Ef fólk hafði ekki skip gat það ekki lifað í Fljótum


Óhætt er að fullyrða að enginn núlifandi Íslendingur þekki betur til sögu báta- og skipasögu Fljóta í Skagafirði en Njörður Sæberg Jóhannsson, enda hefur hann um langt árabil leitað heimilda og grandskoðað það sem fundist hefur.

Hann er fæddur á Siglufirði árið 1945 og hefur búið þar alla tíð, á ættir að rekja til mikilla skipasmiða. Hann lærði múrverk í Iðnskólanum á Siglufirði, fékk síðar meistararéttindi og starfaði eftir það sjálfstætt, en hafði jafnframt tekið fagteikningar í trésmíði. Á síðustu árum hefur Njörður fengist við það í frístundum að smíða skipslíkön, þar sem tomman er fetið, þ.e.a.s. í hlutföllunum 1 á móti 12. Langflest eru þau af gömlum, sögufrægum skipum Fljótamanna á 19. öld, og hvert öðru glæsilegra. Og handverkið er ekkert venjulegt, heldur allt unnið ofan í minnstu smáatriði, jafnt neðan þilja sem ofan.

Fyrr á öldum og allt fram til ársins 1898 var í Fljótum einn hreppur, Fljótahreppur eða Holtshreppur, gríðarmikill að umfangi og með þeim allra stærstu á Íslandi. Hann lá upphaflega á milli Stafár, vestan Reykjarhóls á Bökkum, og Sauðaness, nokkurn veginn, en 1826 færðist austurlínan að Almenningsnöf, norðan við Hraun.

Landnámsmenn eru taldir hafa verið sex: Flóki Vilgerðarson, Nafar-Helgi, Þórður Knappur Bjarnarson, Bárður Suðureyingur, Brúni Háreksson og Úlfur víkingur og undirstrikar þessi fjöldi áðurnefnt víðfeðmi sveitarinnar. Ætíð var líka mannmargt í hreppnum. Árið 1703 eru þar tæp 19% allra Skagfirðinga, eða 588 einstaklingar, í harðindakaflanum mikla 1785 eru þeir rúm 19% heildarinnar, og alla nítjándu öldina 15-18%.

Árið 1870 búa í Fljótum 766 manns og hafa þá aldrei verið fleiri, af opinberum skýrslum að dæma. Býli eru um 90 talsins, að kotum og hjáleigum meðtöldum. Og sjómannaskóla er komið á fót í Haganesvík.

Slysið á Mariönnu var kveikjan

 „Áhugi minn á súgbyrðingum vaknaði þegar ég var um 10 ára gamall,“ segir Njörður, aðspurður um áhuga sinn á téðum fleyjum, „og mér fannst alveg skelfilegt að horfa upp á það að öll þessi skip skyldu vera eyðilögð, árabátar, trillur og annað slíkt. Og þegar árin tóku að færast yfir fór ég að hugsa hvað ég gæti gert til þess að yngra fólk, t.d. afkomendur mínir, dætur og afabörnin mín, fengju að kynnast þessari merku sögu. Og í raun og veru fer líkanasmíðin svoleiðis af stað en verður bara miklu meira, því nú eru komin 17 skip.“

Öll eru þau varðveitt innan fjölskyldunnar.

En hvers vegna Fljót í Skagafirði?

„Jú, árið 1956, þá 11 ára gamall, fór ég til Ólafsfjarðar og hitti ömmu mína, Jóhönnu Lovísu Gísladóttur, og ég spurði hana að því hvers vegna pabbi minn héti Jóhann Sævaldur. Og hún segir að árið 1922 – í Krossmessubylnum svokallaða – hafi m.a. farist skip úr Eyjafirðinum sem hét Marianna, með 12 manna áhöfn, sem allt voru Fljótamenn, og skipstjórinn hafi heitið Jóhann Jónsson, og hann hafi vitjað nafns og beðið hana um að Jóhann – en hún var þá ófrísk að föður mínum – yrði látinn heita Jóhann Sævaldur. Þannig kemur skýringin á þessu nafni,“ segir Njörður.

