Beðið eftir systkinunum


Jaðrakanaungi var nýkominn úr eggi í Siglufirði á dögunum þegar tíðindamenn Siglfirðings.is áttu leið framhjá hreiðrinu og ákváðu að heilsa upp á þennan nýjasta íbúa fjarðarins, sem beið eftir að systkinin tvö færu nú einnig að brjóta sér leið og takast á við það sem lífið hefur upp á að bjóða.

Unginn og tvö egg sem voru byrjuð að opnast.

Um þetta leyti eru allflestar fuglategundir búnar að unga út, enda stutt til hausts og margt að gera áður en sá tími kemur.

Jaðrakaninn á varpheimkynni á Íslandi, á nokkrum stöðum í Evrópu og um miðbik Asíu, allt austur að Kamtsjatkaskaga. Íslenski jaðrakaninn er eindreginn farfugl sem kemur til landsins í seinni hluta aprílmánaðar. Víða á Suðurlandi hefst varpið undir lok maímánaðar en eitthvað seinna í öðrum landshlutum. Hreiðrinu, að mestu ófóðraðri laut ofan í þúfnakolli, er valinn staður í grónum mýrum, flóum með þurrum blettum í, röku graslendi, jafnvel blautu kjarrlendi og (erlendis a.m.k.) á sandhólasvæðum. Eggin eru yfirleitt 3-4 talsins, örsjaldan fimm. Þau eru græn eða dökkbrún að grunnlit, alsett svarbrúnum doppum og flekkjum, litlum og stórum. Bæði foreldri sjá um áleguna. Útungunartíminn er 22-24 dagar og eru ungarnir hreiðurfælnir. Þeir verða fleygir 25-35 daga gamlir og kynþroska 1-3 ára.

Í öruggum höndum.

Jaðrakaninn var um aldir bundinn Árnes- og Rangárvallasýslum einum, en að talið er vegna loftslagsbreytinga upp úr 1920 fór tegundin svo að dreifast út fyrir það svæði, fyrst til Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu, á árunum 1920-1930. Um 1940 er talið að fuglar hafi orpið í Skagafjarðarsýslu og í kringum 1950 í Snæfells- og Hnappadalssýslu, um 1963 við Mývatn, og upp úr 1970 á Héraði. Síðan hefur tegundin dreifst um landið allt og er enn í sókn.

Í september eru flestir jaðrakanar horfnir af landi brott, til Írlands, Skotlands og þaðan allt til Frakklands, Portúgal, Spánar og Norður-Afríku. Þar er svo dvalið vetrarlangt, á sjávarleirum, við árvoga eða í mýrlendi.

Hreiðurmynd: Mikael Sigurðsson.
Aðrar myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]