Bréf til bæjaryfirvalda II


Bæjarráð Fjallabyggðar

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

 

Við undirritaðir viljum  fyrir hönd  Siglfirðinga „heima og að heiman“ og vini Siglufjarðar sækja um að fá að reisa styttu á Ráðhústorgi, til minningar um Ágúst Gíslason sjómann og kristniboða. Í lifanda lífi var hann  oftast nefndur „Gústi guðsmaður“.

Ágúst var fæddur í Hvammi í Dýrafirði árið 1897. Hann lést árið 1985. Hann var kvaddur hinstu kveðju frá Siglufjarðarkirkju. Skilnaðarræðu Krists flutti Gústi sjálfur í eigin jarðarför, en Siglfirðingurinn Karl Eskil Pálsson fréttamaður á  RÚV hafði  tekið lesturinn upp á Ráðhústorginu .

Til Siglufjarðar kom Gústi til sjómennsku. Árið 1948  urðu stundaskil í lífi Gústa en þá gerðist atburður í  lífi hans, sem átti eftir að móta allt hans líf. Um þann atburð notaði Gústi eftirfarandi orð: „Ég hitti Guð á Akureyri árið 1948 en þar,  samdist svo með okkur Guði og mér, að  ég keypti bát með honum  og færi í útgerð þar sem öllum  afla  yrði varið til Kristniboðs.“

Gústi  réðist í þessa útgerð  og keypti bát sem hann nefndi Sigurvin. Hann gerði bátinn út fyrir kristniboð, allan sinn starfsdag. Ánægjulegt er að vita að báturinn hans, Sigurvin, er varðveittur á Síldarminjasafninu á Siglufirði. Þar er einnig stytta, listaverk, af Gústa gert af Aðalheiði S. Eysteinsdóttur listamanni.

Stytta af Gústa á Ráðhústorginu mun án efa benda fólki á að leggja leið sína á hið glæsilega  Síldarminjasafn, og  að skoða björgunarbát  Siglfirðinga sem ber nafnið „Sigurvin“. Þar í stafni er biblían hann Gústa varðveitt. Auk þess að styrkja kristniboðið studdi Gústi alla tíð elsta starfandi félag Íslendinga, Hið íslenska Biblíufélag, af miklum stórhug.

Einnig studdi Gústi  alla ævi  ýmis líknarfélög. Studdi hann Hjálparstarf kirkjunnar og Rauða kross Íslands.

Það sem vakti mikla athygli Íslendinga var að hann studdi lítilmagnann og munaðarlaus börn um allan heim. Studdi hann fjölmörg börn og sendi fjárframlög  til þeirra í ein 40 ár. Þessi fátæku börn bjuggu og búa í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Þjóðarathygli vakti er hann studdi 50 Indíánabörn til náms í Bólivíu. Hóf hann að styrkja þau börnin kornung að aldri. Þegar hann lést höfðu þau mörg lokið stúdentsprófi.

Þegar að Gústi lést bárust hingað heim til Siglufjarðar fjölmörg þakkarbréf, þar sem honum var þökkuð „lífgjöfin“.

Lengi má ræða um Gústa og líf hans. Skemmtilegt er að bók um hann rituðuð af sr. Sigurði Ægissyni sóknarpresti Siglufjarðarprestakalls er að koma út. Ef afgangur verður af söfnuninni, sem hefur verið efnt til, væri eðlilegt að hann rynni til bókarútgáfunnar.

Frægar eru sögur um hann í brakkanum hvar hann bjó alla ævina án allra nútíma þæginda. Sögur um er hann týndist á sjó, fannst ávallt og komst heill heim í friðarhöfn. Í eitt sinn fór allur flotinn á Siglufirði að leit að honum og hann fannst eftir að vera týndur í þrjá daga. Þegar hann fannst stóð hann upp í báti sínum og söng þekktasta  sálm í Vesturheimi „Hærra minn guð til þín.“ Síðar kom hann siglandi inn Siglufjörð og fjörðurinn og byggðin skartaði sínu  fegursta.

