þórður í samtali við Morgunblaðið. Þegar hann byrjaði á barnsaldri að vinna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins (SR) rak fyrirtækið þrjár fiskimjölsverksmiðjur í Siglufirði. Mikilli síld var landað í bræðslu á síldarárunum og eins var unnið úr afskurði frá síldarplönunum. Þórður hóf störf sem sendill á rannsóknastofu SR og hljóp á milli verksmiðjanna og rannsóknastofunnar með sýni. Hann sagði að kannski hafi klíkuskapur ráðið því að hann fékk vinnuna.

?Annars var þetta ekki fyrsta árið sem maður byrjaði að vinna,? sagði Þórður, sem er fæddur árið 1950. ?Maður byrjaði sex ára á síldarplönunum.? Þar lét hann síldarstúlkur fá tunnuhringi og var látinn pækla, það er að hella saltpækli á síldartunnur, og ýmislegt fleira. Mamma Þórðar vann um tíma á síldarplani en pabbi hans var rennismiður hjá SR.

Síldarverksmiðjur SR á Siglufirði voru sameinaðar í eina stóra verksmiðju upp úr 1980, seinna sameinaðist SR svo Síldarvinnslunni á Neskaupstað (SVN) og hefur verksmiðjan verið rekin undir merkjum SVN um árabil.

Sjá allt viðtalið hér, með fleiri myndum.

Þórður G. Andersen í fiskimjölsverksmiðjunni.

[Þessi frétt birtist upphaflega á Mbl.is 22. janúar 2011 kl 11.43. Endurbirt hér með leyfi.]

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Guðni Einarsson | gudni@mbl.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is