Bliki og Gestur komnir í Pálshús

Á fimmtudaginn var, 12. september, færðu hjónin Björg Einarsdóttir og Njörður S. Jóhannsson, Eyrargötu 22, Siglufirði, Fjallasölum ses, Strandgötu 4, Ólafsfirði, að gjöf líkan af súðbyrðingnum og áttæringnum Blika, sem Njörður smíðaði veturinn 2017-2018, og einnig líkan af súðbyrðingnum Gesti, fyrsta þilskipi Ólafsfirðinga, sem Njörður smíðaði veturinn 2018-2019. Athöfnin fór fram í Pálshúsi, þar sem líkönin verða til sýnis.

Fyrir afhendingu hélt Njörður tölu, þar sem hann fór m.a. yfir sögu þessara skipa beggja og útskýrði á sinn einstaka hátt fyrir viðstöddum hvernig tól og tæki um borð voru notuð á hákarlatímanum, auk þess að kunna nöfn á þeim öllum. Var góður rómur gerður að máli hans.

Eftir að Helgi Jóhannsson hafði fyrir hönd Fjallasala ses tekið á móti Blika og Gesti og undirritað gjafabréfið þar um, þar sem m.a. segir að Fjallasalir ses skuldbindi sig til að varðveita líkönin og bannað sé að farga þeim, gefa, selja eða afhenda öðrum, voru þau hjón, Björg og Njörður, leyst út með gjöfum.

Helgi Jóhannsson veitir skipunum móttöku fyrir hönd Fjallasala ses.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]