Ein í stuði


Merk tímamót urðu í iðnsögu Siglufjarðar á dögunum, þegar Freyja Þorfinnsdóttir, nemi í rafvirkjun, hóf störf hjá Raffó ehf. Engin kona hefur áður starfað við þetta hér í bæ, að því er glöggir menn fullyrða.

Freyja á reyndar sterk tengsl hingað, því henni var rúmlega ársgamalli komið í fóstur hjá Önnu Sigurbjörgu Gilsdóttur hjúkrunarkonu og Valþóri Stefánssyni lækni, sem þá bjuggu í Svíþjóð, og fluttist með þeim til Siglufjarðar þegar hún var 6 ára gömul. Fjórum árum síðar, þegar hún var 10 ára, flutti hún aftur til kynforeldra sinna, sem þá bjuggu í Hafnarfirði, en fluttust síðar austur í Norðfjörð.

 

Freyja, sem hefur lokið bóklegum hluta sveinsprófsins og er núna að safna tímum í þann verklega, er 28 ára gömul og á lögheimil á Akureyri. Maður hennar, Bjarni Gunnarsson, er þar smiður. Þau eiga tvær dætur, Ingunni Rán, 5 ára, og Birgittu Ösp, sem er að verða 2 ára.

Síminn gerði útslagið

En af hverju rafvirkjun en ekki eitthvað annað hefðbundnara nám?

„Þetta byrjaði nú þannig að ég var að vinna hjá Símanum í Reykjavík, var þar í mörg ár, fyrst við að moka skurði en var svo færð upp og gerð að aðstoðarmanni tengjara, og það eiginlega kveikti í mér. Þegar ég svo fór að velja á milli þess að vilja fara í símvirkjunarnám eða rafvirkjunarnám varð hið síðara ofan á, því ég taldi líklegra að meira yrði að gera í því en hinu,‟ svarar hún.

Rafvirkjun tekur að jafnaði fjögur ár og skiptist í nám í skóla og starfsþjálfun á vinnustað. Um er að ræða tvenns konar skipulag, annars vegar verknámsleið þar sem meðalnámstími í skóla er 7 annir að meðtöldu grunnnámi auk 24 vikna starfsþjálfunar, og hins vegar samningsbundið iðnnám þar sem meðalnámstími í skóla er 6 annir að meðtöldu grunnnámi auk 48 vikna starfsþjálfunar. Freyja valdi það fyrrnefnda.

 

„Ég byrjaði í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) á Neskaupstað, þar sem lífræðilegir foreldrar mínir búa, en flutti svo til Akureyrar og kláraði þar bóklega hlutann, í Verkmenntaskólanum (VMA), og þarf núna að vera sex mánuði í vinnu,‟ segir Freyja.

Hún var sú eina í þessu námi eystra og líka hér nyrðra.

Fyrir 7 árum voru einungis 9 konur með sveinspróf í rafvirkjun

„Konur með sveinspróf í rafvirkjun eru í dag 29 og af þeim hafa 20 lokið prófi á síðustu 7 árum, og þar af fimm árið 2012,‟ sagði Stefán Ó. Guðmundsson á Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins, þegar tíðindamaður Siglfirðings.is hafði samband við hann. „Það má segja að það sé alltaf að aukast, sem betur fer, að konur sæki í fagið, enda mörg störf í svona tæknifagi sem vekja áhuga á starfinu. Og í sveinsprófum á árinu 2011 urðu stúlkur efstar bæði í febrúar- og júníprófinu sem sýnir að þetta á vel við þær, auk þess sem þetta eru sæmilega vel launuð störf,‟ bætti hann við.

Og Freyja er mjög ánægð. „Fólk veit einhvern veginn ekki hvað er í boði. Og kannski ýtir þetta á að fleiri pæli í því alla vega. Enda fær maður oft komment; fólk spyr mig við hvað ég starfi og þegar ég segist vera að læra rafvirkjun, þá rekur það upp stór augu, finnst þetta óvæntar og merkilegar fréttir, að ung kona skuli vera í svona djobbi. En tímarnir breytast. Þetta er engin rosaleg líkamleg áreynsla og hentar því konum ágætlega. Þetta er tiltölulega þrifalegt líka, en auðvitað getur maður lent í ýmsu, t.d. þegar verið er að bora o.s.frv., og rykið hleðst á mann, en þá er bara að taka því,‟ segir hún.

Tekið opnum örmum hér

Ástæðan fyrir því að hún er á Siglufirði er sú, að hún athugaði fyrst alls staðar á Akureyri, eins og gefur að skilja, en þar var hvergi hægt að komast að. Þá leit hún inn á Raffó og var tekið opnum örmum.

 

„Jú, sjáðu til, það þurfa allir að fá tækifæri og ef maður getur veitt þau er engin spurning að láta verða af því. Ég fékk sjálfur tækifæri á sínum tíma og veit hvernig þetta er og hvaða gildi það hefur,‟ segir Aðalsteinn Þór Arnarsson, annar tveggja eiganda og prímus mótor hjá Raffó. „Við vorum ekkert að fara að ráða einn eða neinn, enda ræðst þetta mikið til af verkefnum. Og veturinn er oft erfiður. En í þessu tilfelli fannst mér ekki annað koma til greina en að taka sénsinn, í von um að nóg verði að gera og allt blessist hvað það varðar. Og ég sé ekki eftir því. Þessi unga kona er nýbyrjuð, búin að vinna í örfáa daga, en hefur nú þegar sýnt að hún er hörkustarfsmaður, útsjónarsöm og flink.‟

Leggur mikið á sig

Og Freyja, sem er afar þakklát fyrir móttökurnar á Siglufirði, eftir að hafa komið alls staðar að lokuðum dyrum á Akureyri, leggur mikið á sig vegna þessa alls. Hún býr, eins og áður fyrr, hjá Önnu og Valþóri, en fer til Akureyrar á föstudagsmorgnum og kemur til baka ýmist á sunnudagskvöldi eða með rútunni á mánudagsmorgni, er í 80% vinnu til að lengja helgarfríið, fá einn dag í viðbót til að vera heima með fjölskyldunni, en skúrar þess utan á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar á Siglufirði á kvöldin, eftir að hafa lagað raftæki og aðrar græjur heimamanna og nágranna þeirra allan daginn.
Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]