Breskir fuglafræðingar í heimsókn


Aðsent (Guðný Róbertsdóttir):

Ruth Croger og Peter Potts eru komin í hina árlegu heimsókn til
Siglufjarðar, að þessu sinni með aðstoðarfólk sitt Richard, Wilf og
Andy, en erindi þeirra er að merkja jaðrakana á Siglufirði. Þau eru búin
að vera á Íslandi síðan í byrjun júlí og voru m.a. fyrir vestan, á
Reykhólum, þar sem mikið er um jaðrakana. Undanfarnar vikur hafa um 50
jaðrakanar verið hér í firðinum og vonuðust þau til að geta merkt stóran
hluta þeirra, en í gærmorgun náðust aðeins þrír.

Eyrún Brynja Valdimarsdóttir og Stefanía Þórdís Grétarsdóttir mættu
galvaskar og merktu hvor sinn fugl. Það voru kvenfuglar sem hvor um sig
vóg um 400 grömm, sumsé feitar og pattaralegar dömur og tilbúnar í
langflug.

Eins og margir vita hefur bekkur þeirra Eyrúnar og Stefaníu
tekið þátt í þessum merkingum undanfarin sumur og fylgst með hvort
merktir fuglar komi að vori og tilkynnt það til þeirra sem stunda
rannsóknir á fuglunum. Með því að hafa áhugasamt fólk víða um heim sem
skráir fuglana og sendir upplýsingar er hægt að fylgjast með ferðum
þeirra og ná ýmsum upplýsingum um háttalag þeirra og atferli.

Grunnskóli Siglufjarðar og Scoil Iosaef Naofa í bænum Cobh, sem er í Cork
á Írlandi, hafa átt í samskiptum undanfarin fjögur ár og á síðasta ári
bættist annar skóli í hópinn, en það er grunnskólinn í Topsham í Devon í
Englandi, en þar eru krakkar í 2. og 3. bekk komnir í samstarf með
jafnöldrum sínum í Grunnskóla Siglufjarðar og má segja að það sé búið að
yngja upp í verkefninu því að bekkur þeirra Stefaníu og Eyrúnar hefur
ekki lengur jaðrakanana sem kennsluefni.

Það verður spennandi að
fylgjast með því hvernig þetta þróast, en það síðasta sem var gert í
verkefninu í vor var að hvert barn í 2. og 3. bekk ?ættleiddi? einn
merktan jaðrakana úr hópnum sem var merktur hér á Siglufirði í fyrra, en
þá voru alls merktir 29 fullorðnir fuglar. Ætlunin er svo að fylgjast
með þessum fuglum og læra landafræði og fleira í svipuðum dúr og áður
hefur verið unnið með hinum bekknum. Heimasíða jaðrakanaverkefnisins er
http://www.scoiliosaefnaofa.com/Godwit.htm.

Sjá nánar undir Fróðleikur (Jaðrakan).

Allt klárt. Búið að koma netinu fyrir og Peter Potts athugar

hvort einhverjir fuglar séu komnir á réttan stað áður en hleypt verður af.


Ruth Croger bíður í skjóli nærri, viðbúin.


Netinu skotið yfir fuglana. Það er fest á þremur stöðum í jörðina og tvær rörabyssur

fýra síðan upp járnstöngum sem bundnar eru við nethornin fjær, beggja vegna.


Fuglarnir eru hafðir í strigapokum til að byrja með. Hér má sjá

einn hettumáfsunga frá sumrinu. Hann fær merki líka. Wilf og Andy að störfum.


Stefanía og Eyrún eru mjög áhugasamar um þetta verkefni og hafa verið það lengi.


Hér má sjá hvernig rörabyssu er komið fyrir. Richard við hliðina.Jaðrakanarnir eru nefmældir og gerðar á þeim ýmsar fleiri rannsóknir.Og allt skráð nákvæmlega.Að þessu sinni náðust aðeins þrír jaðrakanar, því Peter og
félagar misreiknuðu fjarlægðina.

Eyrún fékk að setja merki á
annan tveggja kvenfuglanna, sem eftir það ber nafn hennar.Hér er jaðrakaninn Eyrún.Og Stefanía fékk
auðvitað að merkja sinn fugl.Svona lítur jaðrakaninn hennar út, eftir að hafa þegið fóthringi í ýmsum litum að gjöf.Og Guðný var ekki höfð útundan. Þessi karlfugl fékk vitanlega nafnið Ölli. Hvað annað?Þetta er jaðrakaninn Ölli.Glatt á hjalla.Jaðrakanarnir eru settir í litla poka, einn af öðrum, og vigtaðir.Eyrún fær að prófa.Og Guðný.Svo þarf að mynda verkið … 

… í bak og fyrir.Eyrún, Stefanía og Guðný með fuglana sína.Allt klárt og nú er bara eftir að gefa þeim frelsi.Guðný sleppir Ölla lausum.Nokkrir stelkar höfðu lent undir netinu og þeir fengu líka merki á fótinn,

en enga litaða hringi.Og Stefanía og Eyrún fengu að aðstoða við það verk.Hér má sjá járnstangirnar og rörabyssurnar. Önnur stendur en hin liggur fyrir aftan.Og svona er netið. Það er sérstaklega útbúið fyrir þessar merkingar. Wilf sýnir.Næsta skot undirbúið gaumgæfilega. Daginn eftir náðust 24 jaðrakanar

og nokkar aðrar tegundir með.Og þær stöllur bersýnilega glaðar eftir að hafa fengið að taka þátt í svona ævintýri.

Texti: Guðný Róbertsdóttir | gudnyro@simnet.is

Myndir:
Sigurður Ægisson
sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is