Byrjuðu með fjórar hendur tómar


Bakaríið á Siglufirði er á góðri leið með að verða miðdepill hins gamla síldarpláss þessi misserin, ef það er ekki nú þegar orðið það, því þangað streymir fólk alls staðar að til að ná sér í eitthvert gúmmelaði eða þá bara setjast niður með kaffibolla eða te í hönd, slappa af og njóta þess sem fyrir augu ber þar inni eða úti fyrir.

Að jafnaði koma þangað um 2.000 manns í viku hverri og þar af eru á.a.g. 20% útlendingar, að stærstum hluta ferðamenn. Undirritaður leit þar inn nýverið og tók eigendurna tali, hjónin Elínu Þór Björnsdóttur og Jakob Örn Kárason. Þau eru bæði fædd árið 1960 og uppalin í þessum norðlæga firði og bæ, sem eftir tvö ár fagnar 100 ára kaupstaðarréttindum.

„Ég er rafvirki sem fer síðan í að læra bakstur, nánar tiltekið í Leifsbakaríi hér á Siglufirði, þar sem Ingimar Þorláksson var lærimeistari minn. Elín var byrjuð að læra bakaraiðnina nokkrum árum áður, en barneignir settu þar strik í reikninginn,“ segir Jakob. „Og þar kom að við fórum að velta því fyrir okkur hvort við gætum ekki sett á stofn annað fyrirtæki hérna, sem var auðvitað glórulaust, því við vorum með fjórar hendur tómar, og ekki svo margir sem þá bjuggu hér. En spurningin var þessi: Áttum við að nýta það á Siglufirði sem við vorum búin að læra eða áttum við að flytja eitthvert annað? Við vorum búin að velta fyrir okkur alls lags möguleikum. Við fundum að við vildum bæði vera hér og ákváðum því að slá til. Ég held að við getum alveg endalaust þakkað Birni Jónassyni þáverandi sparisjóðsstjóra það að hafa haft trú á okkur, að við gætum gert eitthvað af viti, af því að það var í raun ekkert vit í að lána út á annað bakarí á þessum árum. En hann sá eitthvað í þessu hjá okkur. Þetta var árið 1995. Síðan höfum við verið við Aðalgötuna, fyrst við nr. 28A, í gamla apótekinu, sem hann Aage Schiöth rak um árabil, en núna líka við 26. Ég var ekki kominn með réttindi þegar við fórum að stað í í þetta, svo að nú varð úr að ég fór suður og kláraði námið. Elín rak fyrirtækið á meðan.“

Það heitir Aðalbakarinn ehf.

Bakaríið stækkar og verður kaffihús

Fyrstu árin voru dálítið snúin, segja þau, en allt í einu fóru hlutirnir að ganga. Bakaríið hefur frá upphafi haft afar gott orð á sér meðal bæjarbúa og annarra, en húsnæðið var fremur lítið. Í fyrra hætti Aðalbúðin rekstri í næsta húsi austan við, samliggjandi, og eftir nokkra umhugsun ákváðu þau að slá til, enda breyttar aðstæður frá því sem áður hafði verið, bærinn hafði tekið stakkaskiptum eftir opnun Héðinsfjarðarganga, og þörfin var nú fyrir hendi. Þau kaupa húsnæðið og bæta við sig mannskap og auka þjónustuna, t.d. með því að gera þetta að kaffihúsi sem og að bjóða í auknum mæli upp á heitan mat í hádeginu, sem aðeins var byrjað á á gamla staðnum en þau ætluðu sér aldrei, heldur vera með létta máltíð, súpu og salatbar, en ekki svona mikla eldamennska, en þau urðu að láta undan vegna. Ekki dró úr vinsældum bakarísins við þetta og fjölmargir eru þeir sem nýta sér kræsingarnar reglubundið.

