Beinhákarl á fjöru í Ólafsfirði


Beinhákarl rak á fjöru í Ólafsfirði í gærmorgun og vakti þar mikla athygli. Um er að ræða 6-7 metra langt dýr, en meðallengd fullorðinna beinhákarla er um 7-9 metrar en þeir stærstu geta orðið allt að 12 metra langir og 50 ára gamlir.

Beinhákarlinn er stærsti þekkti fiskur við Ísland og sá næststærsti í heimi og er í eldri ritheimildum sagður geta náð allt að 30 metra lengd. Hann var talinn með hvölum áður fyrr, eða allt fram á 18. öld. Latneskt fræðiheiti hans er dregið af orðinu cetus (hvalur, sjóskrímsli) og merkir „hvalraspurinn mikli“.

Beinhákarlinn er svifdýraæta, með afar flókna tálknagerð; þau eru í raun og veru í og með hálfgerð skíði. Hann syndir um með opið ginið, oftast við yfirborðið, til að safna í það hinni smávöxnu fæðu.

Yfirleitt nýttu menn bara lifrina úr þessum risafiski, þegar veiðar á nútíma hófust, en sökktu búknum í hafið. Þó er kunnugt um, að á 18. öld hafi snauðir íbúa Finnmerkur skorið beinhákarlinn í strimla, útvatnað í sjó og hert síðan eins og rikling. Á Írlandi hirtu menn, auk lifrarinnar, einnig fremri bakuggann, eyruggana og sporðinn.

Þar til fyrir skemmstu vissu menn nánast ekkert um lifnaðarhætti beinhákarlsins. Hann birtist allt í einu á vorin og „gufaði upp“ þegar fór að hausta, svo að ekkert spurðist af ferðum hans. Ýmsar tilgátur voru settar fram. Ein var sú, að hann leitaði þá út á reginhaf og legðist á botninn þar sem straumar væru til að endurnýja tálknskíðin, því einstaklinga hafði rekið á land á þeim árstíma sem gáfu til kynna að um einhverja slíka breytingu gæti hafa verið að ræða. Önnur var á þá leið, að beinhákarlinn leitaði yfir vetrarmánuðina í aðra fæðu en jafnan og að hana væri að finna einhvers staðar langt úti eða þá niðri í hafdjúpunum. Nú er vitað að þetta er farfiskur, ef svo má að orði komast. Hann fer úr íslenskri og breskri landhelgi á veturna suður á bóginn og heldur til í Biskayaflóa og undan ströndum Portúgals og fyrir ekki löngu síðan fréttist af einum með gervihnattasendi í sér út af Nýfundnalandi.

Lengi var heldur ekki vitað hvort beinhákarlinn fæddi lifandi afkvæmi eða gyti eggjum – pétursskipum -, þótt ýmislegt benti til hins fyrrnefnda, eins og síðar kom í ljós að var reyndin. Enn er þó fátt vitað um æxlunarhætti hans.

Beinhákarlinn í Ólafsfirði var með reipi flækt um styrtluna.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is