Bliki var auðþekkjanlegur


Njörður S. Jóhannsson lauk nýverið við að smíða líkan af enn einu sögufrægu Fljótaskipinu og afraksturinn er eins og áður geysifagurt verk. Í það fóru 3.224 koparnaglar. Skipið sem nú varð fyrir valinu er Bliki, sem smíðað var á Hraunum í Fljótum árið 1862 af Jóhannesi Sigurðssyni. Það fórst árið 1871 með tíu manna áhöfn, að talið er 14. apríl, og var þá í eigu Einars B. Guðmundssonar. Um þann atburð ritar Hjalti Pálsson á einum stað eftirfarandi: „Samkvæmt frásögn Hannesar [Hannessonar] á Melbreið, hafðri eftir gömlum Fljótamönnum, reru þrjú skip úr Fljótum þann 13. apríl. Sagt var að tvö þeirra hafi aldrei kastað stjóra því að gengið hafi í hríð og vonskuveður. Sást það síðast til Blika að hann hélt áfram útsiglingu þegar hin sneru við. Daginn sem skipin tvö náðu landi, hinn 14. apríl, var stórhríð og frostharka og talið að þann dag hefði skipið farist… Var skipið vel búið að öllu leyti og talið að ekki væru önnur betur mönnuð, valinn maður í hverju rúmi. Þetta var síðasta opna hákarlaskipið sem fórst úr Fljótum.“

Þeir sem fórust voru Gísli Jóhann Árnason, 37 ára bóndi á Lambanesreykjum, Guðbrandur Pétur Mikaelsson, 18 ára ógiftur vinnumaður á Hraunum, Guðmundur Ásgrímsson, 24 ára nýgiftur bóndi á Þrasastöðum, Jóhann Steingrímsson, 36 ára bóndi í Höfn, Jón Ásgrímsson, 23 ára bóndasonur frá Skeiði í Fljótum, Jón Steinsson, 42 ára giftur bóndi á Gautastöðum, Jón Þorkelsson, 42 ára bóndi á Reykjarhóli í Austur-Fljótum, Páll Pálsson, 33 ára giftur bóndi á Knappsstöðum, Rafn Gíslason, 38 ára bóndi á Hamri í Austur-Fljótum og Steinn Jónsson, 30 ára giftur bóndi í Tungu.

Langafinn er heimildamaðurinn

Lýsingu á Blika hefur völundurinn frá manni sem var öllum hnútum kunnugur í sveitinni og var um tíma um borð.

„Kristján langafi minn Jónsson sagði mér að árið 1870, sama ár og hann flytur með foreldrum sínum, Jóni „yngri“ Jónssyni og Gunnhildi Hallgrímsdóttur, frá Brúnastöðum í Fljótum að Arnarstöðum í Sléttuhlíð, hafi hann og faðir hans farið á Blika fyrstu viku apríl í tvær veiðiferðir,“ segir Njörður. „Sú fyrri var mikið styttri, því þá fóru þeir á færi, voru að afla fiskjar, því að menn voru orðnir frekar fisklitlir um það leyti, en í seinni ferðinni fóru þeir í hákarl, og þá voru þeir í þrjá og hálfan sólarhring og þeir fengu átta og hálfa tunnu af lifur. Og hann sagði við mig að skipið hefði verið 30 og hálft fet á lengd og fjórtán umför og efsta umfarið hafi verið hvítt að andófsþóftu og svo svart á milli þófta og hvítt aftur á milli næstu þófta og skipið hefði heitið Bliki og að það hefði verið hægt að þekkja þetta skip langt að vegna þess að efsta borðið var málað svona svart og hvítt. Og hann sagði mér líka að það hefði verið með altari, en það er fjölin sem er yfir næst öftustu þóftunni, og bitaþóftan hefði verið aftur í og matarkista þar aftan við; bitaþóftan er þófta sem er smíðaður kassi undir, stundum með þremur götum, stundum fjórum, það var misjafnt, og þar gátu menn stungið inn í vettlingum til þess að vera nógu fljótir að grípa til þeirra ef þeir þurftu á þeim að halda, þeir voru alltaf þurrir þarna. Og svo aftan við bitakistuna, eða þóftuna sem formaðurinn sat á, þar var stór matarkista, þar sem menn gátu sett það sem þeir höfðu með sér á sjóinn. Og líka tjörubelgur og færi við hann, því að það þurfti stundum að seila fisk í land, hann var hafðir þarna aftan við.“

Breitt, stöðugt og gott sjóskip

Jafnframt sagði Kristján Nirði að allar skilrúmsfjalir hefðu verið byggðar inn á við, til að stöðva lifrina í veltingi, og það hefði verið skilrúm í miðjum lifrarkössunum báðum eftir endilöngu. Kjölfestan hefði verið í kerlingarhólfinu sem var aftan við andófsþóftuna, sem er fremsta þóftan, og svo hefði líka verið kjölfesta framan við þóftuna sem altarið var á og þar niður.

„Og hann sagði mér, að í skipinu hefði verið góður átta tommu kompás,“ segir Njörður. „Það var nú eina siglingatækið sem þeir höfðu fyrir utan bara árar og stýri. Og á stórseglinu hafi verið tvírifað en á aftursegli og framsegli hafi verið bara einrifað. Og hann sagði mér margt fleira, m.a. það að Bliki hefði siglt mjög vel, þetta hafi verið breitt og stöðugt og gott sjóskip og ákaflega sterkt.“

Efnið í fleyinu var keypt greni, ókantskorið, bátaskífur sem kallaðar voru, en öll bönd voru úr rekavið. Í líkanasmíðina notaði Njörður hins vegar smíðafuru, nema í þrjú neðstu borðin, sem eru þurrkaður rekaviður. Hátt í 800 tímar fóru í listaverkið. Og sem fyrr gerði Björg Einarsdóttir, eiginkona Njarðar, seglin.

Full ástæða er til að óska þeim hjónum enn og aftur til hamingju. Þetta einfaldlega gerist ekki flottara.

Greinin í Morgunblaðinu í dag.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Fylgja: Greinin í Morgunblaði dagsins.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]