Brunnur með þinni hjálp


Bank, bank… – brunnur með þinni hjálp.

Á hverju hausti ganga börn í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar um land allt í hús í sinni heimabyggð með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar í hönd. Þau eru að safna fyrir vatnsverkefnum Hjálparstarfsins í Afríku, nánar tiltekið í Eþíópíu og Úganda.

Mörg undanfarin ár hafa þau safnað um átta milljónum króna í hvert skipti. Með þátttöku sinni í söfnunarátakinu leggja þau því svo sannarlega sitt af mörkum til hjálparstarfs.

Vikurnar áður en söfnun hefst fá krakkarnir fræðslu um Hjálparstarf kirkjunnar. Annað hvert ár hefur Hjálparstarfið boðið ungu fólki sem býr í verkefnalöndum í heimsókn til Íslands til þess að sjá fræða krakkana um aðstæður heima fyrir.

Með því að fá gestina að utan til að taka þátt í fræðslunni gefst Hjálparstarfinu dýrmætt tækifæri til að stuðla að aukinni samkennd og skilningi fermingarbarna á því að við höfum svipaða drauma um farsælt líf hvar sem í veröldinni við búum.

Í ár fá fermingarbörnin að kynnast því hvernig jafnaldrar þeirra sem Hjálparstarfið aðstoðar í sveitunum í Úganda búa í hreysum og hafa lítinn aðgang að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu. Þau fræðast líka um aðstæður unglinga sem hafa flúið fátæktina í sveitinni og haldið til höfuðborgarinnar í leit að betra lífi.

Í höfuðborginni Kampala bíður unglinga sem ekki hafa menntun hins vegar að kúldrast í fátækrahverfum atvinnulaus og því útsett fyrir misnotkun af ýmsu tagi.

Það sem er mest um vert er að Douglas og Trudy – unga fólkið sem kom til okkar í október síðastliðnum frá Úganda – talaði við krakkana, sagði frá sjálfu sér og aðstæðunum sem það ólst upp við. Þau eru bæði frábærar fyrirmyndir sem sýna að með vilja, þrautseigju og dugnaði er hægt að öðlast farsælt líf. En Douglas og Trudy er líka þakklát því þau fengu bæði tækifæri þegar þau hófu störf hjá samstarfsaðilum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda.

Allt starf Hjálparstarfsins snýst um að fólk fái tækifæri. Takk fyrir að vera með okkur í því.

Á sunnudag, 11. nóvember, er komið að siglfirskum ungmennum. Bæjarbúar mega því vænta þess að sjá þau á ferðinni ásamt foreldrum sínum, sem hafa boðist til að aðstoða þau, frá kl. 14.00 til 17.00, allt eftir því hvernig gengur.

Eru þeir hér með beðnir um að taka þeim vel, eins og jafnan áður.

Trudy kom í heimsókn til Siglufjarðar 24. október og hitti og ræddi við siglfirsk ungmenni í safnaðarheimilinu. Með í för var Kristín Ólafsdóttir, fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar.

Myndir og texti: Aðsendar / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is