Búið að setja upp veðurstöð undir Herkonugili


Vegagerðin er nú búin að setja upp veðurstöð undir Herkonugili, vestan
Strákaganga. Hún var formlega tekin í notkun í gær. Ekki þarf að hafa um
það mörg orð hvílíka þýðingu þetta hefur fyrir þá ökumenn sem þurfa að
fara Siglufjarðarveg um vetur, ekki síst í tvísýnu.

?Myndavélar voru settar upp nú í haust á Siglufjarðarveginum við Herkonugil og í Ólafsfjarðarmúla við Rípil og í þessari viku var veðurstöðvum komið fyrir á báðum stöðunum. Ekki er enn komið gagnasamband við veðurstöðina í Héðinsfirði en þegar búið verður að koma því á ætti að vera stutt í að birta gögn frá þeirri stöð. Áður en það verður gert þarf að kvarða alla nema og staðfesta rétta virkni,? sagði Nikolai Jónsson, deildarstjóra
upplýsingaþróunar hjá Vegagerðinni, þegar Siglfirðingur.is hafði samband við hann í morgun og spurði hann nánar út í þessa
framkvæmd og aðrar tengdar. ?Við bindum vonir við að með tilkomu veðurstöðvar í Ólafsfjarðarmúla verði betur hægt að greina hættu á snjósöfnun og hugsanlega snjóflóðum í kjölfarið með stuðning frá myndunum. Staðsetning tók m.a. mið af þessum þáttum. Almennt má segja að Vegagerðin setji upp þennan búnað til að starfsmenn geti betur greint aðstæður og ástand vega og gripið til nauðsynlegra aðgerða með betri upplýsingar við höndina. Vegfarendur nýta einnig þennan búnað til að meta aðstæður og taka ákvarðanir um ferðatilhögun.?

Vefmyndavélin er á þessari slóð en upplýsingar frá veðurstöðinni hér.

Hér er veðurstöðin; myndavél efst. Hægra megin fjær er Sauðanesviti.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is