„Mér finnst þetta allt dálítið skrýtið og fer ári eftir, um páskana, með afa mínum í móðurætt, Jóni Kristjánssyni frá Lambanesi, siglandi á trillu hans yfir í Haganesvík og þaðan inn í Flókadal. Og ég man að fleiri guttar voru þarna með í för. Ég fór að Vestari-Hóli, því þegar heimili foreldra pabba leystist upp var hann fyrst þar í fóstri og þekkti þetta fólk mjög vel. Ástæðan fyrir því að ég fór þangað var líka sú, að Sigmundur, sem bjó á Vestari-Hóli 1922, missti tvo syni sína með Mariönnu; þeir hétu Anton og Björgvin. Og ég fór að spyrja fólkið sem var þarna út í þetta og um þennan Jóhann, og þarna fæ ég að heyra allt um Mariönnu og þetta hræðilega slys. Ég fer svo til baka af Vestari-Hóli að loknum páskum og niður í Haganesvík og gisti þar eina nótt hjá vinafólki, Hermanni og Petru, og fræðist enn meira um téða atburði. Og þannig vaknar áhugi minn á sögu Fljótamanna.

Áhugi minn á skipasmíði kviknar svo fyrir alvöru þegar ég er 14 ára. Þá kaupir pabbi minn gamla trillu sem bróðir hans hafði átt og þurfti að gera við og hann fékk áðurnefndan afa minn, Jón, til að hjálpa sér, að höggva bönd og annað. Og ég fékk að aðstoða, halda við þegar verið var að hnoða o.s.frv. Nú varð ekki aftur snúið. Og ég hef alltaf verið með sögu Fljótanna á bak við eyrað síðan, leitað víða að heimildum og ekki síst um skipasmíði þar, og mér hefur tekist að ná aftur til ársins 1430 og fram til 1922 í því grúski mínu.

Ég smíðaði trillu sjálfur árið 1993, úr furu og eik, í bílskúrnum hjá pabba. Hún fékk nafnið Ósk.“

Þess má geta, að Njörður og faðir hans endursmíðuðu líka hér um árið Sigurvin, fiskibát Gústa guðsmanns, sem var orðinn illa farinn eftir volk í tímans straumi. Hann er nú til sýnis í einni byggingu Síldarminjasafns Íslands, Bátahúsinu.

Nýttu sér heita vatnið

„Skipasmíði Fljótamanna er hægt að rekja alveg frá landnámi og þótt ekki sé allt skrifað í annála er það býsna margt sem og annars staðar,“ segir Njörður. „Lúðvík Kristjánsson segir í Íslenzkum sjávarháttum að elsta ritaða heimildin sem hann hafi um skipasmíðar sé þegar Jón Vilhjálmsson biskup á Hólum 1425–1435 biður Fljótamenn að smíða fyrir sig sexæring og svo tveim árum síðar tvo áttæringa. Hann er að kaupa enskt kaupfar, kaupir helminginn fyrst og borgar það með tveimur tonnum af skreið, en til þess að geta borgað hinn helminginn þarf hann tólf tonn í viðbót. Þess vegna biður hann Fljótamenn og það er kvöð á þessum mönnum sem búa á jörðum sem Hólastóll á, að greiða skatt, og hann ætlar að láta þá gera þetta þannig. Ég er reyndar búinn að finna eldri heimild um skipasmíði Fljótamanna, sú er frá um 1360. Ég ætla ekki að upplýsa strax hver hún er, en hún er til. Og það er bæði skipasmíði og skipaviðgerð, sem er dálítið merkilegt.

Alls er ég með heimildir um 40 manns eða svo sem hafa smíðað skip í Fljótum, frá 1424 til 1922, og þeir eru sjálfsagt miklu fleiri en það. Einn prestur á 15. öld, á Barði, Sokki Einarsson, var mjög liðtækur skipasmiður og sonur hans líka, sem einnig varð prestur á Barði. Eins er með Fljóta-Brand sem í heimildum er stundum nefndur Brandur ríki, en hét Brandur Pálsson, hann var fæddur 1460 eða 1470, og bjó í Holti í Fljótum 1530, hann var mjög lipur skipasmiður og var með mikla útgerð og verkaði mikið af skreið og hann seldi líka í erlend skip. Og þeir eru fleiri, ótalmargir, eins og t.d. Jón Jónsson yngri, frá Hóli við Dalvík, faðir Kristjáns í Lambanesi, og Sæmundur Jónsson, tengdafaðir Kristjáns.

