Bara einn skafl eftir í austri


Sumarið er búið að vera hlýtt og gott. Fyrir aðfaranótt mánudagsins síðasta, þegar gránaði í efstu tinda hér nyrðra, var engan snjó að sjá í fjöllunum við Siglufjörð austanverðan, ef undan er skilinn lítill skafl í Skollaskálinni. Að sögn glöggra heimamanna er þetta ekki algengt, því iðulega hafi mátt líta annan svipaðan í innanverðum Nesnúpnum, en nú sé hann löngu bráðnaður. Þegar óðum styttist í fyrsta vetrardag er samt óvíst að bletturinn í Skollaskálinni gefi meira eftir en orðið er. Og þó skyldi maður aldrei segja aldrei.

Skaflarnir innst í Skútudalnum hafa líka oft verið meira áberandi en þessa dagana. Þá er Almenningshnakki, hæsta fjall við Siglufjörð, enn grár eftir heimsóknina í vikubyrjuninni.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is