Dagur í Paradís


Fyrir um fjörutíu árum birtust fyrstu myndirnar af jörðinni teknar úr geimnum. Aldrei áður hafði maðurinn séð heimkynni sín utan frá, jörðina úr þessari fjarlægð fljótandi um umvafða skýjum, en svo bara engu. Þessar myndir voru ótrúlegar, myndir af jörðinni rísandi upp fyrir sjóndeildarhring tunglsins rétt eins og við sjáum sólina rísa hér. Frá þessu sjónarhorni er jörðin eins og hver önnur pláneta, lítill og varnarlaus hnöttur í myrkri víðáttu geimsins. Þetta var alveg ný sýn og sumir fylltust vonleysi og tilgangsleysi og spurðu hvaða tilgang líf einnar agnarsmárrar mannveru gæti haft á þessari litlu kúlu í víðáttu himingeimsins. En aðrir fylltust hinsvegar lotningu yfir fegurð bláa hnattarins.

Í bréfkorni til blaðsins Dags á Akureyri 10 árum eða svo eftir að þessar fyrstu myndir birtust, lýsir maður nokkur dýrð skógræktarinnar hér. Hann segir að á sólhlýjum sumardegi jafnist fátt á við það að hlusta á fuglasönginn og fossniðinn og anda að sér ilmi trjáa og blóma. Á haustdegi gæfi síðan að líta litadýrð þar sem hver trjátegund og annar gróður hefur sitt litaskrúð sem breytist frá degi til dags.

Um 30 árum síðar köllum við þetta óhikað nyrsta skóg á Íslandi. Hann er ekki uppvaxinn einn og óstuddur, og af engu, heldur kostaði það blóð, svita og tár að koma honum á legg. Maðurinn sem bar höfuð og herðar yfir alla aðra í þeirri sögu var talinn undarlegur á sinni tíð, að vera að vasast í þessu þegar nóg annað og að margra viti þarfara var að gera. Þetta var Jóhann Þorvaldsson. Maðurinn sem ritaði bréfið í Akureyrarblaðið árið 1985. Hann var Svarfdælingur að uppruna, fæddur á Tungufelli 16. maí árið 1909 og ólst þar upp. Á sinni löngu starfsævi var hann bæði kennari og skólastjóri. Hann kenndi í Ólafsvík og á Suðureyri við Súgandafjörð en flutti síðan hingað til Siglufjarðar þar sem hann var kennari við barnaskólann árin 1938 til 1973 og síðan skólastjóri frá 1973 til 1979. Þá var hann skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar frá árinu 1945 til 1973.

Skógræktarfélag Siglufjarðar var stofnað árið 1940 og voru stofnendur rétt tæplega fimmtíu, þar á meðal Jóhann sem þá var kosinn gjaldkeri. Á stofnfundinum var greint frá svæðinu sem rækta skyldi og var það í Hólslandi. Fyrsta verk félagsins var því að girða svæðið af.

Kota- eða Leyningsfoss og áin prýða nú Skarðdalsskóg eins og margt annað þarna inn frá. Myndin var tekin 18. júní 2006.

Í samantekt Jóhanns sjálfs um sögu Skógræktarfélags Siglufjarðar segir hann að fyrstu árin hafi aðalstarf félagsins verið að vinna að trjá- og blómarækt í görðum bæjarbúa. Pantaði félagið margs konar trjáplöntur og sá um dreifingu þeirra. Það sem af gekk var síðan gróðursett í skógræktarlandið við Hól. Til að gera langa sögu stutta þá gekk ræktunin illa vegna mikils ágangs búfjár og einnig urðu miklar skemmdir vegna aurskriðna og snjóþyngsla. Ákveðið var því að hætta ræktunartilraunum en í greinargerð Jóhanns kemur fram að á þessum tíma hafi margir talið þetta bæði vera barnaskap og flónsku. Árið 1949 var skógarvörður í Varmahlíð, Sigurður Jónasson, fenginn til að líta á landið og þá kom í ljós, sem Jóhann segist reyndar hafa verið farinn að vita, að á þessu svæði væru litlar sem engar líkur á að rækta trjágróður. Ekki varð þetta til að auka trú íbúanna á skógrækt.