Skipin voru smíðuð víða um sveitina, meira að segja heima á bæjum, eins og t.a.m. á hlaðinu í Stórholti. Og á Mói. Og tóku það svo niður á vetrinum. Í Stórholti tóku þeir það niður þegar var frosið og fóru niður með það að Byttunesi og biðu með það þar þangað til ísinn fór af Miklavatni, þá réru þeir á því á vatninu og tóku það svo yfir malarkambinn og út í sjó. Á Lambanesreykjum smíðuðu þeir mikið niðri á eyrinni, vegna þess að þeir notuðu heita vatnið, lögðu borð í 80-85 stiga heitt vatn, létu þau vera þar allt upp í sólarhring og beygðu þau svo eins og þeir vildu, voru með tvo staura, stungu öðrum endanum í, svo sneru þeir, svo beygðu þeir og létu þau kólna. Ástæðan fyrir því að þeir smíða plankabyggð skip í Haganesvík er sú, að það voru mjög heitar laugar, austan megin við stöðuvatnið þar, Hópið, og því auðvelt að eiga við efniviðinn. Þeir byrja því að nýta heita vatnið mjög snemma.“

Upplýsingar geymdar í vísum

Og fleira kunnu þeir, sem athygli vekur, segir Njörður, þótt ekki fari það hátt.

„Það var eitt líka sem var áberandi í Fljótunum, ég hef ekki getað rakið það lengra aftur en til 1776 eða 1778, en það voru til vísur um smíði skipa, 18 vísur um áttæring, 16 um sexæring og 14 um fjórróinn bát, helmingurinn var um það hvernig þeir voru í smíði og hitt var útskýring, önnur hver vísa var alltaf útskýring, sú seinni útskýring á vísunni á undan. Svona heimildir er erfitt að finna nú á tímum. Þetta kenndi Jón Kristjánsson, afi, mér, og langafi, Kristján, kunni þetta líka, ég heyrði þetta hjá honum en var bara svo ungur, að ég skrifaði það ekki niður þá, heldur seinna. Þetta gekk frá einum manni til annars því þeir höfðu ekki teikningar, en menn höfðu heiti á öllum hlutum. Ef þú t.d. sérð bát smíðaðan, þá köllum við þetta háls að framan og afturháls að aftan og svo milliborð á milli og hvert umfar hefur svo sitt heiti. Og svo framvegis.

Ég spurði bátasmið hér á Siglufirði, niðri í Slipp, að því hvort hann kannaðist við þetta, en hann hristi bara hausinn og sagði mig vera fífl. Eins er með fleiri sem ég hef spurt, jafnvel menntaða sagnfræðinga, sem allt þykjast vita, og þeir bara líta á mann stóreygir.

Annað sem þeir voru með í Fljótum, var svokallaður strákjölur. Ef menn voru með tveggja tommu breiðan kjöl, þá var hann hafður svona tvær og hálf tomma niður og jafn þykkur og hinna var, tveggja tommu, og hann var negldur neðan í. Þegar menn voru alltaf að setja fram og draga upp og þetta nuddaðist í sífellu, af því að menn höfðu ekkert járn, þá var einfaldlega hægt að skipta um þetta.“

Ógerningur er að segja til um fjölda skipa í Fljótum og nöfn þeirra, en einu sinni fóru átta í einu roki, í Hraunakróknum, segir Njörður. Og þegar árabátaöldinni fer að hnigna, í kringum 1886, voru þar 18 skip, árabátar, sem gefur örlitla innsýn í hvernig þetta hefur verið. Og meira að segja á Gautastöðum, lengst frammi í Stíflu, áttu menn skip þar niður frá, sexæring, og hafa þurft að skokka eina 18 kílómetra til að komast á sjó. Annars voru verbúðir í Hraunakrók, sjö á tímabili, svo að eflaust hefur það bjargað málum, enda hægt að halda til þar þegar menn gerðu út, hvort sem var á hákarl eða þorsk.

„En málið er þetta, að ef fólk hafði ekki skip og gat þar af leiðandi ekki komist á sjó, þá gat það bara ekki lifað þarna í Fljótunum. Svo einfalt er það.“

Ekkert hefur verið grafið þarna í króknum, svo Njörður viti, en eflaust mætti þar finna ýmislegt markvert, væri nánar að gáð, því sjálfur kveðst hann hafa fundið þar hollenska eirnagla eitt sinn.

