Draumurinn var að telja kjark í Siglfirðinga


Þá er enn einu Síldarævintýrinu lokið og ber bærinn þess merki, ekki með rusli og drasli úti um allt eða brotnum rúðum, nei því fer fjarri, heldur er það kyrrðin sem er mjög svo áberandi þessa dagana, mannhafið og ysinn og þysinn og erillinn eru í burtu. Að vísu bara í nokkra daga, því Pæjumótið er handan við hornið.

Gaman að þessu öllu.

Þeir bæjarbúa sem Siglfirðingur.is hefur rætt við eru sammála um að síldarhátíðin hafi verið einstaklega glæsileg, í útliti sem framkvæmd. Gunnar Smári Helgason var þar prímus mótor, allt í öllu, hélt um taumana, var maðurinn á bak við tjöldin.

?Jú, það var stofnað félag um Síldarævintýrið á Siglufirði á vordögum 2010 og það í raun og veru stendur að Síldardögum og Síldarævintýrinu, og ég var svo ráðinn framkvæmdastjóri þess,? segir hann, aðspurður um tildrög þess að hann lenti þarna inni. ?Það má sumsé kenna mér um allt sem fór úrskeiðis, en þakka öllum hinum fyrir það sem lukkaðist vel. Þannig er þetta hugsað,? segir hann og brosir. ?En í alvöru talað finnst mér þetta í heildina hafa tekist mjög vel,? heldur hann áfram. ?Við vorum ákaflega heppin með veður og teljum að það hafi verið 5000-6000 manns í bænum og erum bara sátt. En hvort við erum að gera endilega rétt með því að hafa svona marga daga á Ráðhústorginu, það er ég ekkert alveg viss um. Það gæti verið að við ættum að hafa þetta styttra þar og stærra, en hina dagana minna og á fleiri stöðum. Því við vorum þarna með nýtt atriði, bakkasöng og það heppnaðist alveg sérstaklega vel, þótt það hafi ekki verið neitt unnið og ekki farið inn í upphaflega dagskrá.?

Og fleira var öðruvísi núna en áður.

?Við tókum mikla áhættu með því að sleppa þessum Tívólitækjum fyrir börnin, höfðum fengið ábendingar frá nokkuð mörgum foreldrum um það að þetta væri dýrt og spurningar um hvort ekki væri hægt að leysa þetta einhvern veginn öðruvísi. Þannig að það var ekki selt í nein leiktæki núna, það var allt ókeypis, og við leituðum aðeins í gamla tímann með það hvað við gætum gert. Og mér heyrist á fólki eftir þetta að við höfum farið inn á rétta braut, að þetta hafi verið rétt stefna. Auðvitað getum við gert þetta miklu betur og miklu meira, og við þurfum bara að þróa þetta áfram og lengra á þennan gamla máta, t.d. að vera með fleiri leiktækifæri sem byggjast þá á heimasmíðuðu efni. Það er ljóst að það er hægt að gera ýmislegt, vera t.d. með kassaklifur og ýmsa boltaleiki.?

Nefndin sem hleypt var af stokkunum að þessu tilefni, og sem kölluð kefur verið Síldarútvegsnefnd, eða þá stjórn félagsins, mun fara yfir þetta allt á næstu dögum, athuga hvað virkaði og hvað ekki og hvernig má þá bæta um betur, og skila skýrslu sem þau sem sjá um Síldarævintýrið að ári, geta gripið til, segir Gunnar Smári.

?Eitt af því sem kom í ljós var að við þurfum að hafa gæsluna sýnilegri og hugsanlega þarf fleiri til að sinna henni. Svo var eitt atriði sem féll niður án þess að það væri tekið sérstaklega fram og það voru þessir óvæntu gestir sem áttu að vera í skógræktinni á sunnudeginum kl. 13.00. Þeir virðast hafa litið eitthvað skakkt á dagatalið og bókað þetta að ári. Ég veit að það voru einhverjir hér ekki allskostar glaðir og vil að það komi skýrt fram að skógræktarfélagið ber enga ábyrgð á þeim mistökum, heldur ég einn. Hitt má jafnframt koma fram að ég er mjög ánægður með samstarfið við Skógræktarfélag Siglufjarðar og vonast til að það megi halda áfram og aukast, því skógræktin býður upp á alveg endalausa möguleika, þetta er alveg ofboðslega flottur staður.?

Og hann er þakklátur fólkinu sem var honum til aðstoðar, ekki síst ungu kynslóðinni.

?Maður sér núna að maður þarf að taka fulltrúa barna og unglinga mun fyrr inn í undirbúningsvinnuna. Kristín Hálfdánardóttir og Þórdís Jakobsdóttir aðstoðuðu okkur mikið við unglingaprógrammið og eiga þakkir skildar fyrir. Unglingadiskóið í Partýtjaldinu var t.d. þeirra hugmynd, þær ýttu því af stað og héldu utan um það, og undirbúningurinn fyrir brekkusönginn var líka mikið til unninn af þeim, þær voru driffjaðrirnar í því, þótt við svo kæmum með það sem til þurfti.?

Heimasíða og útvarpsstöð ( fm.trolli.is og 103.7 MHz) voru í loftinu meðan á síldarhátíðinni stóð, og margir fóru þar inn til að skoða og hlusta.

?Við fengum bara leyfi í eina viku hjá Útvarpsréttarnefnd fyrir Trölla,? segir Gunnar. ?Ég held að síðan hafi þjónað ágætlega sínum tilgangi sem upplýsingaveita. Dagskráin stóðst að langmestu leyti. En auðvitað var prentuð dagskrá í umferð og henni var náttúrulega ekki hægt að breyta.?

Og lokaorð framkvæmdastjórans eru þessi:

?Minn draumur í sambandi við Síldarævintýrið var að telja kjark í Siglfirðinga til þess að gera eitthvað nýtt og stórt og hafa trú á fyrirbærinu og okkur sjálfum. Mér hefur fundist ég finna fyrir einhverri minnimáttarkennd hérna, sem er algjör óþarfi, því ég sem aðkomumaður sé ekkert nema tækifæri hérna. Ég er að vísu ekkert litaður af fortíðinni hér, þannig að það er ekkert að trufla mig, en við bara verðum að horfa áfram, við getum ekki endalaust horft til baka. Efniviðurinn sem við höfum er góður, þessi mikla saga. En við þurfum að laga okkur að nútímanum og hafa áræði til að gera eitthvað úr þessu. Því 1950 kemur aldrei aftur.?

Gunnar Smári Helgason.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is