Bóndadagskaffi og þorrablót á Leikskálum


Þorrinn er byrjaður. Hann er fjórði mánuður vetrar samkvæmt forníslensku
tímatali og við upphaf hans, þ.e.a.s. á bóndadegi sem nú heitir,
taldist veturinn vera hálfnaður. Af þessu tilefni buðu Leikskálabörn
pöbbum, öfum og langöfum í kaffi og vöfflur í morgun og héldu síðan
þorrablót í hádeginu – sem eflaust er það fyrsta í Siglufirði þetta árið.

Já, það er búið að vera nóg að gera á þeim bænum.

Upphaflega mun þorrakoma hafa miðast við fyrsta nýja tungl eftri vetrarsólhvörf, en eftir árið 1700 verður fyrsti dagur þorrakomu á bilinu 19.-25. janúar.

Nafnið þorri kemur fyrir í elsta íslenska rímhandritinu, frá lokum 12. aldar, en er þó talið mun eldra, eða allt frá tímum norræns átrúnaðar, sem hér í eina tíð var kallaður Ásatrú. Ekki er víst hvað nafnið þorri merkir. Af helstu tilgátum má nefna skyldleika við lýsingarorðið þurr, sögnina þverra, sem ætti þá að vera veturinn sem nú er tekinn að hopa, eða þá að þetta sé gælunafn á goðinu Ása-Þór, eða jafnvel blótglöðum fornkonungi sem nefndist Þorri.

Samkvæmt gömlum heimildum voru mánaðanöfn á Íslandi til forna eftirfarandi (þau sem ekki koma fyrir á seinni tímum eru hér blálituð):

1.

2.   

3.   

4.   

5.   

6.   

7.   

8.   

9.   

10.   

11.   

12.   

þorri, u.þ.b. 12. janúar ? 11. febrúar

gói, u.þ.b. 12. febrúar ? 11. mars

einmánuður, u.þ.b. 12. mars ? 11. apríl

gaukmánuður/sáðtíð, u.þ.b. 12. apríl ? 11. maí

eggtíð/stekktíð, u.þ.b. 12. maí ? 11. júní

sólmánuður/selmánuður, u.þ.b. 12. júní ? 11. júlí

miðsumar/heyannir, u.þ.b. 12. júlí ? 11. ágúst

tvímánuður/heyannir, u.þ.b. 12. ágúst ? 11. september

kornskurðarmánuður/haustmánuður, u.þ.b. 12. september ? 11. október

górmánuður, u.þ.b. 12. október ? 11. nóvember

ýlir/frermánuður, u.þ.b. 12. nóvember ? 11. desember

jólmánuður/mörsugur/hrútmánuður, u.þ.b. 12. desember ? 11. janúar

Nákvæm dagsetning var þó mismunandi eftir árum.

Síðar þróuðust nöfnin yfir í það sem við heyrum nú oftast talað um sem hin gömlu mánaðanöfn. Og jafnframt breytist dagsetningin, miðað við okkar tímatal; öllu seinkar. En mánaðaheitin eru sumsé þessi (þau nýju eru rauðlituð):

1.

2.   

3.   

4.   

5.   

6.   

7.   

8.   

9.   

10.   

11.   

12.     

þorri byrjar föstudag í 13. viku vetrar (19. ? 26. janúar)

góa byrjar sunnudag í 18. viku vetrar (18. ? 25. febrúar)

einmánuður byrjar þriðjudag í 22. viku vetrar (20. ? 26. mars)

harpa byrjar sumardaginn fyrsta, fimmtudag í 1. viku sumars (19. ? 25. apríl)

skerpla byrjar laugardag í 5. viku sumars (19. ? 25. maí)

sólmánuður byrjar mánudag í 9. viku sumars (18. ? 24. júní)

heyannir byrja á sunnudegi 23. ? 30. júlí

tvímánuður byrjar þriðjudag í 18. viku sumars (22. ? 29. ágúst)

haustmánuður byrjar fimmtudag í 23. viku sumars (20. ? 26. september)

gormánuður byrjar fyrsta vetrardag, laugardag í 1. viku vetrar (21. ? 28. október)