Fóru um alla sjói norðanlands

„Og enn eitt kom í Fljótin, ég er samt ekki viss nákvæmlega hvenær, og það er það að menn þar virðast hafa lært af Hollendingum varðandi samsetningu á kjöl og stefni, að þar sem kjalsíðan endar, hvort sem er að framan eða aftan, að bora hálftommu gat á samsetningunni í gegn og setja nál, sívala stöng, í gatið, og láta hana vera hálfa inn undir kjalsíðunni og hálfa út, þá læki síður inn með samsetningunni. ég veit að Ari Jónsson og Jón Arngrímsson, sem fengu verðlaun hjá Magnúsi Stephensen amtmanni fyrir skipasmíði og dugnað, að þeir gerðu þetta svona. Og þeir gerðu annað, sem er dálítið merkilegt, að þeir fóru að breyta stóru sexæringunum og áttæringunum og sennilega tveimur teinæringum, þeim sem voru með beint stefni að aftan, sem hallaði svona 14-18 gráður, að þeir tóku kannski sex umför að aftan í burtu, framundir miðju, og settu gafl á þessi skip, um sjólínu, sem var að aftan, og héldu svo breiddinni að mestu leyti þar sem skipin voru breiðust, þannig að þau fengu miklu betri flöt til þess að strjúka sjóinn. Þessi skip reyndust ákaflega vel og Fljótamenn voru fljótir að grípa þetta, því að þessi skip sigldu miklu betur og voru miklu burðarmeiri og þeir fóru um allt á þessum skipum, meira að segja fram í Kolbeinsey, í hákarl. Og þeir fóru vestur á Skalla, þeir fóru á Sporðagrunnið, þeir fóru eiginlega um alla sjói við Norðurlandið.

Ég hef talað við nokkra menn sem hafa verið skipstjórar á Vestfjörðum og hef spurt þá út í hvað þeim fyndist um það, að menn hafi verið að fara á opnum skipum 18 mílur norðaustur af Geirólfsnúp, eins og ég hef heimild um, og þeir hafa svarað því til að það væri ekki hægt á svona litlum skipum. En fyrir nokkru sagði mér maður, sem verið hafði skipstjóri á rækjubát, að hann hafi eitt sinn verið á Sporðagrunninu, var að draga á sandbotni, og skildi bara ekkert í því að allt í einu var skipið fast. Ekki var um neitt annað að ræða en að hífa trollið upp til að vita hvað væri að ske og þá kom í ljós, að það var fullt af sívölu grjóti. Hann var áður búinn að toga í tvo daga og hafði aldrei fundið neina festu, en svo allt í einu kemur þetta grjót. Það er hreinsað úr og sett niður aftur og hann reyndi nú að fara þarna eitthvað um, en þá skeði svipað á öðrum stað. Og nú fór hann að hugsa út í það sem ég hafði sagt honum, að sennilega hafi nú þessir Fljótakarlar farið þetta og víðar og þeir hafi verið að ryðja kjölfestunni þarna út.

Í seinna skiptið sem hann var nú þarna skammt frá fékk hann eikarspýtu með þessu, 2×6 tommu. Hún var boruð fjórum götum í gegn. Þá áttaði hann sig á því hvað um var að ræða. Þetta var hluti af festu, heimatilbúnu akkeri fyrri tíma. Þetta var kross með slám upp, vafið og steinar inn í.

Það eru margir sem eiga enn bágt með að trúa þessu, hvað þeir komust langt, karlarnir. Ein heimild mín segir að þeir hafi farið á 14 tímum úr Haganesvík fjórar mílur norður fyrir Kolbeinsey, þeir voru þá á Blíðhaga, þetta var 1857, líklega síðasta ferð þeirra á opnu skipi norður fyrir þá eyju. Langalangafi minn í móðurætt, Sæmundur Jónsson í Efra-Haganesi, var formaður. Þetta sagði tengdasonur hans og langafi minn í móðurætt, Kristján í Lambanesi, mér, að hann hefði gert.“

Ótti kvennanna

Lífsbaráttan var erfið, því útveginum fylgdu ætíð sjóskaðar. Á árunum 1790-1793 fórust t.a.m. fimm hákarlaskip úr Fljótum, og þá urðu sextán konur ekkjur og fjörutíu börn munaðarlaus. Og í áðurnefndum Krossmessubyl, í maí 1922, þegar Marianna sökk, fórust einnig Aldan, Hvessingur og Samson.

