Boðið upp á smók og te en Fésbókin bönnuð


?Siglfirðingurinn Valgeir Sigurðsson hefur verið á ferðalagi síðustu
vikurnar og með í för Hans Sigurjón Þórðarson,? segir m.a. í
forvitnilegum aðsendum pistli frá Kína, sem fyrir nokkrum dögum barst Siglfirðingi.is.

?Ferðin hófst í Reykjavíkurhöfn með siglingu á flaggskipi íslenska kaupskipaflotans, Dettifossi, yfir Atlantshafið. Skipstjórinn á Dettifossi var Ríkharður Sverrisson en næstráðandi var meðhjálpari Siglufjarðarkirkju, Karl Guðmundsson. Siglt var maríuleiði til Hollands með stuttu stoppi í Þórshöfn í Færeyjum. Valgeir nýtti tímann vel í Færeyjum og keypti færeyska flaggið sem mun innan tíðar prýða reglulega flaggstöngina á Harbour House Café. Síðan lá leiðin á áfengiseinkasöluna og þar var verslunarstjóranum boðið upp á kynningu á Black Death bjórnum. 

Vistin um borð Dettifossi var draumi líkust og líklegast hefur Kolla kokkur komið á okkur nokkrum kílóum áður en stigið var af skipsfjöl í Hollandi, en matseldin fékk hæstu einkunn.

Eftir stutta dvöl í Hollandi þar sem fátt bar tíðinda var haldið með upplýsingabrunninum og skipshöndlaranum Artie Eichmann út á Skipshólsflugvöll. Stefnan var sett á Austurlönd og farið veginn yfir í breiðþotu frá China Southern flugfélaginu. Millilent var í Thaílandi og haldið síðan til Shantou í Rauða Kína.

Í Kína er margt framandi fyrir Íslendinginn og án efa er hann sömuleiðis mjög framandi heimamanninum. Víða er að sjá gríðarlega uppbyggingu og byggingakrana í svo miklum þéttleika að það minnir óneitanlega á Ísland árið 2007. Helsti munurinn er að byggingarnar sem eru að rísa í Suður-Kína eru að jafnaði fimmfalt hærri en á Íslandi. 

Umferðin er mikið sallat þar sem alls kyns ökutækjum ægir saman, s.s. reiðhjólum, eðalvögnum, vespum, mótorhjólum, mótorhjólum með sérbyggðum palli til flutninga á vörum og svo mótorhjólum með sérbyggðum vagni fólksflutninga. Erfitt er að henda reiður á hvaða umferðarreglur eru í gildi eða hvort að það sé hægri eða vinstri umferð. Alla jafna eiga stærri bílar meiri rétt en minni og minnstan forgang í umferðinni njóta fótgangandi. Undantekningalaust er ekki stoppað fyrir fótgangandi og er málið að troðast og böðlast hver sem betur getur til hægri og vinstri og allt í einni kös. Borgarbúum þykir handhægast að leggja bílum upp á gangstéttum. Kínverjar virðast að því leyti komnir miklu skemmra á veg með þetta en Svíar sem eru frægir fyrir að innheimta stöðumælagjöld allan sólarhringinn. 

Fyrir þá sem heimsækja Kína blasir ekki við alræðisvald kommúnistaflokksins heldur þvert á móti. Eitt og annað gefur þó til kynna að hér sé fylgst með og reynt sé að stýra. Stjórnvöld loka fyrir aðgang að bloggsíðum og Fésbókinni. Eflaust saknar massinn af Kínverjum ekki einhvers sem þeir þekkja ekki til en fyrir okkur hin sem stöldrum stutt við í Kína er þetta hálffurðulegt. Útlendingar sem hafa lengri viðdvöl í landinu hafa komið sér upp sérstöku forriti til þess að geta komist inn á Fésbókina og vorum við fljótir að redda okkur einu slíku.

Jafnan er gaman að fara í verslanir og má greina ríkan vilja hjá Kínverjum að greiða götu Íslendinganna en þeir virðast vita furðu mikið um landið Bing Dao, Ísland. Ekki er óalgengt að boðið sé þá upp á te sem hellt er upp á af mikilli viðhöfn og þá einungis einn sopa í einu. Sömuleiðis eiga heimamenn það til að bjóða upp á rettu með teinu en þá fá þeir jafnan nokkuð langan og mjög ákveðinn fyrirlestur hjá Valgeir um skaðsemi reykinga. Þess ber að geta að Kínverjar hafa uppi áform um að setja skilagjald á sígarettufiltera til þess að sporna við óþrifum af völdum vindlinga.

Hver veit nema að kínversk heilbrigðisyfirvöld fái í lið með sér sölumann Svartadauðabjórsins til að berjast gegn reykingum?

 

Sigurjón Þórðarson og Valgeir T. Sigurðsson.?

Hér koma svo myndir úr þessari ævintýraferð.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is