ýlir byrjar mánudag í 5. viku vetrar (20. ? 27. nóvember)

mörsugur byrjar miðvikudag í 9. viku vetrar (20. ? 27. desember)

Hallgrímur nokkur Jónsson, fyrrum skólastjóri Miðbæjarskólans í Reykjavík, setti þessi mánaðaheiti í ljóðaform og birti í stafrófskveri sínu, en það kom út í nokkrum útgáfum á árum áður og var mikið notað til kennslu ungum börnum. Hallgrímur var fæddur árið 1875 á Óspakseyri í Bitru og lést árið 1961.

Árið

Mörsugur á miðjum vetri,

markar spor í gljúfrasetri.

Þorri hristir fannafeldinn,

fnæsir í bæ og drepur eldinn.

Góa á til grimmd og blíðu

gengur í éljapilsi síðu.

Einmánuður andar nepju,

öslar snjó og hendir krepju.

Harpa vekur von og kæti

vingjarnleg og kvik á fæti.

Skerpla lífsins vöggu vaggar,

vitjar hrelldra, sorgir þaggar.

Sólmánuður ljóssins ljóma

leggur til og fuglahljóma.

Heyannir og hundadagar

hlynna að gæðum fróns og lagar.

Tvímánuður allan arðinn

ýtum færir heim í garðinn.

Haustmánuður hreggi grætur

hljóða daga, langar nætur.

Gormánuður, grettið tetur,

gengur í hlað og leiðir vetur.

Ýlir ber, en byrgist sólin,

brosa stjörnur, koma jólin.

Það var ekki fyrr en árið 1958 að orðið þorramatur fer að sjást á prenti um þjóðlegan, íslenskan mat. Maðurinn sem hóf hann til vegs og virðingar á ný var Halldór Gröndal, þá veitingamaður í Naustinu í Reykjavík. Hann hafði látið smíða sérstök trog til að bera matinn fram í, eftir fyrirmynd úr Þjóðminjasafninu. Og fyrsta árið mátti líta þar súr svið, lundabagga, hangikjöt, súrsaða hrútspunga, hákarl, bringukolla, glóðarbakaðar flatkökur og rúgbrauð með smjöri. Hlaut þessi nýbreytni afar góðar viðtökur.

   

Ekki var Naustið þó fyrst til að taka upp þann sið að halda þorrablót að nýju og bera fram gamaldags mat, því nokkur átthagafélög sem störfuðu í Reykjavík höfðu þá gert það um nokkurra ára skeið, a.m.k. frá 1951. Og sumir vilja meina að þetta sé ennþá eldra, því á Hólum í Hjaltadal voru árið 1905 trog á borðum og í þeim ?hangiket í stórum stykkjum, pottbrauðshleifar, flatbökur, smér og flot,? eins og segir orðrétt í ritheimild frá þeim tíma. Og á þorrablóti í Eyjafirði var um sama leyti boðið upp á sömu veitingar, og einnig bringukolla, magála, sperðla, laufabrauð, hákarl og harðfisk.

Nú á tímum eru bakkar með þorramat seldir í verslunum allan þorrann, auk þess sem maturinn er á boðstólum á veitingahúsum. Algengustu matartegundirnar eru hangikjöt, reyktir magálar, hákarl og harðfiskur, og af súrmeti bringukollar, hvalrengi, lundabaggar (þó ekki þeir gömlu, heldur slagvefjur), hrútspungar, sviðasulta, blóðmör og lifrarpylsa (þetta síðast talda bæði nýtt og súrt), og með þessu er höfð rófustappa og stundum einnig kartöflumúss, flatbrauð, rúgbrauð, smjör og fleira.

Hér koma svo nokkrar myndir frá Leikskálum í morgun og hádeginu.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is