Bragi Magnússon: Norska sjómannaheimilið á Siglufirði


Fljótlega eftir að Norðmenn flykktust til Siglufjarðar til að stunda síldveiðar þaðan, fór að bera á drykkjuslarki og óeirðum þeirra á milli í helgarlandlegum, svo að til vandræða horfði. Fátt var til úrræða því að í landi var ekkert athvarf annað en krárnar svo og brennivín til dægrastyttingar. Allir vildu úrbætur en vissu ekki hverjar.

Indre misjon (Heimatrúboð) í Noregi lét málið til sín taka og sendi mann, Sjur Espeland, til Siglufjarðar árið 1914 til að kynna sér ástandið. Hann sá fljótt að ekkert var ofsagt og taldi að stofnun sjómannaheimilis og sjúkraskýlis kæmi að gagni. Hann kynnti hugmynd sína norskum útgerðarmönnum, skipstjórum og skipshöfnum og hóf strax fjársöfnun meðal þeirra til stuðnings málefninu og aflaði um sumarið 3000 króna, sem var góð upphæð í þá daga. Hann keypti 500 fermetra lóð af Maroni Sölvasyni við Aðalgötu 27. Síðan fór hann til Noregs og gaf Heimatrúboðinu skýrslu.

Sjur Espeland.

Sjur Espeland var duglegur og framtakssamur og var falin öll framkvæmd. Hann hóf fjársöfnun í Noregi og aflaði 8000 króna auk ýmiss húsbúnaðar. Húsaviður var keyptur, sagaður niður og tilsniðinn í Haugasundi um veturinn. Allur húsaviður var fluttur hingað með skipinu Pollux en þakskífur með skonnortunni Patriot.

Vorið 1915 var grunnurinn, þ.e. kjallarinn, steyptur, að flatarmáli 17 x 9,4 metrar og um haustið 12. september 1915 var húsið tilbúið og hvítmálað og vígt við fjölmenna athöfn þar sem Espeland hélt ræðu.

Þetta gamla, teiknaða kort vitnar um útlit Norska sjómannaheimilisins fyrrum.

Í kjallara hússins voru geymslur, á aðalhæð samkomusalur, lesstofa, kaffistofa, eldhús, aðstaða læknis og starfsfólks og í risi voru 2 sjúkrastofur með 4 rúmum hvor og herbergi hjúkrunarfólks.

Fullur rekstur hófst svo 1916. Starfsfólk, sem var norskt, kom með fyrstu skipum á vorin en fór með seinustu skipum á haustin. Fyrsti læknir heimilisins var Helgi Guðmundsson, en síðan tók Guðmundur T. Hallgrímsson við af honum. Þarna var tekið við öllum sjúklingum, hverrar þjóðar sem þeir voru. Starfsfólkið naut mikilla vinsælda, en minnisstæðust mun þó vera hjúkrunar- og forstöðukonan Marie Husa, sem starfaði við heimilið um 20 ára skeið. Um vetrarmánuðina hafði Sigurlaug Björnsdóttir (Lóa á Á) umsjón með húsinu.

Marie Husa.

Á heimstyrjaldarárunum féll reksturinn niður, en var tekinn upp að nokkru í stuttan tíma eftir stríð. Á hernámsárunum tóku Bretar húsið leigunámi fyrir bækistöð. Trésmíðaverkstæði var um tíma í aðalsal hússins. Árið 1978 var húsið friðað samkvæmt húsafriðunarlögum í B-flokki. Tónlistarskóli Siglufjarðar hefur verið á aðalhæð og í risi síðan 1987 og Fiskbúð hefur verið í vesturenda kjallara um 40 ára skeið. Húsið er nú í eigu og umsjá Siglufjarðarkaupstaðar og Fiskbúðar Siglufjarðar.

Í október 1997.

Bragi Magnússon

Svona lítur húsið út í dag.

Gamalt, teiknað kort: Ókunnur höfundur. Eigandi Eysteinn Aðalsteinsson.

Mynd af Sjur Espeland: Ókunnur höfundur. Tíminn Sunnudagsblað, 26. september 1965, bls. 874.

Mynd af Marie Husa: Kristfinnur Guðjónsson.

Ný ljósmynd af húsinu: Sigurður Ægisson | [email protected]

Texti: Bragi Magnússon.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]