Einleikari af siglfirskum ættum


Einn af fjórum ungum einleikurum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu í síðustu viku er af siglfirskum ættum. Þetta er Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmonikkuleikari, sonur Ásgeirs Jónassonar og Ásdísar Hinriksdóttur sem búa í Reykjavík. Ásgeir (f. 1948) er stýrimaður, sonur Jónasar Ásgeirssonar kaupmanns á Siglufirði og skíðakappa (f. 1920, d. 1996) og Margrétar Ólafsdóttur verslunarmanns og læknaritara frá Hlíð við Hlíðarveg (f. 1921, d. 2005). Ásdís er hjúkrunarfræðingur, ættuð frá Grundarfirði.

Jónas Ásgeir er fæddur 1993 og hóf tónlistarnám níu ára gamall. Hann lauk námi í Tónskóla Eddu Borg 2013 og hefur síðan stundað framhaldsnám í Konunglega danska konservatóríinu í Kaupmannahöfn. Í umsögn tónlistargagnrýnanda Morgunblaðsins segir: „Það er ekki laust við að Jónas Ásgeir hafi rétt svo stolið senunni með sjaldséð konserthljóðfæri í kjöltunni en um leið kynnt fyrir nokkrum vel verseruðum áskriftargestum sjaldheyrt en áhugavert tónverk með snilldarlegu handbragði … Jónas Ásgeir lék beinskeytta sveipi verksins listilega vel af ástríðu og skapi.“

Jónas Ásgeir Ásgeirsson.

Jónas og foreldrar hans.

Myndir: Aðsendar.
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is og Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is