Barnaby Siglufjarðar

„Óvænt endalok í bestu bók Ragnars,“ segir Steinþór Guðbjartsson í þriggja og hálfrar stjörnu dómi um nýjustu bók Ragnars Jónassonar, Náttblindu, í Morgunblaðinu í dag, og tekur fram að lögreglumaðurinn Ari sé „farinn að verða nokkurs konar samnefnari fyrir Siglufjörð, svona rétt eins og Barnaby lögregluforingi í Midsomer.“ „Ragnar Jónasson hefur sjóast vel í ólgusjó glæpasagna, byggt á traustum grunni og sýnir með sögunni Náttblindu að hann er farinn að gera sig gildandi á þessum vettvangi. Eins og Ragnar er þekktur fyrir er sögusviðið Siglufjörður að vetri til. Lögregluvarðstjóri staðarins er skotinn til bana og þá kemur til kasta lögreglumannsins Ara auk þess sem Tómas, fyrrverandi lögregluvarðstjóri er kallaður á vettvang. Inn í morðmálið fléttast vandamál í einkalífi lykilpersóna og annarra. Þræðirnir falla að lokum saman og ekki verður annað sagt en að endalokin í Náttblindu séu óvænt,“ segir Steinþór ennfremur og tekur fram að lýsingar á togstreitu og fjölskylduvandamálum þétti bókina og geri söguna fyllri og dýpri. Steinþór lýkur umfjöllun sinni á að segja að í stuttu máli sé þetta besta bók Ragnars Jónassonar.

Mynd: Aðsend.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]