Árið 1948 urðu þáttaskil hjá skógræktarfélaginu þegar ný stjórn var kosin og að þessu sinni var Jóhann kosinn formaður. Nú var ákveðið að finna nýtt land til trjáræktar, að gefast upp kom alls ekki til greina segir í greinargerð Jóhanns. Sigurður Jónasson skógarvörður benti á að líklegasta landið til trjáræktar væri svo nefnt Skarðsdalsland. Þar væri vel skýlt en þó snjóalög mikil og skaflamyndanir á vissum svæðum.

Á þessum tíma var Jóhann af mörgun álitinn skrýtinn, eins og áður sagði, þ.e.a.s. að í stað þess að reyna að auðgast í síldarævintýrinu eins og flestir á þessum árum var hann að hlúa að trjánum. Í viðtali í Einherja árið 1979 er Jóhann inntur eftir því hvernig á því standi að, mitt í stríðsrekstri heimsins og gullæði síldaráranna, séu menn með hugann við trjárækt. Segir hann svarið liggja fyrst og fremst í því að nokkrir menn, og nefnir hann þar Guðmund Hannesson, fyrrverandi bæjarfógeta, og Halldór Kristinsson lækni, virtust hafa sérstakan áhuga á ræktun á jarðargróðri og þá einkum trjárækt. Þar segir: „Ég sem er alinn upp í sveit hafði frá upphafi mikinn áhuga á allri jarðrækt og jarðargróðri og er ég með þeim ósköpum fæddur að hvar sem mér finnst vanta gróður vil ég auka hann á allan hátt og hér í Siglufirði vantar tilfinnanlega allan gróður. Fjórða manninn vil ég tilnefna en það er Kjartan Bjarnason sem hefur verið mín hægri hönd alla tíð.“

Glókollur í skóginum 9. apríl 2010.

Skarðsdalsland var girt árin 1950 til 1951. Í umræddu viðtali í Einherja segir Jóhann að alls hafi þá verið gróðursettar um 75.000 trjáplöntur, mest af sitkagreni. Hann getur þess að harðir vetur hafi oft skilið eftir djúp sár og getur þess sérstaklega að þegar mikill snjór er og blautur þá vilji trén brotna.

Í kringum árið 1950 gerði Skógræktarfélag Siglufjarðar samning við Skagfirðingafélagið og Þingeyingafélagið í Siglufirði um að félögin fengju land innan girðingar til umráða og trjáræktar. Í greinargerð Jóhanns kemur fram að á ári trésins árið 1980 hafi skógræktarfélagið fengið viðbótarland, áfast við eldri Skarðsdalsgirðingu. Í þetta land, sem var 1,5 hektarar, var byrjað að gróðursetja sama ár. Stærstan hluta þeirra plantna sem settar voru niður í Skarðsdalslandi áður hafa siglfirskir unglingar gróðursett, en fyrir tilstilli Jóhanns.

Þegar hann var gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands, þá áttræður að aldri, gaf félagið plöntur í trjálund sem ber nafn hans og mun þannig halda minningu hans enn frekar á lofti.

Þá var Skógarhúsið í Skarðdalslandi gjöf frá Lions- og Lionessuklúbbunum í Siglufirði árið 1984 til Skógræktarinnar.

Skógarhúsið undir bragandi norðurljósum 3. mars 2013.

Í kringum árið 2000 var búið að gróðursetja þarna 150.000-200.000 trjáplöntur. Síðan hefur margt bæst við. Og vaxið upp þessi skógur, í fögru umhverfi, þar sem Kotafoss eða Leyningsfoss setur mikinn svip á staðinn. Þetta hefur á síðustu árum verið eitt helsta útivistarsvæði Siglfirðinga. Og ekki mun draga úr því eftir miklar framkvæmdir hér á síðustu misserum, grisjun, lagningu nýrra stóga o.fl., það er víst.

Músarrindill í Skarðdalsskógi í gær.

Við þetta er að bæta, að nú er allt krökkt af músarrindlum þar og einnig virðist glókollur, minnsti varpfugl á Íslandi og annars staðar í Evrópu, hafa numið land. Í gær sáust alla vega margir á sveimi.

Það er meira en lítið ánægjulegt.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Eva Björk Valdimarsdóttir (sjá nánar hér), Hrönn Indriðadóttir (sjá nánar hér) og Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is