Citius, altius, fortius


Jafnræði er grundvöllur mannréttinda. En sagan kennir okkur þó að ekki hafi nálægt því allir jarðarbúar á liðnum tímum kunnað að meta þau sannindi; þar hafa sumir kosið að vera jafnari en aðrir og er svo enn víða um heim. Því miður.

Konur eru helmingur alls mannkynsins en hafa oftar en ekki þurft að verma annað sætið þegar kemur að réttindum af ýmsum toga. Nema þá e.t.v. í hreinum undantekningartilvikum, þegar ætternið hefur verið stórt eða eitthvað í þeim dúr.

Ríkjandi samfélagsskipan í Miðjarðarhafsbotnum á ritunartíma Biblíunnar var feðraveldi. Konur voru einskis metnir og engum málstað var það til framdráttar að þær væru áberandi fulltrúar hans. Lögmálið og erfikenning Gyðinga bönnuðu t.d. hreinlega að tekið yrði mark á vitnisburði þeirra fyrir dómi.

Maður skyldi ætla að við tilkomu kristins siðar og þess róttæka boðskapar sem fylgdi honum og einkenndi, hefði grundvöllur verið lagður að betri tíð konum til handa en það brást að miklu leyti. Ekki vegna þess að skilja hefði mátt orð Jesú þar um á tvo vegu eða fleiri, því hann lagði kynin að jöfnu, heldur var ástæðan sú að þeir sem ræðunni var beint að kusu að sniðganga hana.

Og ýmislegt fengu konur í sinn hlut umfram, meira að segja, eins og Guð vildi leggja sérstaka áherslu á þetta. T.a.m. voru þær hafðar í aðalhlutverki í mikilvægustu atburðum guðspjallanna. Eða eins og Sigurbjörn Einarsson biskup ritar í bók sinni, Konur og Kristur: „Konur fyrstar í kringum Jesú, áður en ævisaga hans hefst. Og síðast, þegar ævi hans líkur, eru konur næstar honum. Engin kona var í hópi þeirra, sem hæddu hann, kvöldu og dæmdu… En kona bað honum griða, eiginkona Pílatusar, segir Matteus. Og Lúkas tekur fram, að fjöldi kvenna fylgdi honum, þegar hann bar krosstréð út til aftökustaðarins.“

Konur hafa látið mikið til sín taka í frumkirkjunni og sýnilega átt gríðarmikinn þátt í útbreiðslu kristninnar. En ýmislegt bendir til þess að undir lok fyrstu aldarinnar hafi jafningjasamfélagið orðið að víkja fyrir þrepskiptu valdaskipulagi sem jafnframt var kynskipt. Ástæðan er sú að karlmönnum flestum hefur nefnilega löngum staðið einhver torkennileg ógn af þeirri viðleitni kvenna að fá að vera með í fylkingarbrjósti. Þær áttu einfaldlega að vera á heimilinu og sinna því. Vangaveltur gríska heimspekingsins Aristótelesar, sem guðfræðingar tóku upp á arma sína og fóstruðu, þar sem konan taldist vanskapaður karl, með það hlutverk eitt að fæða af sér og ala upp sveinbörn, vó hér þungt er fram liðu stundir.

Málað hafði verið yfir boðskap Krists með framandi litum.

Á síðustu áratugum hafa konur í auknum mæli farið að krefjast réttar síns, á hinum ýmsu sviðum mannlífsins, í von um að fá leiðrétta þessa slagsíðu. Einn angi þeirrar vakningar lýtur einmitt að gagnrýni á þessi áhrif karlmiðlægs hugsunarháttar feðraveldisins innan kristinnar guðfræði síðustu 2000 árin. Er það vel, en hefði mátt gerast fyrr. Enda er engum blöðum um það að fletta, að í sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar (1:27), þar sem upphafinu er lýst, er enginn munur gerður á kynjunum hvað eðliseiginleika snertir eða hlutverk. „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu,“ segir þar. Hin sköpunarsagan, í 2. kafla sömu bókar (2:23), ber með sér að vera hugarsmíð óttafulls karlmanns í prestastétt þess tíma, fram sett til að halda í þá tauma, sem valdið gefa. Eða eitthvað álíka.

Árið 1861 öðluðust ógiftar konur lögræði á Íslandi, og árið 1900 fengu giftar konur ráðstöfunarrétt yfir aflafé sínu. Eftir sem áður réð eiginmaður þó eignum búsins. Núna er réttur kvenna hinn sami og karla til eigna en með lögum frá 1923 komst loks á fullt jafnræði með hjónum að þessu leyti. Árið 1907 fengu konur í Reykjavík og á Akureyri kosningarétt og máttu  bjóða sig fram til sveitarstjórna, og tveimur árum síðar, 1909, öðluðust konur annars staðar á landinu sama rétt. Árið 1915 fengu konur eldri en 40 ára kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, og fimm árum síðar, eða 1920, var það aldursskilyrði lækkað niður í 25 ár, til samræmis við rétt karla. Kosningaaldur beggja kynja er núna 18 ár.

En fram til 1911 var réttur kvenna á Íslandi til menntunar takmarkaður, líkt og í fjölmörgum öðrum löndum. Þær voru ekki taldar þurfa á annarri menntun að halda en þeirri sem tengdist hefðbundinni félagslegri stöðu þeirra, enda var á þessum tíma almennt litið svo á að hæfileikar þeirra til menntunar væru takmarkaðir. Boðið var upp á kennslu í sérstökum stúlknaskólum og húsmæðraskólum sem veittu konum leiðsögn í hefðbundnum verkefnum þeirra, heimilisfræðum, umönnun og hjúkrun. Þær áttu ekki rétt á námsstyrkjum og máttu ekki gegna opinberum embættum að lokinni skólagöngu. Árið 1904 gekk ný reglugerð um framhaldsmenntun í gildi og stuðlaði hún að því að menntun varð konum aðgengilegri. Árið 1911 var konum síðan veittur sami réttur og körlum til menntunar og próftöku í öllum menntastofnunum landsins. Á sama tíma öðluðust þær jafnan aðgang að styrkjum og heimild til að gegna opinberum embættum. Ísland var þar með að líkindum fyrsta landið til að veita konum þann rétt.

Er þessi saga næsta ömurleg engu að síður, eftir á að hyggja. Að ekki sé í dag verið að fagna nema hundrað árum síðan eitthvað fór að gerast í þessum efnum. Og kaldbrjósta hlýtur sá að vera sem ekki roðnar og blygðast sín við tilhugsunina um hvernig búið er að traðka á kvenþjóðinni í aldanna rás.

Til hamingju með daginn, systur. En citius, altius, fortius. Það er svo margt eftir.

Mynd: Fengin af Netinu.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is. 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is