Þau senda daglega brauð og tertur á Ólafsfjörð, og fara þrisvar í viku á Dalvík og senda oftast tvisvar í viku út í eyjarnar, Grímsey og Hrísey, og tvisvar til þrisvar inn í Ketilás í Fljótum. Einnig taka þau að sér að sjá um erfidrykkjur, aðallega á Siglufirði en einnig dálítið í sveitunum í kring og hafa meira að segja verið kölluð suður í þeim erindagjörðum, oftar en einu sinni og tvisvar.

„Við finnum líka mjög vel fyrir því að fólk héðan í kring, úr Eyjafirði og Skagafirði, er að koma hingað til okkar, og það gerðist reyndar strax.

Á veturna dekka þau morgunmatinn fyrir gistiheimilin á Siglufirði.

Segullinn það sem Róbert er að gera

„Segullinn er það sem Róbert Guðfinnsson er að gera, það hef ég alltaf sagt. Við njótum öll góðs af því. Öll hans uppbygging og það hvað hann er að gera hlutina vel neyðir okkur til að gera hlutina ekki síður vel, bæði hvað húsnæði snertir og annað. Við verðum bara að teika hann. Og það er það sem við höfum verið að reyna að gera, að reyna að standa okkur, að vera ekkert síðri. Krafa fólks er að hafa notalegt og gott umhverfi og það virðist hafa gengið upp hjá okkur í nýju viðbótinni. Við erum búin að leggja ómælda vinnu í að halda þessu á ákveðnu leveli hérna, erum nánast vakin og sofin yfir þessu,“ segir Jakob, „og það hvað bakaríið hefur gott orð á sér gleður okkur mest.“

Enn og aftur er húsnæðið sprungið svo að þau eru nauðbeygð að byggja við í sumar, í norður, undir frysti, kæli, pökkunaraðstöðu og bakstur og annað, og eru búin að sækja um og fá það samþykkt af bæjaryfirvöldum. Það er ekki hægt að bíða með þetta.

„Við horfum björtum augum til framtíðarinnar,“ segja þau. „En auðvitað erum við orðin dálítið þreytt, við eldumst jú eins og annað fólk, en við höfum alltaf jafn gaman af þessu, annars værum við ekki að pæla í því sem núna er í bígerð, hugsa ennþá lengra fram í tímann. Við erum líka alltaf með fullt af hugmyndum, vitum alveg hvert við ætlum að stefna, en á sama tíma erum við líka með fullt af enn öðrum hugmyndum sem við getum nýtt okkur á leiðinni.“

Í desember síðastliðnum voru 16 manns á launaská, ekki þó allir í 100% vinnu.

„Við erum auðvitað að gera meira en að reka bakarí,“ segja þau. „En það munar samt sem áður um svona lítið fyrirtæki. Og hérna er alltaf opið á þeim tíma sem hinir eru ekki með opið, þannig að fólk hefur alltaf tök á að koma og fá sér eitthvað. Þetta var vandamál til skamms tíma, en líklega er það úr sögunni, bæði út af þessu hjá okkur, opnunartímanum, og eins hinu að veitingastaðirnir eru að standa sig vel. Eftir að við stækkuðum bættum við sunnudagsopnun við, sem ekki hafði verið fram til þess.

Besti tíminn er sumarið. Eftir að Héðinsfjarðargöngin komu til hafa ekki verið í neinar djúpar lægðir í starfseminni. Það er miklu betra stabílitet á öllu.“

Fjölþjóðlegur vinnustaður

Auk Íslendinganna vinnur í bakaríinu einn frá Pakistan, annar frá Póllandi og ein stúlka frá Þýskalandi. „Þegar hún var 10 ára gömul var hún að skoða einhverja bók um Ísland og sagði við móður sína: Þegar ég verð stór, þá ætla ég að fara þangað. Og hún er að standa við það sem hún ætlaði sér alltaf, að eyða heilu ári hérna, hún fer í vor og hefur þá háskólanám. Hún kom til Siglufjarðar í fyrra, býr á Sauðanesi, þar sem hún var boðin hjartanlega velkomin og líður vel. Hún skaust til Þýskalands fyrir stuttu, var burtu þrjá daga, kærastinn hennar átti afmæli, og hún stóð sig að því ytra að segjast vera að fara heim, þegar hún hvar á leið upp hingað aftur,“ segir Elín.

