„Ekkert gaman að sitja iðjulaus”


„Kraftarnir eru nú ekki orðnir miklir, en ég er svo þakklát Guði fyrir að hafa sæmilega andlega heilsu,” segir Elín Jónasdóttir á Siglufirði sem er 100 ára í dag. Verst þykir henni að geta ekki unnið neitt í höndunum lengur en þar til fyrir skemmstu var hún enn saumandi föt til að gefa fátækum úti í heimi.

„Ég er dóttir bónda og bóndakonu á Suðurlandinu, undir Eyjafjöllum, og ólst upp til tólf ára aldurs í  foreldrahúsum en fór síðan á annan bæ í sveitinni og var þar fram yfir tvítugt. Svo langaði mig að fara að sjá mig um eitthvað meira og fór til Reykjavíkur í vinnu þar. Og svo gerðist eitt af öðru. Ég kom á Siglufjörð 1939 og hef verið hér síðan, gerðist húsmóðir en starfaði líka við síldarsöltun á sumrin, þegar það var í boði,” segir Elín, aðspurð um uppruna sinn og tildrög þess að hún fluttist norður í land, í hinn þá ört stækkandi síldarbæ.

„Ég kynntist manni mínum, Óskari Sveinssyni sjómanni, lítillega í Reykjavík og hans vegna kom ég hingað. Hann var þá orðinn ekkjumaður og tók mig inn í heimilið og við urðum svo hjón 28. nóvember 1941. Við eignuðumst þrjú börn, einn dreng og tvær stúlkur. Haukur er fæddur 1941, Guðlaug 1942 og Guðfinna 1946. Barnabörnin eru níu talsins, barnabarnabörnin fjórtán, barnabarnabarnabörn tvö.”

Rúmum áratug eftir að Elín kemur til Siglufjarðar er hann orðinn fimmti stærsti bær á Íslandi, með um 3.100 íbúa fastsetta. Það hefur verið líflegt um að litast, eða hvað?

„Já, það var ekki laust við það, ekki síst á sumrin, þegar íbúatalan tvöfaldaðist og jafnvel meira; það fór nú ekki framhjá manni.”

Trúin mikilvæg

Elín er trúuð kona. Skyldi hún hafa alist upp við mikla trúrækni?

„Nei, en það kom til þannig,” segir hún „að eftir að ég flutti frá foreldrum mínum fannst mér alltaf eins og Guð væri að tala eitthvað til mín, en skildi ekki til fulls hvað væri að ske – það var aldrei talað um svona lagað, um trúmál eða frelsun, það var ekki til í tungumálinu held ég þá – þótt maður færi í kirkju á sunnudögum af og til, og mér fannst eitthvað vanta, ef ég komst ekki í kirkjuna. Svo bara hélt þetta áfram, ég vissi ekki hvað var að gerast í lífi mínu, en mér leið ekki vel og fann að ég þyrfti á Guði að halda. Svo fór ég að ákalla hann og biðja hann um að fyrirgefa mér syndirnar. En það skeði ekki neitt, í langan tíma. Á þessum árum keypti ég öll kristileg blöð sem ég gat náð í, og svo eitt sinn er ég að fletta einhverju þeirra og sé þá grein þar sem þetta er allt útskýrt, hvernig maður ætti að nálgast Guð. Maður átti sumsé að biðja Jesú um að fyrirgefa sér syndirnar. Og ég hugsaði með mér, að þetta skyldi ég reyna. Og ég gerði það og þá stóð ekki á svarinu. Ég man að þetta var að kvöldi til og ég var ein heima; ég kraup við eldhúsbekkinn og það var eins og það væri velt þungum poka af herðum mínum. Svona skeði það. Ég fylltist af svo miklum kærleika að mig langaði að hlaupa út á götu og faðma alla sem ég mætti. Það var ekkert annað. Síðan eru liðin um 65 ár og þetta verið bein braut, þannig lagað, ég ákalla Drottin á hverjum degi og stundum oft á dag. En ég fékk nú ekki mikinn meðbyr hjá öllum í fjölskyldunni minni. Þetta þótti eitthvað fanatískt. En ég lét mig hafa það og ákallaði bara Jesú því meira. Og hann hefur aldrei brugðist mér, þó maður skilji ekki allt sem hefur komið í manns veg, það er önnur saga. Guð agar þann sem hann elskar.”

Saumaði föt og gaf

Það eru ekki margir sem vita að Elín hefur í 20–30 ár saumað föt og gefið til fátækra út í heimi, bæði í Austur-Evrópu, Afríku og Asíu. Einnig sendi hún mikið til ABC-hjálparstarfsins á Íslandi, sem síðan kom þessum fatnaði afram til þeirra sem með þurftu.

