Ekkert barn útundan


Það styttist óðum í að skólahald hefjist aftur eftir sumarfrí. Grunnskóli Fjallabyggðar verður t.d. settur nú á föstudag, 23. ágúst.

Starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar, sem er til húsa að Háaleitisbraut 66 í Reykjavík, hefur verið að undirbúa haustið til þess að geta aðstoðað sem best þau sem þangað leita og næstu daga og vikur munu félagsráðgjafar og sjálfboðaliðar þar taka á móti eða heyra í foreldrum grunnskólabarna sem búa við kröpp kjör og aðstoða um ýmislegt sem vantar í upphafi skólaársins.

Á síðasta starfsári veitti Hjálparstarf kirkjunnar samtals 2.091 fjölskyldu á Íslandi aðstoð. Í ár er von á öðrum eins fjölda. Barnafjölskyldur fengu inneignarkort fyrir matvöru og börn og unglingar fengu styrki til íþróttaiðkunar, listnáms og tómstundastarfs. Ungmenni fengu einnig styrki til greiðslu skólagjalda í framhaldsskólum og fyrir bóka- og efniskostnaði, að fátt eitt sé nefnt.

Hjálparstarfið hefur hrundið af stað átakinu Ekkert barn útundan og sent valgreiðslukröfu í heimabanka landsmanna upp á 2.600 krónur en andvirðið fer til starfsins innanlands. Í fyrra söfnuðust um 7,5 milljónir króna með þessum hætti.

Sími Hjálparstarfs kirkjunnar er 528-4400.

Sjá nánar hér.

Mynd: Aðsend.
Texti: Hjálparstarf kirkjunnar / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]