Einn kemur þá annar fer


Langflestir farfuglanna okkar eru horfnir á braut til sólríkari landa en aðrir eru í startholunum, eins og hettumáfarnir 500 sem voru á Leirunum í gær, við ós Hólsár.

Ungir hettumáfar sáust þarna líka, eins og gefur að skilja, en þeir eru mjög ólíkir foreldrunum að lit, allir dökkmóflikróttir, einkum ofan á vængjum. Á flugi virðist sem mórautt band liggi eftir hvítu stélinu yst, en það er í raun svart. Þessi afturjaðar mun vera besta greiningareinkennið. Nefið er dökkbleikt og fætur sömuleiðis. Fullorðinslitnum er náð að ári liðnu, sem og kynþroska.

Þessi gífurlegi fjöldi hettumáfanna, sem minnst var á, bendir til þess að aðkomufuglar hafi slegist í hóp með þeim siglfirsku og ekki sé langt þar til þeir kveðja okkur um sinn.

Íslenski hettumáfurinn er að verulegu leyti farfugl sem heldur til Evrópustranda undir vetur (80-90% stofnsins) og einhverjir fara vestur um haf. Margir fuglanna (3.000-10.000) dveljast þó einnig hér við land, einkum við Suðvestur-, Norður- og Austurland. Vetursetufuglarnir eru þá í höfnum og við þéttbýli.

En einn kemur þá annar fer. Því aðrir fuglar eru mættir alla leið úr Faxaflóa eða Breiðafirði og ætla sér líklega að njóta fjarðarins með okkur í vetur. Þetta eru dílaskarfar.

Sveinn Þorsteinsson náði myndum af tveimur fullorðnum í gær. Varpheimkynnin eru annars fyrir Suðvestur- og Vesturlandi.

Ungarnir verða fleygir u.þ.b. 50 daga gamlir en dvelja við hreiðrið í 40-50 daga eftir það og eru skólaðir áfram í átt til sjáfstæðis. Að því loknu fara þeir, eins og allir aðrir dílaskarfar, á flakk, mislangt þó – dreifast um allflestar strendur landsins og hafa þar vetursetu og eiga það jafnvel til að heimsækja stór vötn, eins og t.d. Þingvallavatn. Ungarnir eru brúnir á lit, þegar hér er komið sögu, og lithimna augnanna einnig; hún verður ekki græn fyrr en að ári liðnu. Kynþroska er náð 3-5 ára. Dílaskarfsstofninn er að sumri talinn vera 2.500 pör nú um stundir en að vetri 10.000-20.000 fuglar.

Hér sést lítill hluti máfagersins sem var á Leirunum í gær.

Svona lítur hettumáfur á fyrsta vetri út.

Myndin var tekin 7. september 2009.

Sumar- og vetrarheimkynni íslenskra hettumáfa.

Dílaskarfarnir tveir sem Sveinn Þorsteinsson myndaði í gær,

fyrir neðan blokkirnar í Hvanneyrarbrautinni.

Sumar- og vetrarútbreiðsla íslenskra dílaskarfa.

Þrír dílaskarfsungar og egg í hreiðri, komið að ábroti.

Kirkjusker á Breiðafrði, 21. maí 2008.

Svona verða þeir nokkru síðar.

Kirkjusker á Breiðafrði, 21. maí 2008.

Og hér er einn við Togarabryggjuna 10. febrúar 2008.

Eins og sjá má er lithimna augna orðin græn, sem merkir að þetta er eldri fugl en eins árs

en samt ekki kynþroska eftir hamnum að dæma.

Ljósmynd af tveimur dílaskörfum: Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is

Aðrar ljósmyndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Útbreiðsla hettumáfs: Fuglavefurinn (http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=13). Birt með leyfi.

Útbreiðsla dílaskarfs: Fuglavefurinn (http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=42). Birt með leyfi.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is