Bryggjurölt


Fréttamaður brá sér niður að höfn í dag í góða veðrinu og tók nokkrar
myndir. Þar mátti sjá börn og fullorðna að veiðum, gesti drekkandi kaffi
hjá Valgeiri, glæsileg fley sigla inn og ýmislegt fleira.

Ufsi og þorskur náðust úr sjó en makríllinn er einhvers staðar úti fyrir ennþá.

Undirrituðum var bent á, sem hann ekki vissi en er til mikillar fyrirmyndar, að björgunarvesti er að finna í kössum á þremur stöðum á hafnarsvæðinu, þeim til notkunar endurgjaldslaust sem eru að dorga þar. Mun það vera Hafnarskrifstofan sem fyrir þessu stendur og hefur gert mörg undanfarin sumur. Einn er á Óskarsbryggju, annar í norðausturhorni smábátahafnarinnar, og sá þriðji ekki langt þar frá sem Sunnubrakkinn stóð. Er full ástæða til að benda á þetta hér, enda allt of algengt að börn séu án slíks varnarbúnaðar þegar á að draga fisk. 

En hér koma nokkrar myndanna frá því í dag.

Börn og fullorðnir voru á Hafnarbryggjunni með veiðistangir eða bara að horfa á.

Hafsteinn Úlfar fékk lánað vesti úr öðrum tveggja kassanna þar nærri.

Mikael var í eigin björgunarvesti og fer ekki að veiða án þess.

Hér er kominn á öngulinn hinn vænsti ufsi.

Þarna er einn kassanna umræddu staðsettur, ekki langt frá Hannes Boy Café.

Og merktur við hæfi.

Í hverjum kassa eiga að vera 6-8 björgunarvesti.

Hér er annar, ekki langt frá þar sem Sunnubrakkinn var.Og hér er sá þriðji, á Óskarsbryggju. Öldubrjóturinn í baksýn.Inn sigldi þetta laglega fley. Skrokkurinn var úr áli.Þar voru á ferðinni Svisslendingar, sem höfðu komið yfir hafið um miðjan júlí,

fengið ágætt leiði og tekið svo land fyrst á Seyðisfirði en komu þaðan hingað norður um.

Á morgun verður stefnan tekin í vestur og er áætlað að ljúka för í Reykjavík,

þar sem geyma á skútuna í vetur.


Á Hafnarkaffi sátu þessar kátu mæðgur og drukku eitthvað gott.Gestgjafinn var nýbúinn að setja upp þetta líka fína skilti.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is