Barna- og unglingastarf í blóma


Hestamannafélagið Glæsir hefur verið með reiðnámskeið fyrir börn á laugardögum með stuðningi Fiskmarkaðar Siglufjarðar. Námskeiðið hófst fyrir nokkrum vikum síðan og er miðað við getu hvers og eins iðkanda. Kennari er Herdís á Sauðanesi og nýtur hún aðstoðar Dagbjartar, Láru, Marlisar og Halldóru. Iðkendur hafa tekið miklum framförum en nokkrir þeirra höfðu í upphafi námskeiðs aldrei komið nálægt hestum og voru alls ekki hrifnir af hestum. Í dag fara allir iðkendur með bros á vör á hestbak og gæða sér á gómsætu bakkelsi að tíma loknum sem Jakob í bakaríinu á Siglufirði hefur boðið upp á. Eru Aðalbakaranum og Fiskmakaðnum færðar bestu þakkir fyrir. Iðkendur eru sammála um að laugardagar eru betri á hestbaki.

Í vetur hafa eldri iðkendur Glæsis, með dyggum stuðningi Ramma, lagt stund á Knapa 1 og Knapa 2. Knapamerkin fela í sér markvisst nám í hestamennsku og byggja á faglegum grunni. Knapamerkin eru 5 talsins og er kennla bæði bókleg og verkleg.  Kennari kemur á sunnudögum frá Dalvík og fer yfir verklega og bóklega kennslu. Næsta haust munu iðkendur halda áfram og taka Knapamarki 3. Eru Ramma færðar bestu þakkir.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]