Eggjaþjófurinn


Hrafninn verpir snemma, töluvert á undan öðrum fuglum langflestum, og er
það til að auðvelda honum fæðuöflun eftir að ungarnir eru komnir úr
hreiðri, enda aðrar tegundir einmitt þá að byrja sína vorvinnu. Á dögunum
náði Sveinn Þorsteinsson myndum af krumma, þar sem hann var búinn að
næla sér í hettumáfsegg og lagður af stað með það í laupinn sinn – með
gargandi foreldrana verðandi á eftir sér. 

Kjörlendið er annars klettar, gljúfur og úfin hraun. Varpstöðvarnar eru um norðurhvel jarðar, allt frá sjávarmáli til hæstu fjalla. Um margar deilitegundir er að ræða. Nafntegundin, Corvus corax corax, á heimkynni í Evrópu og Asíu, þ.e.a.s allt frá Skandinavíu, Bretlandseyjum og Frakklandi austur að Jeniseifljóti.

Hrafnar munu að jafnaði vera stærri því norðar sem dregur eða hærra frá sjó, eins og t.d. í Himalajafjöllum.

Íslenski hrafninn er eindreginn staðfugl. Einkvæni ríkir og er tryggð haldið við maka ævilangt. Deyi annar fuglinn kemur strax nýr maki í hans stað. Aðalvarptíminn er í apríl en getur þó hafist bæði fyrr og síðar. Hreiðrið nefnist dyngja, bálkur eða laupur og er byggt úr sprekum (allt að 150 cm löngum og 2,5 cm gildum), lyngi, beinum og þara og stundum er gaddavír bætt í en svo fóðrað með ull, grasi eða mosa. Þetta getur orðið mikil smíð, allt að 150 cm á hæð, einkum þó erlendis, og 150 cm í þvermál. Er hreiðrið oftast á stöðum þar sem erfitt er að komast að, yfirleitt á klettasyllum. Víða erlendis eru tré vinsæl hreiðurstæði. Bæði kynin taka þátt í smíðinni. Eggin eru oftast 4-6 en geta þó verið 2-7 að tölu. Þau eru ljósblá eða blágræn að lit, gjarnan með dökk- eða mosabrúnum dílum og strikum. Útungun tekur 18-21 dag. Einungis kvenfuglinn liggur á en bæði ala önn fyrir ungunum sem koma hálfnaktir og ósjálfbjarga í þennan heim. Yfirleitt eru þeir mataðir á skordýrum fyrstu dagana. Þeir verða fleygir 35-49 daga gamlir og að fullu sjálfstæðir 2-6 mánuðum síðar.

Hrafnar verða ekki kynþroska fyrr en 2-3 ára. Flakka þeir um í hópum að þeim tíma og eiga það til að valda töluverðum usla í þéttum fuglabyggðum með ránum sínum.

   

Flugið er þróttmikið og oftast beint. Svif- og renniflug er þó einnig til, sem og leik- og fimleikaflug. 

   

Eins og frændurnir er hrafninn ákaflega fjölhæfur að afla sér viðurværis. Hann er nánast alæta, lifir mikið á hvers konar úrgangi, t.d. frá heimilum og slátur- og frystihúsum, og er mikill eggja- og ungaræningi. Þá á hann það til að leggjast á veikburða dýr, bæði tamin og villt. Ber, kartöflur, rófur og annað þessháttar, étur hann líka. Í Ameríku tekur hrafninn smávaxin nagdýr og hér á landi og á Grænlandi stundum rjúpur og aðra fugla.

   

Áður fyrr, á meðan byggð var dreifð í landinu og lítið um þéttbýli, skiptu hrafnarnir sér á bæi á veturna og lifðu á því sem til féll þaðan. Voru þeir kallaðir bæjarhrafnar og þótti ógæfumerki að gera þeim mein.

   

Í nokkrum Evrópulöndum var fé lagt til höfuðs þessum svarta fugli og bændur skyldaðir til að brjóta egg hans og dyngjur. Gilda þessar reglur sumsstaðar enn í dag. Útrýmingarherferð var auk þess rekin af miklu kappi hinum megin Atlantshafsins, frá miðri 19. öld og fram yfir aldamót. Tókst að eyða hrafninum í mestallri Mið-Evrópu, Aaustur-Englandi, Suður-Svíþjóð og tveimur fylkjum Bandaríkjanna, þ.e.a.s. Alabama og Kentucky. Auk beinna ofsókna er talið að skógarhögg, landbúnaður og ofveiði á vísundum hafi leitt til fækkunar hans í Ameríku. Í Færeyjum hvíldi sú kvöð á mönnum að drepa einn hrafn árlega eða tiltekinn fjölda af öðrum gripfuglum. Urðu menn að framvísa nefi til sannindamerkis en áttu annars yfir höfði sér fjárútlát.

   

Eftir seinni heimsstyrjöldina tóku hrafnar þó að rétta úr kútnum. Danski varpstofninn óx úr 19 pörum árið 1960 upp í 170 pör árið 1974, eða á 14 árum, og á svæði einu í Alaska næstum fjórfaldaðist stofninn á 28 ára tímabili, frá 1947 til 1975. Hrafninn er nú friðaður sumsstaðar í Evrópu og hefur verið alfriðaður frá 1974 í Mexíkó og Bandaríkjunum að Alaska undanskildu.

   

Frá 1980-1988 var átak gert í merkingum á hrafnsungum, einkum í Þingeyjarsýslum, á Austurlandi og á Suðurlandsundirlendinu og hafa fengist af því miklar upplýsingar um lifnaðarhætti og ferðir þeirra.

   

Á Íslandi er hann á válista síðan árið 2000.

   

Hér koma svo myndirnar.

Myndir: Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is