„Bolla! Bolla! Bolla!”


Bolludagur er mánudagurinn í föstuinngangi, 7 vikum fyrir páska. En föstuinngangur kallast síðustu þrír dagarnir fyrir Lönguföstu sem hefst á miðvikudegi með Öskudegi.

Algengt var í kaþólskum sið að fastað væri á kjöt dagana tvo fyrir Lönguföstu og var það boðið í þjóðveldislögunum. Önnur merki um siði tengdan þessum degi er ekki að finna fyrr en á 19. öld. Til slíkra ákvæða um föstu á kjöt er hægt að rekja til þess sem kallaðist „að fasta við hvítan mat” í Danmörku, þar sem það er þekkt frá því um 1700 og að líkindum komið frá mótmælendasvæðunum í norðanverðu Þýskalandi. Þaðan er líka komin sá siður að vekja menn með flengingum á Bolludaginn.
Bolludagur á Íslandi

Flengingar og bolluát berst líklega til Íslands fyrir dönsk eða norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar, líklega að frumkvæði þarlendra bakara sem settust hér að. Heitið Bolludagur er ekki þekkt fyrr en eftir aldamót og mun orðið til hérlendis. Upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir 1870 en lagðist víðast hvar af eftir aldamótin. Þessir siðir héldust samt áfram á Akureyri en 1915 færðust þeir yfir á Öskudaginn og hafa síðan smásaman breiðst þaðan út aftur sem Öskudagssiðir. Fiskibolluframleiðsla á Íslandi tengdist bolludeginum árið 1939 en fyrst og fremst hafa það verið rjóma-og krembollur sem einkennt hafa mataræðið þennan dag.

Á Íslandi er ung hefð fyrir því að borða bollur á þessum degi. Bollurnar eru oftast bornar fram með sultu og rjóma innan í og hattur bollunnar skreyttur með súkkulaðihulu. Oftast er um tvær tegundir af bollum að ræða: vatnsdeigsbollur (sem eru mjúkar og frauðkenndar) og gerdeigsbollur (sem eru öllu fastari í sér). Bollur bolludagsins breytast lítið frá ári til árs, en bolluskrautið breytist alltaf lítillega eftir smekk tímans. Í Morgunblaðinu 1935 auglýsir bakaríið Freia t.d. eftirfarandi bollutegundir á bolludeginum: Rjómabollur, rommbollur, krembollur, súkkulaðibollur, rúsínubollur, vínarbollur, hveitibollur.

Bolluátið mun vera leifar af því „að fasta við hvítan mat” eins og að framan er greint, en áður fyrr nefndu menn mjólkurmat hvítan mat. Bolluát og feitmetisát virðist á öðrum Norðurlöndum reyndar hafa verið meir bundið við þriðjudaginn næsta í föstu. En á Íslandi hafa menn þennan sið við mánudaginn, sennilega til að trufla ekki hefðbundin matarsið Sprengidagsins.

Það er einnig rík hefð fyrir því að föndraðir séu bolludagsvendir sem yngri börn flengja foreldra sína með eða forráðamenn og hrópa: „Bolla! Bolla! Bolla!”. Í upphafi taldist flenging ekki gild nema flengjarinn væri alveg klæddur og fórnarlambið óklætt, og því ekki óalgengt að börn vöknuðu snemma til að geta „bollað” foreldra sína í rúminu. Sá sem er flengdur getur losnað undan þjáningunum með því að gefa bollu í staðinn, og fyrir hvert högg átti barnið að fá eina bollu. Flengingar þessar eiga sér líklega kaþólska fyrirmynd í táknrænum hirtingum á öskudag. Vöndurinn minnir á stökkul sem notaður var til að dreifa vígðu vatni við föstuinngang. Sumir telja hýðingarnar upprunalega lið í frjósemisgaldri og með þeim eigi að vekja alla náttúruna til lífs og starfa þegar vorið sé í nánd.

Mynd: Fengin af Netinu.
Texti: Wikipedia.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is