Búið að vera mikið ævintýri


Anna Hulda Júlíusdóttir á og rekur verslunina Hjarta bæjarins á Siglufirði, ásamt tvíburasonum sínum. Þar er á boðstólum íslensk hönnun, garn, handverk og gjafavara.

Eitt af því sem vakið hefur sérstaka athygli þeirra sem leið eiga þar um, er að ýmislegt þar inni tengist hinni sögufrægu Mjallhvíti og þar á meðal kjóll í fullri stærð í einum sýningarglugganna, auk þess sem Anna Hulda hefur látið útbúa fyrir sig drykkjarkönnur úr leir með eigin teikningu af stúlkunni hugljúfu.

Mjallhvít er þjóðsagnapersóna sem þekkt er úr ævintýrum frá Mið-Evrópu. Sagan er til í mörgum og ólíkum útgáfum; þýskar innihalda t.a.m. dvergana sjö og spegil drottningar, albönsk útgáfa hefur fjörutíu dreka í stað dverganna og enn aðrar útgáfur hafa ræningja í þeirra stað. Krist­ín Sölva­dótt­ir, sem fædd­ist í torfbæ á Sigluf­irði árið 1912, er sögð vera fyrirmynd­in að þeirri sjónrænu útgáfu sem birtist í verkum Walt Disney á fjórða áratug 20. aldar. Teikn­ar­inn var einnig Íslend­ing­ur, Karl Stef­áns­son, sem tekið hafði upp nafnið Char­les Thorson; hann var fædd­ur í Winnipeg í Kanada, en for­eldr­ar hans voru úr Bisk­upstung­um. Krist­ín var fjög­ur ár í Vest­ur­heimi, fór utan 18 ára.

Kveikjan var risastór fáni

„Fyrir um sex árum, þegar ég var stödd á Siglufirði um verslunarmannahelgi, rak ég upp stór augu þegar ég sá risavaxinn fána af Mjallhvíti, sem Valgeir Sigurðsson athafnamaður hér þá flaggaði, og síðar þessa sömu helgi hitti ég Jónas Ragnarsson sem sagði mér frá þessari skemmtilegu tengingu á milli Siglufjarðar og þessarar yndislegu persónu“ segir Anna Hulda, þegar hún er spurð um aðdragandann að þessari áherslu á Mjallhvíti. „Frásögn hans heillaði mig og hefur ekki látið mig í friði síðan. Sjálf er ég Siglfirðingur í föðurætt og flutti hingað alkomin fyrir rúmum tveimur árum og hef mikið hugsað út í það af hverju við erum ekki að vekja athygli á þessu og af hverju við nýtum okkur ekki þetta sem aðdráttarafl eða segul fyrir ferðamenn, að eyrnamerkja Siglufjörð sem fæðingarbæ Mjallhvítar.

Eftir miklar vangaveltur og hugmyndavinnu, sem mest af var búin að fara fram í höfðinu á mér, ákvað ég að fara með þetta lengra, vinna og útfæra hugmyndir mínar. Sú vinna er búin að vera einstaklega skemmtileg og á sama tíma krefjandi. Ég sótti um styrk hjá Uppbyggingarsjóði Eyþings og í fyrra fékk ég einn veglegan frá þeim, sem var mér mikil hvatning og án hans er ekkert víst að ég hafi haldið áfram og vinna með þessa fallegu sögu. Ég hef sótt Brautargengisnámskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem var mér hreint út sagt nauðsynlegt – að koma hugmynd í framkvæmd tekur á og í mörg horn að líta og því mikilvægt að geta sótt sér stuðning og ráðgjöf hjá fagfólki. Sérstaklega þegar hausinn á manni er stútfullur af frábærum hugmyndum, að manni finnst, þá verður maður að ná tökum á að skipuleggja sig og ná heildarsýn á það sem maður er að gera.“

Allt þetta ferli er búið að vera mikið ævintýri, segir Anna Hulda, en það sem hafi komið sér hvað mest á óvart sé hve fáir virðist hafa heyrt þessa íslensku sögu. „Eftir að hafa grennslast fyrir fann ég viðtal við Önnu Sigríði Garðarsdóttur, dóttur Kristínar Sölvadóttur, viðtalið tók Sindri Sindrason fyrir þáttinn Heimsókn. Ég setti mig í samband við Önnu Sigríði og er henni og hennar fólki ævinlega þakklát fyrir hlýjar og góðar móttökur.“

Við þetta má bæta, að Jónas Ragnarsson rakti ítarlega þessi tengsl hinnar siglfirsku Kristínar og Walt Disney í Fréttablaði Siglfirðingafélagsins í október 2012 (hér og hér) og Skapti Hallgrímsson aftur í Morgunblaðinu í janúar 2013.

Kjóllinn og garnið

„Það er mikilvægt að komast yfir þá spéhræðslu sem getur fylgt því að opinbera hugsanir og hugmyndir sínar en ég ákvað að taka þetta alla leið,“ segir Anna Hulda. Hún pantaði sér vandaðan kjól sem hún kveðst munu klæðast þegar hún komi fram og segi þessa sögu, og það gerði hún reyndar í sumar í Orlofsbúðum eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði og á Norrænu strandmenningarhátíðinni sem haldin var á Siglufirði í byrjun júlí og vakti mikla lukku.

„Já, viðtökurnar hafa verið einstaklega góðar og framar öllum væntingum. Ég hef mjög gaman af því að segja söguna gestum og gangandi sem koma í búðina mína og það veitir mér mikla ánægju að sjá hvað allir hafa gaman af því að hlusta og fara vonandi aðeins fróðari frá Siglufirði en þeir komu. Við eigum að vera óhræddari við að leika okkur með skemmtilegar sögur eins og þessa. Hver hefur ekki gaman af góðri sögu sem tengir okkar litla Ísland við stærri heimsmynd?

Anna Hulda er umboðsaðili á Íslandi fyrir garn frá svissneska framleiðandanum LANG YARNS. Vegna mikillar eftirspurnar ákvað hún að mæta þörfum viðskiptavina sinna með opnun vefverslunar, www.hjartabaejarins.is. Einnig er hún í leit að söluaðilum um allt land og gengur vel og allt stefnir í að fyrir áramót ættu prjónarar að geta nálgast garnið frá LANG í öllum landsfjórðungunum.

Hjarta bæjarins var stofnað í desember árið 2016. Hönnunar- og handverksvörurnar eru unnar af einstaklingum sem eiga rætur í Fjallabyggð og er Önnu sönn ánægja að segja frá því að yfir 40 einstaklingar eiga þar vörur. Með tíð og tíma munu þær einnig fást í vefversluninni.

Verslunin er við hliðina á bakaríinu við Aðalgötuna.

Myndir: Anna Hulda Júlíusdóttir, Sigurður Ægisson og Þórey Dögg Jónsdóttir.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Viðtalið í Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is