Býsvelgur í heimsókn í Siglufirði


Seinnipartinn í gær kom afar sjaldgæfur fugl í heimsókn til Siglufjarðar. Þar var um að ræða býsvelg (Merops apiaster), sem einungis einu sinni hefur sést á Íslandi áður; það var á Eskifirði í júnímánuði árið 1989. Varpheimkynni hans eru Suður-Evrópa og austur í miðja Asíu og einnig nyrst og syðst í Afríku. Hann grefur sér hreiður í moldarbakka. Röddin er mjög hvell og sérkennileg. Fæðan er ýmis skordýr, þ.m.t. býflugur. Ljósmyndari varð einmitt vitni að því er fuglinn sótti sér eina hunangsflugu, tók hana á lofti, og át með bestu lyst.

En það sem er kannski merkilegast við þetta er, að fuglinn sást á nákvæmlega sama stað og svarta krían í fyrra. Örlygur Kristfinnsson og Guðný Róbertsdóttir kona hans urðu hans fyrst vör og létu undirritaðan vita og tókst að ná af honum myndum, þótt fjarlægð væri allmikil. Hann var fremur styggur og flaug í átt að Hólshyrnu, eftir að hafa gætt sér á einni hunangsflugu sem hann tók á flugi.

Í dag er von á fuglaáhugamönnum hingað víða að af landinu, sem fýsir að berja þetta rarítet augum. Eru heimamenn því vinsamlegast beðnir um að hafa samband í síma 8990278 ef hann kynni að sjást, enda gæti hann verið hvar sem er í firðinum – á girðingarstaurum, línum eða í og við trjágróður.

Skemmst er að minnast þess, að þann 25. september 2008 var annar glæsilegur fugl á sveimi hér. Sá nefndist fjallvákur (Buteo lagopus) og hafði sú tegund einungis 18 sinnum sést á Íslandi fyrir þann tíma.

Býsvelgurinn sat á girðingarstaur á Saurbæjarásnum,

eftir að hafa flogið þangað yfir veginn úr móanum sunnan við Árós.

Hér má sjá hann gæða sér á hunangsflugu.

Fjallvákurinn, sá 19. fyrir Ísland, sem sást 25. september 2008 úti á strönd, í vestanverðum Siglufirði.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is