Dílaskarfur við Langeyrarveg

Það er ekki á hverjum degi að ljósmyndarar komast í tæri við jafn gæfan dílaskarf og í stórgrýtinu við Langeyrarveginn í Siglufirði í gær og auðvitað var þá hið kærkomna tækifæri notað. Um var að ræða ungan fugl.

Íslenski dílaskarfurinn lifir mest á botnfiski, eins og t.d. marhnúti, og á það til að sækja hann á mikið dýpi, en tekur líka aðra fiska, s.s. urriða. Hann er djúpsyndur og getur verið allt að mínútu í kafi í einu. Fæðuna gleypir hann ekki fyrr en komið er upp á yfirborðið. Þá étur hann einnig smokkfisk, skeldýr, og krabbadýr og í heitari löndum froska. Veiðitíminn er kvölds og morgna. Þess á milli situr hann oft á landi eða skerjum til að þurrka sig, hvíla og melta, eins og var með þennan.

Myndatökunni tók fyrirsætan með stóískri ró, horfandi dreymnum augum yfir spegilsléttan hafflötinn.

Dílaskarfurinn á sér annars mörg alþýðuheiti, hefur verið kallaður bjargskarfur, díli, dílskarfur, golsi, hnuplungur, hnyplingur, skarbur, skarfur, skerjaskarfur, stóri skarfur, stórskarfur, sæhrafn, urðarskarfur og útileguskarfur. Og ungfuglinn gráskarfur.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]