„Hvað erlendu ferðamennina varðar, þá höfum við alltaf verið með þá, en þetta eiginlega fyrsti veturinn sem þeir eru svona áberandi margir,“ segja þau.

Elín hefur oft gefið sig á tal við þetta fólk því það kemur gjarnan snemma á morgnana og þá er meira næði, rólegra. „Það var ein hérna í síðustu viku og hún þurfti svo að spjalla,“ segir Elín, „og ég spurði hana hvað hún væri að gera á Íslandi, hún var að koma frá Kanada. Og hún sagði: „Ég er fimmtug í dag og það var efst á óskalistanum að fá þá afmælisgjöf að fara ti Íslands. Vinir mínir sögðu: Ertu klikkuð? En maðurinn minn gaf mér tólf daga ferð og við erum að fara hringinn í kringum landið. Og þetta er æðislegt.“ Hún var svo glöð. Það fór ekki af henni brosið.“

Aðalbakarinn ehf. er með fullt vínveitingalyfi og þar er sýnt frá beinum útsendingum, fótboltanum og öðru, fjórir skjáir sjá um það, og sæti í bakaríinu eru á milli 60 og 70 sæti í bakaríinu, á sumrin veitir ekkert af því, iðulega er þar smekkfullt.

„Þetta var það sem við hugsuðum frá upphafi, þegar við stækkuðum við okkur, að vera ekkert endilega að auka vinnurýmið heldur fyrst og fremst að hafa nægilega rúmt og gott fyrir gesti okkar og það er greinilega það sem fólk er ánægt með, að það sitji ekki allir hver ofan í öðrum.“

Sírópskakan

Ef eitthvert brauð má heita siglfirskt er það án nokkurs vafa sírópskakan. Hún hefur verið lengi á boðstólum í síldarbænum og á alltaf við, hvort sem er með hvunndagskaffinu, í litlum eða stærri afmælisveislum eða þá erfidrykkjum.

En hvaðan skyldi hún vera upprunnin? Jú, að öllum líkindum frá Danmörku, því Óli Hertervig bakari, sem fæddur var á Akureyri og lærði bakariðn hjá Axel Schiöth þar í bæ, 1913-1918, fór síðan til Kaupmannahafnar og var þar í framhaldsnámi veturinn 1921-1922, við Teknologisk Institut. Hertervigsfjölskyldan flutti til Siglufjarðar árið 1926, og því er líklegt að um það leyti hafi sírópskakan farið að gleðja bragðlauka þeirra sem hér voru. Axel Schiöth átti brauðgerðarhús þegar Hertervig kemur hingað, en hinn kaupir það af honum í maí 1927 og rekur það til 1942.

Anna Lára Hertervig, sem var dóttir Óla, mundi vel eftir sírópskökunni frá því hún var lítil, þegar hún var spurð út í þetta fyrir nokkrum árum. Var kakan afskaplega vinsæl og Anna kveðst hafa hitt fólk síðar á ævinni sem tjáði henni að sjómenn hefðu farið með heilu kassana heim af vertíðum, einn sem hún vissi af t.d. alla leið til Grundarfjarðar.

Ingimar Þorláksson, sem lengi var bakari í Kaupfélagsbakaríinu, sagði að þetta brauð hafi verið komið á markaðinn þegar hann var í námi hjá Hertervig. Og var alla tíð mjög eftirsótt, ásamt KS-kökunum, sem líka voru mjúkar.

Hún er alveg sér á parti, í raun engu lík, og oftar en ekki eru pantaðir af henni stórir farmar til burtfluttra Siglfirðinga, auk þess sem í heimabænum er neytt.

Myndir: Úr einkasafni Elínar og Jakobs & Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is