Bréf til bæjaryfirvalda I


Bæjarráð Fjallabyggðar
Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

Erindi: Áætlun um að reisa styttu af Gústa guðsmanni.

Eins og sjá má í fundargerð frá 1. ágúst sl. hefur bæjarráði borist erindi þessa efnis. Hugmynd um slíka styttu af guðsmanninum á Torginu hefur legið í loftinu í fjöldamörg ár. Við undirrituð óskum eftir að koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.


• Höfuðmáli skiptir að fyrirhuguð endursköpun Torgsins verði með þeim hætti að sem víðtækust sátt skapist meðal íbúa samfélagsins.
• Verði ákveðið að hluti Torgmyndarinnar verði stytta eða minnisvarði þá skiptir gerð og tilgangur miklu máli og byggist á vönduðum undirbúningi og samráði innan samfélagsins.
• Rétt er að benda á að þar sem minnisvarðar hafa verið reistir í seinni tíð hafa þeir vísað gjarna til víðtækra þátta og jafnvel orðið uppspretta frjórra hugsana og athafna. Er því umhugsunarvert hvaða einstakling eða fyrirbæri samfélagið vill hafa sem táknmynd sína.
• Reynslan sýnir að þar sem farið er út í tuga milljóna króna framkvæmdir eins og búast má við með gerð umræddrar styttu, lendir oft mikill kostnaður á öðrum en ætlað var í upphafi.
• Mikilvægt er að hafa í huga að minningu Gústa guðsmanns hefur verið sýndur mikill sómi á Síldarminjasafni Íslands. Þar er minnisvarði sem samanstendur af veglegri styttu, bátnum hans endurgerðum, beitningaskúr honum tileinkuðum þar sem vandað kynningarmyndband er stöðugt sýnt – á svæði í Bátahúsinu sem vel mætti kalla Guðsmannstorg.
• Minnisvarðinn um Gústa guðsmann í Síldarminjasafninu er unninn á látlausan og ódýran hátt þar sem margir velunnarar lögðu fram viðeigandi stuðning. Sjónarmiðið var að hlutirnir þar væru í samræmi við þá lífshugsjón Gústa; að allur peningur sem hann vann sér inn fór til að aðstoða fátæk börn úti í heimi. Þar fer enn fram söfnun fjár í sama skyni í nafni Gústa guðsmanns.
• Ljóst er að gríðarlega dýr minnisvarði um þessa alþýðuhetju væri í algjörri mótsögn við trú hans og lífsstarf.

Við undirrituð höfum mikinn áhuga á því hvernig samfélag okkar þróast og hver ásýnd bæjarins er – og jafnframt hvaða lífsgildi við leggjum rækt við.
Við lýsum okkur reiðubúin til að ræða þessi mál frekar við bæjarstjórnendur eða taka þátt í starfshópi um þau.

Virðingarfyllst!

Siglufirði 10. ágúst 2017.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir listamaður Alþýðuhúsinu.
Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafns Íslands.

Brynja Baldursdóttir myndlistarmaður og hönnuður.
Guðný Róbertsdóttir í stjórn Þjóðlagaseturs.
Hálfdán Sveinsson í stjórn Herhúsfélagsins.
Jón Steinar Ragnarsson hönnuður.
Sigurður Hlöðvesson formaður sóknarnefndar.

Sigurður Ægisson ævisöguritari.
Þórarinn Hannesson Ljóðasetri Íslands.
Örlygur Kristfinnsson myndasmiður.

 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is