Þetta er Nirði afar hugleikið, ekki síst hlutskipti þeirra sem eftir lifðu.

„Það er ekki nógu mikið skrifað um konurnar og það sem þær máttu lifa við,“ segir hann. „Langamma mín í föðurætt, Sigurlaug Sigurðardóttir, söngs, gaf mér eitt sinn í afmælisgjöf þegar ég var ungur fyrsta bindi af þjóðsögum Jóns Árnasonar, frumútgáfuna. Inni í þeirri bók voru lýsingar á árabátum og handskrifað bréf frá Sigurlaugu til tengdadóttur sinnar, Jóhönnu, ömmu minnar, sem er merkilegt að því leytinu til, að þar kemur fram það sem snýr að konunum, þessara manna sem voru í Fljótunum, það er óttinn; hún hugsaði mikið um óttann og það hvað þessar konur hafi mátt þola sem áttu menn sem fóru í hákarl og komu ekki aftur. Og um börnin sem þær misstu. Þetta var oft rosalegt. Og mér finnst hlutur kvenna í sambandi við útgerðina í Fljótunum hafi verið svo lítils virtur. Það er ljót saga. Til dæmis Helga, móðir Einars B. Guðmundssonar, ég held að hún hafi misst 9 eða 10 börn. Og Björg, langalangamma mín, kona Sæmundar Jónssonar, missir fyrstu tvö börnin sín. Svona var nú lífið hjá þessu fólki. Það var kíghósti, lungnabólga, taugaveiki, börn dóu mánaðargömul, þriggja ára, allt hvaðeina. Og þegar maður fer að líta í gamlar kirkjubækur þá er eitt árið sem ég rak augun í alveg skelfilegt, þá voru í Barðssókn 45 dauðsföll, í Holtssókn 30 og í Knappstaðasókn 14.

Og Skúli Magnússon, sem var sýslumaður Skagfirðinga, segir frá því á einum stað, að eitt það erfiðasta sem hann hafi komist í á sínum ferli hafi verið það að fara yfir í Fljót, þá hafði farist sexæringur, og uppi stóðu 32 börn munaðarlaus, og hann var að gera upp heimili og reyna að koma öllu fyrir.

Mér finnst að bókin Tvennir tímar: endurminningar Hólmfríðar Hjaltason, sem Elínborg Lárusdóttir tók saman, og kom út árið 1949, ætti að vera skyldulesning á Íslandi, bara til að fólk átti sig betur á því hvernig þetta var hér á árum áður.“

Að gera hlutina vel

Njörður kveðst ungur hafa numið mikinn fróðleik af langafa sínum, Kristjáni í Lambanesi, sem var mjög minnugur á gamla tímann. Og oft tárfelldi gamli maðurinn, þegar hann var að rifja upp atburði. Hann varð rúmlega 104 ára. „Hann lagði alltaf áherslu á það, að ef maður ætlaði að gera eitthvað, þá skyldi maður gera það vel. Og hann sagði alltaf, það er ekki nóg að komast á sjó, maður þarf að komast heim aftur. Það var eins hjá afa Jóni, áherslan á að fara gætilega að öllu, hafa alla hluti í lagi og vanda sig. Þetta var bara þeirra mottó og þeir töluðu af reynslunni.“

„Það sem ég vil muna, það man ég,“ segir hann. „Ég legg mikla áherslu á það að hafa hlutina, sem ég er að smíða, nákvæmlega eins og mér er sagt að þeir hafi verið, hvort sem það hefur verið úr munnlegum eða rituðum heimildum, og allt í réttum hlutföllum. Takist það ekki, þá hætti ég. Ég hef brotið tvo bori á þessum 17 skipum. Þeir voru 0,3 mm.

En er eitthvert þeirra í sérstöku uppáhaldi?

