Botnaleið


Ferðafélag Siglufjarðar efndi til göngu í fyrradag, laugardaginn 23. júlí, og var farin svokölluð Botnaleið, 9-10 km vegur yfir fjöllin. Göngutími var 4-5 klst og mesta hæð 710 m. Fararstjóri var Gestur Hansson. Upphaflega hafði þessi ferð verið á dagskrá 16. júlí en vegna þoku var henni frestað.

Á heimasíðu FS er þessa leiðarlýsingu að finna:

?Ferðin hefst við Lambanes-Reyki og er stikum fylgt þaðan upp norðurhlíð Nautadals eftir bolahrygg. Hryggurinn mun vera nefndur eftir hinum fræga Þorgeirsbola sem á að hafa drepið þar ferðamenn snemma á 19. öld. Við enda Bolahryggs, fyrir ofan botn Nautadals, er haldið til norðausturs í Botnleiðarskarð. Þar sést í suðaustri Almenningshnakki (929 m). Fjallið Blekkill blasir við í austri en í norðri Selfjall. Fljótamegin er þessi fjallabálkur nefndur einu nafni Siglufjarðarfjöll. Úr skarðinu er bratt niður í Botna, þar í miðju skálarhvolfinu er Botnaleiðarhóll. Af honum sér niður í Siglufjörð og er gengið niður með Blekkilsánnni og tekur þá við vel gróin Geldingahlíð milli Blekkilsár og Selár og þaðan er komið niður að vatnsbóli Siglufjarðar í Hólsdal.?

Ragnar Ragnarsson var með í för og sendi vefnum eftirfarandi myndir.

Myndir: Ragnar Ragnarsson | raggi.ragg@simnet.is.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is