Braut niður karlaveldið


Halla Haraldsdóttir, gler- og myndlistarkona, var ekki há í loftinu þegar hún tók ástfóstri við listagyðjuna og hefur ótrauð fylgt henni síðan, þótt oft hafi á móti blásið. Það var aldrei á döfinni að gefast upp. Það var ekki í boði. Listaverk eftir hana er nú að finna um allt land og allan heim, þar á meðal í Bandaríkjunum, Japan, Kína, á Spáni og í Sviss. Einka- og samsýningarnar eru líka orðnar margar, fara að nálgast hundraðið. Og viðurkenningarnar eru ófáar. Á morgun kl. 16.00 opnar hún eina sýninguna til og nú á 2. hæð í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði. Halla varð 81 árs í síðasta mánuði.

Hún er fædd á Siglufirði árið 1934 og ólst hér upp, við fjörð sem opnast út í Norður-Íshafið, við hnígandi miðnætursól á sumrin, óendanlega fagra hausttóna í gróðri, mánaskin á snævi þöktum fjöllum á vetrum og bragandi norðurljós á alstirndum næturhimninum. Allt frá því hún man eftir sér langaði hana að mála það sem fyrir augu bar, fanga litadýrðina og gefa öðrum þannig hlutdeild í upplifun sinni.

Sextán ára gömul fór Halla til Reykjavíkur í nám við Myndlista- og handíðaskólann og aðalkennari hennar var sjálfur Erró. Þarna var hún í tvo vetur.

„Ég var algjörlega peningalaus. Ég reyndi að vinna með skólanum, þurfti að kosta fæði og húsnæði og kaupið var ekki hátt. Ég var búin að lifa á tei og franskbrauði í þrjá mánuði og þá hreinlega gat ég ekki meira. Þá fór heim til Siglufjarðar og var svo heppin að komast að á Landsímanum og ég ætlaði að safna þar peningum og fara svo aftur. En það endaði þannig að ég gifti mig og eignaðist þrjá syni,“ segir hún, þegar blaðamaður spyr hana út í hvernig þetta hafi allt byrjað.

Eftir það gafst henni tækifæri til að fara í kennaradeild MHÍ einn vetur, 1965-1966, fyrir tilstuðlan Barböru Árnason, sem hafði hvatt Höllu og stutt um margra ára skeið, og að því loknu stundaði hún nám í Danmörku hjá kunnum listmálara, Søren Edsberg. Samhliða því náði hún sér einnig í réttindi sem snyrtifræðingur.

Svo kemur hún upp til Íslands, flyst með eiginmanni og sonum til Keflavíkur. Litlu síðar verða mikil þáttaskil í lífi hennar.

Innan um mestu glerlistamenn í heimi

Forsagan er sú að vorið 1966 hafði Halla verið beðin um að myndskreyta einn vegg á þá hinu nýbyggða sjúkrahúsi á Siglufirði, sem hún og gerði. Þetta var og er múrrista, 2 x 3 m. Hún sýnir lækningagyðjuna Eir úr norrænni goðafræði, með hinn alþjóðlega læknastaf í hönd. Vinstri hluti myndarinnar er dökkur, sá hægri ljós. Dökka hliðin er hjúpuð skuggum sorgar, veikinda og þjáningar, en hin táknar gleði og birtu heilbrigði og lífs, að fengnum bata. Og neðsti hluti myndverksins er svo prýddur fögrum lífgrösum og heilsujurtum. Halla tók ekkert fyrir þessa listasmíð, þrátt fyrir að vera með lítil fjárráð og fjölskyldan að flytjast til Danmerkur. En gjöfin sú átti eftir að reynast henni mikill og góður áhrifavaldur.

Fritz Oidtmann, einn af eigendum elsta og eins virtasta gler- og listiðnaðarverkstæðis Þýskalands, Glasmalerei Dr. H. Oidtmann í Linnich, sem var staddur á Siglufirði árið 1974 til að setja steinda glugga eftir listakonuna Marie Katzgrau í Siglufjarðarkirkju, var jafnframt að leita að listamanni hér á landi eftir að Gerður Helgadóttir lést og var búinn að vera að skoða ýmis verk þegar honum var sýnd umrædd veggmynd á sjúkrahúsinu og hreifst af og bað í kjölfarið um að fá að sjá fleiri verk eftir höfundinn sem voru þar nyrðra. Hann sá að þarna var manneskja sem var jafnvíg sem teiknari og málari. Eftir það fékk hann að sækja listakonuna heim í Keflavík og bauð henni að því loknu til náms ytra. Hún afþakkaði. Tveimur árum síðar ákvað hún þó að slá til, eftir ítrekaða beiðni að utan.

Var það upphaf að miklu ævintýri. Fritz Oidtmann varð aðalkennarinn hennar. „Þetta var erfiður skóli,“ segir Halla, „en þar átti ég samt eftir að vera af of til næstu 30 árin, fyrst í námi og síðar við störf, innan um mestu gler- og mósaíklistamenn í heimi.“

Árið 1995 sótti hún námskeið hjá Vinery Stained Glass Studio, Madison í Bandaríkjunum.