„Já, þótt erfitt sé að gera upp á milli þeirra allra, er uppáhaldslíkanið sennilega það sem ég smíðaði með eyfirsku lagi og taumastýri og strákili og kýs í huganum að kalla Blika,“ segir Njörður. Hin nafngreindu skipin sem hann hefur gert eru í stafrófsröð þessi: Álka, Bæringur, Blíðhagi, Fljóta-Víkingur, Haffrúin, Hákarl, Hraunaskipið, Jóhanna, Marianna, Óskin, Sigurvin, Skagaströnd, Uggi, Úlfur og Vonin.

„Ég hef fargað einu líkani, sem ég var beðinn um að smíða. Ég var búinn að leggja í það óhemju vinnu, var með teikningu, en ónákvæma, og vantaði að vita hvernig borðin voru sett saman, því að þar gilda ákveðnar reglur, ég vissi þetta nokkurn veginn að langaði að vita þetta hundrað prósent, og fór með það suður í Þjóðminjasafnið, enda hafði mér verið sagt að upprunalega skipið væri þar, talaði við konu sem var í anddyrinu, hún vísaði mér á mann sem hafði umsjón með bátasafninu sem var í Kópavogi, mig langaði að fá að skoða það og bera saman, og ræddi við hann, sagði ekki til nafns eða neitt, og ég hef aldrei farið eins niðurbrotinn úr nokkurri stofnun vegna þess að mér var sagt að ég væri hálfviti og að það væru sérfræðingar þarna sem þyrftu ekkert að láta segja sér hvernig hlutirnir væru eða hefðu verið. Svo fór ég aftur seinna, hitti þar konu, talaði við hana, og niðurstaðan var sú sama, sérfræðingarnir eru hérna, menn sem eru þarna og eru ekki lærðir smiðir, þeir hafa ekkert til þessara mála að leggja. Þetta kalla ég menntahroka.“

 

Njörður Sæberg Jóhannsson

Ekki fer á milli mála að maður á níræðisaldri hefur kynnst fjölda fólks á liðnum áratugum. Margur skín þar skært í kastljósi minninganna og svo er um Njörð Sæberg Jóhannsson frá Siglufirði. Óneitanlega einn allra minnisverðasti maður sem undirritaður hefur mætt á lífsgöngu sinni.

Við skráningu báta, smíðaðra á Íslandi, sem sjá má á vefnum www.aba.is, hefur Njörður Sæberg reynst skrásetjara sannkallað haldreipi. Undirritaður fullyrðir að enginn núlifandi maður hefur yfirgripsmeiri þekkingu á opnum hákarlaskipum og hákarlaskútum sem smíðuð voru í Fljótum og á Siglufirði hér áður fyrr. Maðurinn hefur á reiðum höndum nöfn þessara báta, þeirra sem þá smíðuðu og hverjir áttu. Öll ártöl þessu viðkomandi vefjast ekki fyrir Nirði Sæberg.

Undanfarna áratugi hefur Njörður smíðað líkön af fjölda þessara fara og er skemmst frá að segja að flest þeirra eru einu þrepi ofar en listasmíði. Nákvæmni hans er með miklum ólíkindum og sér í lagi sé þess gætt að lungann úr starfsævinni hafa greipar hans haldið um múrskeið og múrbretti. Örgrannir borar leika í höndum mannsins og engu skeikar bil á milli hnoða eða fjarlægðar þeirra frá skör.

Veiðitól öll eru um borð í líkönunum og í vistarverum þilfarsbátanna eru kojur með sængurfatnaði.

Vilji Íslendingar varðveita uppruna sinn og sögu, þá ber að varðveita líkön Njarðar Sæbergs um ókomnar aldir.

Engar skráðar heimildir segja söguna betur en þessi líkön gera.

Njörður er ekki margorður um tímafjölda sem fer í smíði á hverju líkani fyrir sig en í sjónvarpsviðtali árið 2015 datt upp úr honum að í líkanið af Haffrúnni, sem var 24 feta bátur, hafi farið 800 klukkustundir og rúmlega 4.000 naglar.

Vel er maðurinn gerður til orðs og æðis og víst er um að orð skulu standa þar sem hann fer.

 

Árni Björn Árnason, Akureyri

 

 

 

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Upphaflega birt í Fiskifréttum 2. júní 2016.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]