Bæjarstjóri lætur af störfum

Gunn­ar Ingi Birg­is­son, bæj­ar­stjóri í Fjalla­byggð, læt­ur af störf­um á morg­un, 1. des­em­ber. Hann tók við starfi bæj­ar­stjóra Fjalla­byggðar 29. janú­ar 2015. Í viðtali, sem Guðni Einarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, tók við hann og sem birtist þar í dag segir m.a. eftirfarandi:

„Það stóð aldrei til að ég yrði út þetta kjör­tíma­bil. Svo fær­ist ald­ur­inn yfir og heilsu­farið ekki eins gott og maður vildi. Það er ástæðan fyr­ir því að ég ákvað að hætta nú,“ sagði Gunn­ar. Hann var áður bæj­ar­stjóri í Kópa­vogi í á fimmta ár. Gunn­ar sagði að starf bæj­ar­stjóra væri bæði skemmti­legt og krefj­andi en einnig er­ilsamt.

„Ég hef haft mikla ánægu af að vera bæj­ar­stjóri og ekki síst af sam­starf­inu við allt það góða fólk sem maður hef­ur unnið með og íbú­ana hér í Fjalla­byggð sem tóku okk­ur hjón­um sér­stak­lega vel,“ sagði Gunn­ar. Hann hef­ur haft bú­setu á Sigluf­irði og kon­an hans einnig dvalið þar mikið.

Gunn­ar rak lengi stórt verk­taka­fyr­ir­tæki og þekk­ir því vel til verk­legra fram­kvæmda. Hann sagði það hafa verið góðan und­ir­bún­ing fyr­ir bæj­ar­stjóra­starfið.

„Í verk­tak­a­starf­sem­inni verður maður að geta tekið ákv­arðanir. Ef maður er sveit­ar­stjóri eða bæj­ar­stjóri verður líka að taka ákv­arðanir. Í því sam­bandi er oft betra að veifa röngu tré en öngvu því maður veit ekki alltaf fyr­ir­fram hvort maður er að taka rétta ákvörðun.“

Gunn­ar kvaðst hafa haft það að leiðarljósi í störf­um sín­um sem bæja­stjóri bæði í Fjalla­byggð og Kópa­vogi að hafa rekst­ur­inn í lagi. „Ef rekst­ur­inn er í lagi þá verður tekju­af­gang­ur sem er hægt að fram­kvæma fyr­ir og nota til að greiða niður skuld­ir. Þú verður ekki vin­sæl­asti maður­inn á svæðinu fyr­ir að gera þetta svona! En með þessu er hægt að laga innviði og gera ým­is­legt. Maður sér víða hjá sveit­ar­fé­lög­um að rekst­ur­inn er ekki nógu góður. Ég bendi á að rekstr­araf­gang­ur síðasta árs hjá okk­ur í Fjalla­byggð var 280-290 millj­ón­ir á meðan marg­falt stærri sveit­ar­fé­lög voru að skila af­gangi upp á 5-6 hundruð millj­ón­ir. Rekstr­araf­gang­ur okk­ar í Fjalla­byggð stefn­ir í að verða betri á þessu ári en hann var í fyrra.“ Þess má geta að í Fjalla­byggð búa rúm­lega 2.000 manns.

Gunn­ar sagði að góður ár­ang­ur í rekstri næðist ekki nema með aðhaldi og góðu starfs­fólki. „Ég geri þetta ekki einn held­ur með góðu liði,“ sagði Gunn­ar. En hvað tek­ur við hjá hon­um nú?

„Ég segi eins og Guðmund­ur jaki sagði þegar hann var spurður hvað hann ætlaði að gera þegar hann hætti hjá Dags­brún. „Ég ætla ekki að fara að safna frí­merkj­um!““ Gunn­ar sagðist vera þannig gerður að hann þyrfti að hafa eitt­hvað fyr­ir stafni. Það þarf ekki vera jafn mikið og hann hef­ur haft að gera und­an­far­in ár.

Gunn­ar er doktor í jarðvegs­verk­fræði og kann til verka í verk­tak­a­starf­semi og sveit­ar­stjórn­ar­mál­um. „Ég hef unnið sem ráðgjafi bæði fyr­ir sveit­ar­fé­lög og verk­taka. Ég held að ég verði ekk­ert at­vinnu­laus,“ sagði Gunn­ar.

Mynd (úr safni): Aðsend.
Texti: Morgunblaðið (Guðni Einarsson │ [email protected]) / Sigurður Ægisson │ [email protected]