Braut niður karlaveldið og fékk bágt fyrir

„Þegar ég byrja sem unglingur á Siglufirði að teikna og mála og þurfti nú fljótlega að gera þetta bara til þess að hafa smá pening milli handanna, dóttir verkamanns átti ekki mikið af slíku, varð ég fljótt vör við það og sérstaklega eftir að ég gifti mig að kona átti ekki að vera að mála eða selja myndir,“ segir Halla. „Það var sagt upp í opið geðið á mér, ef því var að skipta. Þess vegna passaði ég mig á því að hafa alltaf heimilið hreint og fínt áður en ég tók fram blýanta, pensla og liti. Og enn þann dag í dag hef ég verið svona. Ég man eftir því að það kom einhverju sinni til mín blaðakona og hún spurði eftir að hafa litið í kringum sig, hvort ég hefði verið að taka svo vel til bara út af því að hún hefði verið að koma í heimsókn. Ég sagði henni eins og var, að þetta væri alltaf svona, því ég hefði lært sem ung kona að ég gæti ekki leyft mér annað en að hafa allt hreint, því annars væri ég að taka eitthvað frá heimilinu. Og svo þegar ég var orðin eldri og var farin að halda sýningar og fá verkefni og leggja ómælda vinnu í þau, var þeim oft kippt út úr höndunum á mér á síðustu stundu, og karlmaður fékk verkið – þótt búið hefði verið að samþykkja að ég gerði það. Ég er á þeim aldri að það var mjög óalgengt að kona væri starfandi listamaður. Gerður Helgadóttir bjó mestan starfsaldur sinn erlendis og Nína Tryggvadóttir líka. Þegar ég byrja voru bara eintómir karlmenn. Og ég man þegar ég hafði brotið niður karlaveldið á Suðurnesjum, 1972, ég var fyrsta konan sem sýndi þar, og ég var líka fyrsta núlifandi konan sem sýndi á Kjarvalsstöðum, 1975, að það helltist yfir mig leiðindaritdómur, það var ekkert nýtilegt í sambandi við það sem ég gerði, ég hafði enga tilfinningu fyrir litum og þar fram eftir götunum. Skömmu áður höfðu Þjóðverjarnir komið til landsins og valið mig úr stórum hópi listamanna vegna þess hve ég hafði næman litasmekk.“

Öfundin er erfið við að eiga. Og hrokinn. Höllu var t.d. úthýst af samsýningu íslenskra glerlistarmanna 1985 með þeim orðum að hún væri óæskileg.

Hún vann samkeppni um útilistaverk á Sundmiðstöðina í Keflavík 1988 og var valin bæjarlistamaður Keflavíkur 1993, fyrst kvenna.

„Ég hef aldrei verið dugleg að berjast fyrir sjálfa mig. Ég hef frekar verið til hliðar. En það hefur verið erfitt að kyngja miklu óréttlæti, það verður að segjast eins og er. En fólkið sem komið hefur á sýningarnar mínar til að skoða og njóta hefur verið yndislegt. Þegar ég var með sýningu á Kjarvalsstöðum sló ég t.d. öll sölumet. Og ég gerði það líka í Keflavík. Stundum hefur hver einasta mynd selst.“

Helstu gler- og mósaíkverk Höllu Har á opinberum stöðum eru í Apoteke Linnich, Þýskalandi, Bischof Diözesan – Bauamt Mainz, Þýskalandi, Deutsches Glasmalerei-Museum í Linnich, Þýskalandi, 25 fermetrar að stærð, Elliheimilinu Grund, Glashutte Lamberts, Waldassen, Þýskalandi, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Hinkenhaus, Linnich, Þýskalandi, Hitaveitu Suðurnesja, Hótel Örk í Hveragerði, Hveragerðiskirkju, höfuðstöðvum Soroptimista í Genf, Sviss, höfuðstöðvum VISA á Íslandi, Kapellu Heilsugæslustöðvar Suðurnesja, Kiefel-Verlag Wuppertal í Þýskalandi, Listasafninu í Hjørring í Danmörku, Mainz Dreiser Marien Chapel í Þýskalandi, þar sem Halla var valin úr hópi 25 heimsþekktra listamanna, Menntaskólanum á Akureyri, PKI Verpackungssystem, Linnich, Þýsklaland, Ráðhúsi Siglufjarðar, Safnaðarheimili Sandgerðis, Safnaðarheimilinu á Siglufirði, Seðlabanka Íslands, Selfosskirkju, Sjúkrahúsi Siglufjarðar, Stykkishólmskirkju, Sundmiðstöð Reykjanesbæjar og í Þingeyrarkirkju. Auk þess vann hún steinda glugga í Strandarkirkju, hvern öðrum fallegri, en þeir hafa legið þar óhreyfðir í kössum í 20 ár, hvað sem veldur.

Dulúð, rómantík, kraftur og eitthvað meira

Myndir Höllu þykja dulúðugar og kraftmiklar og gjarnan á sama tíma yfir þeim einhver rómantískur blær.

