Bandaríska tónskáldið Evan Fein á Þjóðlagahátíð


Í Siglufjarðarkirkju í kvöld, föstudaginn 4. júlí, kl. 20:00, fer fram frumflutningur á Íslandi á þjóðlagaflokknum Ný íslensk þjóðlög eftir bandaríska tónskáldið Evan Fein og Þorvald Davíð Kristjánsson. Jafnframt verða flutt, í fyrsta sinn á Íslandi, lög úr óperunni The Raven’s Kiss eftir sömu höfunda, auk þess sem önnur verk eftir Evan verða á dagskrá. Tenórinn Bragi Bergþórsson syngur en Evan leikur undir á píanó.

Evan var í viðtali við Morgunblaðið í vikunni þar sem hann sagði meðal annars: ?Ég held að andrúmsloftið á þessum tónleikum verði heldur persónulegra en til að mynda þegar óperuverk mitt var flutt í París. Annars er það svo fyrir tónskáld að hvar sem tónlistin er spiluð, hvort sem það er París eða Siglufjörður, er hún loks að vakna til lífsins og það er alltaf jafnt ánægjulegt, sama hvar það er.? Þá segir m.a. í viðtalinu: ?Lögin tengjast flest náttúruöflunum sterkum böndum og kveður Evan fáa staði í heiminum betur til þess fallna en Siglufjörð að hýsa flutninginn.?

Evan Fein lauk nýverið doktorsnámi í tónsmíðum frá Juilliard í New York og kennir nú við sama skóla. Verk eftir hann hafa verið flutt í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Hollandi og hann hefur unnið tónverk fyrir Juilliard, sinfóníuhljómsveitina í Albany í New York og fleiri aðila. Fyrsta óperan hans, The Raven’s Kiss, var frumsýnd hjá Juilliard árið 2011, en Þorvaldur Davíð skrifaði texta við hana. Önnur óperan hans var frumsýnd í París 2013 og þriðja ópera hans verður sýnd sumarið 2015 í Frakklandi.


Bandaríska tónskáldið Evan Fein.


Umfjöllun Morgblaðsins á dögunum.
Stærra letur hér.

Texti: Aðsendur.

Mynd: Aðsend (T. J.).

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is