„Já, það kom til af því að ég kynntist fólki sem var að senda flíkur til annarra landa til þeirra sem áttu lítið til að klæðast í og ég bara slóst í för með því. Og svo þegar þau fóru héðan þá tók ég bara við og hélt áfram. Ég er nýlega hætt þessu því ég get þetta ekki lengur, ég er orðin svo dofin í höndunum. Það byrjaði í vetur,” segir hún.

Elín missti eiginmann sinn 14. desember 1983 og bjó eftir það ein í heimili til 98 ára aldurs en var boðið að dvelja á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar yfir jólin 2007 en veiktist og ílentist út af því og kveðst ekki vera á leiðinni heim á Suðurgötu 68 í bráð, enda sé vel um sig hugsað þar sem hún sé núna.

Grátið í koddann

Sjálf fór Elín ekki varhluta af fátæktinni á uppvaxtarárum sínum, og rifjar það m.a. upp að þegar hún fermdist hafi hún ekki einu sinni fengið póstkort og því ekki átt neitt til minningar um þann dag. Kveðst hún hafa grátið sig í svefn um kvöldið, henni hafi fundist þetta svo sárt. Lífið hafi þannig ekki beint verið dans á rósum. Þetta hafi samt ekki verið út að því að fólkið sem hún var hjá hafi verið sér vont, alls ekki, heldur hafi öll tilveran snúist um það eitt að vinna og vinna. Bæði þarna og annars staðar. Lífsbaráttan hafi verið svo hörð. Og í þann tíð var allt unnið með handafli en ekki vélum eins og síðar tíðkaðist til allra hluta.
Sjálfan fermingardaginn var hellirigning og enginn á bænum treysti sér til að ríða með Elínu yfir til kirkjunnar, Stóradalskirkju undir Eyjafjöllum, sem var lítil timburkirkja, reist árið 1895. Og hlífðarföt átti stúlkan engin til að verjast dembunni. Um síðir var þó ákveðið að tvo uppkomin börn hjónanna þar færu með henni og holdvot komst hún á áfangastað í fylgd þeirra.

Andleg vakning

En hvað finnst Elínu um að vera nú orðin 100 ára?

„Æ, ég er eiginlega ekkert hrifin af því að vera orðin svona gömul, því til hvers að lifa þegar maður getur ekki gert neitt af viti lengur? Það er ekkert gaman að sitja iðjulaus allan daginn. Skammtímaminnið er orðið lélegt, en ég man betur aftur í tímann. Kraftarnir eru heldur ekki orðnir miklir, en ég er svo þakklát Guði fyrir að hafa sæmilega andlega heilsu, mér finnst svo ömurlegt að sjá fólk sem er út úr heiminum í mörg ár og veit varla hvar það er. Ég vorkenni aðstandendum að þurfa að horfa upp á slíkt.”
Ástvinir Elínar ætla að minnast hinna merku tímamóta, aldarafmælisins, á morgun, laugardag, með kaffisamsæti í sal Dvalarheimilis aldraðra (Skálarhlíð) á Siglufirði á milli kl. 15 og 18 og eru allir hjartanlega velkomnir þangað. Hún vill engar gjafir eða blóm en óskar mjög eftir því að fólk láti andvirði þess sem það ætlaði að gefa renna til ABC-hjálparstarfsins á Íslandi. Það má leggja inn á: Hjálparstarf ABC á Íslandi, reikningur númer 1155-15-044020 (kt. 690688-1589). Nánari upplýsingar má finna á vefslóðinni: http://www.abc.is.

Og hvers myndi afmælisbarnið svo vilja óska þjóðinni sinni á komandi árum?

Gamla konan, hokin af reynslu, er ekki í nokkrum vafa og svarar umsvifalaust og leggur áherslu á hvert orð. „Ég hefði mestan áhuga á því, að það yrði andleg vakning, því ekki veitir af. Ég yrði glöðust, ef það mætti verða. Því fólk nú á tímum hugsar meira um peningana en sitt andlega ástand, því miður.”
Elín að sauma á gömlu vélina.

Elín að sauma á gömlu vélina.

Elín á 100 ára afmælisdaginn, 16. maí 2008.

Elín á 100 ára afmælisdaginn, 16. maí 2008.

[Fyrst birt í Morgunblaðinu, 16. maí 2008, bls. 8.]

Mynd af afmælisbarninu 100 ára og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is
Aðrar myndir eru úr fjölskyldualbúmi Elínar.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is