Fyrsta einkasýning hennar var í Aðalbúðinni á Siglufirði árið 1962 og fyrsta myndin seldist á Þorláksdag. Það var stór mósaíkmynd, kona sem situr úti á akri og er að gefa barni sínu brjóst. „Alltaf þegar mér líður illa, þá sest ég fyrir framan myndina og fæ einhverja ró yfir mig,“ sagði eigandinn, sem býr á Siglufirði, síðar við Höllu.

Ólafur Þ. Þorsteinsson yfirlæknir, annar þeirra tveggja sem óskuðu eftir múrristunni á sjúkrahúsinu á sínum tíma, sagði síðar í bréfi til Höllu að á erfiðum stundum í starfi sínu hafi hann stundum sest framan við listaverkið og fengið úr því orku og andlegan styrk.

Og dæmin eru fleiri.

„Hann kom til mín hann Ævar Kvaran einu sinni, þegar ég bjó í Keflavík, og var hjá mér í fleiri klukkutíma og var að biðja mig um að fá að skrifa um myndirnar því hann sagði að það væri svo mikil lækning í þeim. Ég vildi það ekki, sagði að ef fólk keypti myndir og liði vel í návist þeirra væri ég ánægð, en ég vildi ekki selja þær út á það að það væri eitthvað yfirnáttúrulegt í þeim. Ég vildi ekki að það orð kæmist á mig. En margir fleiri hafa sannarlega talað um að það væri friður í þeim, að þær hefðu róandi áhrif á sig og aðra. Kannski er það vegna litasamsetningarinnar. Ég veit það hreinlega ekki. En svona hef ég verið að heyra alltaf í gegnum árin. Og víst er, að það fólk sem hefur keypt eina mynd hefur mjög gjarnan komið aftur og keypt aðra. Ég get nefnt mörg dæmi um það,“ segir Halla.

Ekkert að pæla í þessari listastefnunni eða hinni

Hún byrjaði listaferil sinn með því að mála á silki, „Drottinn blessi heimilið“, fleiri hundruð myndir, og selja til að hafa í fjölskylduna og á. Þetta mun vera til á öðru hverju heimili yst á Tröllaskaga, segir hún. Svo kom olían, síðan vatnslitir og akrýlmálning og fleira, en hún endaði alltaf í olíulitunum, þeir voru mest heillandi. Og svo glerið.

„Eitt er það sem ég hef alltaf gert, og það held ég að sé bara út af þessu sem ég var að ganga í gegnum sem ung kona, að þurfa að berjast áfram, að geta ekki fengið að hafa þetta eins og karlmenn gátu gert, að ég er með konu í nánast öllum mínum málverkum. Þetta er symbólið mitt. Hún táknar alltaf eitthvað, allt mögulegt. Hún er í myndum þar sem ég er að gera himininn eða hafið eða hvað sem er, þetta er yfirleitt allt morandi í konum. Þannig að það er mjög eðlilegt að ég skuli hafa látið gyðjuna Eir vera miðpunktinn 1966. Þetta eru leyndarmyndir, fólk tekur ekki eftir því strax hvað þar er að finna.“

Einnig hefur Halla árum saman stutt við líknar- og góðgerðarfélög með því að gefa myndir til útgáfu frímerkja, jólakorta og ýmissa tækifæriskorta.

En hvernig er vinnuferlið?

„Ég geri kannski margar hugmyndir og svo þróast það upp í eina. Þetta er ekki þannig að það spretti bara fram hugmyndin einn, tveir og þrír og ég þurfi ekki að breyta neinu. Ég sofna oft út frá því að ég er að raða saman litum eða spá í hugmyndir eða eitthvað.

Ég var að vinna með listamanni sem hét Kürsters – hann var mósaíklistamaður, hann stækkaði t.d. myndina utan á Tollhúsinu í Hafnarstræti í Reykjavík 1973, eftir Gerði Helgadóttur, og eins mynd utan á húsi Loftleiða – hann var alltaf að segja við mig: „Þú átt svo gott, Halla, þú ert svo frjáls.“ Því ég hef aldrei gengið með það í maganum að ég væri listamaður. Ég bara fann strax að ég ætlaði að gera þetta svona og hinsegin, prufa þetta og hitt. Ég hef aldrei verið að pæla í þessari listastefnunni eða hinni, heldur verið óhrædd að prófa nýja tækni, ný viðfangsefni og ný listform til að reyna að skapa minn eigin stíl.“

Og það hefur sannarlega tekist.

Múrristan á Siglufirði, gerð 1966. Halla tók ekkert fyrir verkið, þrátt fyrir að vera með lítil fjárráð og fjölskyldan að flytjast til Danmerkur. „Mér hefur alltaf fundist í gegnum árin þessi mynd vera að gera eitthvað fyrir mig. Hún hefur verið eins og einhver þráður í lífi mínu. Fólk hefur komið til mín og keypt af mér málverk af því að það hafði séð myndina. Þannig að hún hefur verið mikill áhrifavaldur,“ segir Halla.

Sýrubrennt gler, ein af örfáum myndum sem Halla gerði af þeim toga. Hún þurfti að vera með hjálparmann og í einangruðum galla við þá smíði.

Úr Morgunblaðinu í dag.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is