Blágræni sveppurinn


Fyrsta ágúst síðastliðinn fundu Brynja Gísladóttir og Jón Andrjes Hinriksson merkilegan svepp í Skarðdalsskógi. Sá var blágrænn að lit og reyndist, þegar Kerstin Gillen sveppafræðingur var búin að rannsaka hann á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri, hér vera um að ræða Stropharia aeruginosa. Sú tegund hefur aldrei áður fundist í Siglufirði og eina dæmið um hana í gagnagrunni GBIF er úr Sogamýri í Reykjavík, en þar fannst sveppurinn árið 1947.

Umræddur sveppur gulnar eftir því sem á líður, eins og sjá má af ljósmyndunum sem hér fylgja.

Sumir vilja meina að þetta sé sami sveppur og ber á latínu heitið Stropharia alpina, og sem á íslensku hefur verið nefndur mosablína, en það er víst álitamál. Sá hefur fundist á 45 stöðum á Íslandi, en aldrei á Siglufirði.

Annars er þessi Paradís okkar Fjallabyggðunga í miklum blóma þessa dagana, því ber eru nánast á hverju strái og fjöldi annarra sveppa hefur verið að reka upp kollinn, þar á meðal berserkjasveppur, sem ekki er algengur í skógum landsins. Sá sveppur er mikið augnayndi en eitraður og fólk er því beðið um að vera ekki að eiga við hann, heldur einungis njóta hans úr fjarlægð. Eins er með þann blágræna og aðra, sem ekki má neyta. Þeir eru bara til prýði.

Þá hefur sést til kanína á hlaupum þarna, sem einhver hefur líklega sleppt. Slíkt er með öllu bannað, að sögn forráðamanna Skógræktarfélags Siglufjarðar. Kanínur lifa villtar á nokkrum stöðum í landinu, þar á meðal í Kjarnaskógi á Akureyri og eru þar plága eins og víðast hvar annars staðar. Í Vestmannaeyjum voru þær farnar að keppa við lundann um varpholur og var því útrýmt í kjölfarið.

Einnig hefur sést og heyrst til manna spólandi á vélhjólum um stíga, sem engan veginn passar við kyrrðina sem á að ríkja þarna innfrá.

Göngum vel um þennan dýrðarreit okkar og sýnum honum þá virðingu sem hann á skilið. Hann er nefnilega engu líkur.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]