Breytingar í Fjallabyggð


Á næstu vikum og mánuðum verður ráðist í breytingar á útibúaneti Arion banka í Fjallabyggð með það að markmiði að aðlaga það að nýrri nálgun í bankaþjónustu, að því er fram kemur í tilkynningu sem viðskiptamönnum var send í dag. Liður í þessum breytingum er að útibúin tvö sameinast í útibúinu á Siglufirði. Sameiningin tekur gildi 10. maí næstkomandi og mun starfsfólk í Ólafsfirði færa sig yfir á Túngötu 3 á Siglufirði þann dag. Áfram verður alhliða hraðþjónustubanki í Ólafsfirði þar sem m.a. er hægt að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga og millifæra. Fyrst um sinn verður hann áfram við Aðalgötu 14, þar sem útibúið hefur verið til húsa, en með tíð og tíma verður honum fundin ný staðsetning í nágrenni verslana og þjónustu í bænum.

Að sögn Oddgeirs Reynissonar, útibússtjóra, mun starfsfólk Arion banka í Fjallabyggð að sjálfsögðu halda áfram að svara símtölum og tölvupósti frá viðskiptavinum auk þess sem aðrar dyr að þjónustunni eru opnar allan sólahringinn, s.s. Netbankinn og appið.

Mynd: Úr safni.
Texti: Aðsendur / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is