Gústi var eins og það er nefnt í kirkjusögunni „Gjörandi orðsins.“ Hann framkvæmdi það sem hann boðaði. Prestar á íslandi hafa oft nefnt að hann hafi verið prestur með stóru P.

Stytta af Gústa á Ráðhústorgi,  hvar hann boðaði „Orðið“ í ein 40 ár, mun fyrst og síðast minna komandi kynslóðir á að „Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman“, heldur á sérhverju orði er fram gengur af Guðs munni. Styttan mun benda á fátækt heimsins, benda  á börn sem  þurfa aðstoð við að lifa og vera til.

Stytta af Gústa, þar sem hann heldur á eigin Nýja testamenti (NT verður sett í hert gler) hvar miði með ritningarorðum er til staðar. Margir Siglfirðingar eiga enn  slíka miða og mun minna á  að hann var gjörandi orðsins. Einbeitti sér að því að boða kærleikann og styðja þá sem minna máttu sín um heim allan.

Ánægjulegt er að skynja og heyra hve slík gjöf til Siglufjarðarkaupstaðar á eitt hundrað ára afmæli kaupstaðarins og 200 ára afmæli verslunarréttinda staðarins vekur mikla athygli og ánægju jafnt Siglfirðinga og þeirra sem þekkja söguna.

Stytta á Ráðhústorgi sem kallar á lítið svæði af hinu stóra Ráðhústorgi verður  algjörlega  kostuð af gefendum. Söfnun fjármuna hefur staðið yfir í stuttan tíma og gengur mjög vel og erum við fullvissir um að hin ýmsu fjárframlög stór og smá munu algjörlega fjármagna gerð styttunnar sem kosta mun um 10-12 milljónir króna.

Með bréfi  þessu fylgir kostnaðaráætlun frá  listamanninum Ragnhildi Stefánsdóttur. Eins og kunnugt er gerði hún m.a. styttuna af séra Bjarna Þorsteinssyni, tónskáldi og heiðursborgara Siglufjarðar. Nú síðast gerði hún styttuna við Alþingishúsið af Ingibjörgu H. Bjarnason í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna, árið 2016.

Gústa Guðsmanns hefur verið minnst á ýmsan hátt í gegn um tíðina. Áður í þessu bréfi hefur verið minnst á styttuna af honum sem Aðalheiður Eysteinsdóttir listakona gerði svo og bát hans á Síldarminjasafninu, sem unnið var af forsvarsmönnum Síldarminjasafnsins, þ.e. Örlygi Kristfinnssyni og hans samstarfsfólki í gegnum árin.

Sr. Sigurður Ægisson sóknarprestur er að skrifa bók um Gústa sem kemur út innan skamms og bróðir Sigurðar hefur samið mikinn og góðan texta og gert lag sem oft er sungið um Gústa guðsmann.

Lokaorð:

Með bréfi þessu sækjum við undirritaðir f.h. áhugamannafélags, sem stofnað hefur verið, um að minnisvarði / styttu af Gústa guðsmanni verði fundinn staður í deiliskipulagi Ráðshústorgsins á viðeigandi stað þar sem hann stóð í áraraðir og boðaði fagnaðarerindið.

Áætlun okkar er sú að styttan verði tilbúin á Ráðhústorgi Siglfirðinga á næsta ári þegar afmælis kaupstaðarins verður minnst á margvíslegan hátt. Mikilvægt er því að fá jákvætt svar sem fyrst þar sem listamaðurinn þarf sinn tíma fyrir þetta mikla verk.

Vanti frekari upplýsingar um verkefni þetta þá vinsamlegast hafið samband við framangreinda fulltrúa áhugamannafélagsins.

 

Reykjavík 15. ágúst 2017.

Með siglfirskum kveðjum.

F.h. Sigurvins – áhugamannafélags um minningu Gústa Guðsmanns á Siglufirði,

kt. 500817-1000.

 

Vigfús Þór Árnason, fyrrverandi sóknarprestur og bæjarfulltrúi á Siglufirði

Kristján L. Möller, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og bæjarfulltrúi á Siglufirði

Hermann Jónasson, framkvæmdastjóri

 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is