Bæjarlífspistill


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni. Þetta á að vera stutt og hnitmiðað. Þann 4. janúar og 10. september 2011, 28. janúar, 21. júlí og 10. nóvember 2012, 6. apríl, 17. ágúst og 14. desember 2013 var komið að Siglufirði. Einnig 17. maí og 15. nóvember 2014. Og svo í dag.

Þar segir:

  • Meðalumferð á dag um Héðinsfjarðargöng mældist 609 bílar/sólarhring allt síðasta ár og hefur aldrei verið meiri frá því að göngin voru opnuð. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem meðalumferðin fer yfir 600 bíla/sólarhring. Samtals fóru rúmlega 222 þúsund ökutæki um göngin allt síðasta ár borið saman við rúmlega 205 þúsund árið 2013. Þetta er því aukning um 8,4% á milli ára. Sumardagsumferðin (júní–september)  jókst enn meira eða um 9,4% á milli ára.
  • Alls hafa 16 skemmtiferðaskip boðað komu sína til Siglufjarðar í sumar. Það fyrsta kemur 27. maí og það síðasta 24. september. Mikil fjölgun skipa hefur verið á milli ára og er þessi ferðaþjónusta í mikilli sókn í Siglufirði.
  • Örlygur Kristfinnsson hefur fyrir hönd Síldarminjasafns Íslands óskað eftir stuðningi Fjallabyggðar til að hægt verði að halda norræna strandmenningarhátíð á Siglufirði árið 2018. Leggur hann til að Síldarminjasafnið og Fjallabyggð gangi til liðs við Vita- og strandmenningarfélagið en það hefur verið tengiliður Íslands við þessa hátíð sem haldin hefur verið til skiptis á Norðurlöndunum frá árinu 2011.
  • Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er 15 ára í ár, en hún var fyrst haldin árið 2000 fyrir tilstuðlan Félags um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, Reykjavíkur – menningarborgar Evrópu árið 2000, og Siglufjarðarkaupstaðar. Hátíðin er skipulögð í nafni Félags um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, en samstarfsaðilar á Siglufirði eru Síldarminjasafnið og Siglufjarðarkirkja.
  • Eyþór Eðvarðsson hjá Þekkingarmiðlun hefur búið til afar sláandi þátt um fornleifauppgröft á Siglunesi, en þar eru ómetanlegar fornminjar frá fyrstu tíð, jafnvel 9. öld að því talið er, sem eru að hverfa í sjóinn. Umræddan þátt er að finna á Youtube.com.
  • Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, heimsótti Siglufjörð 5. og 8. mars. Var það liður í vísitasíuferð hennar um Norðurland sem hófst á síðasta ári og var nú áfram haldið. Með henni í för voru Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, og Jón Ármann Gíslason, prófastur á Skinnastað.
  • Landsmót kvæðamanna var haldið á Siglufirði 7. mars. Ljósmyndin hér fyrir ofan var tekin þar.
  • Afli skipa Ramma hf. á síðasta ári var rúmlega 18.000 tonn, að verðmæti tæplega 6 milljarða króna. Hefur fyrirtækið nú samið um smíði á nýjum frystitogara hjá Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi fyrir jafnvirði 5,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hann verði afhentur í desember 2016. Skipið verður með vinnslubúnað eins og best gerist.
  • Fríða Björk Gylfadóttir er Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2015.
  • Tökum á Ófærð, viðamestu framhaldsþáttaröð sem gerð hefur verið hér á landi fyrir sjónvarp, lýkur senn en þær hófust nyrðra í lok janúar. Áður munu tökur hafa farið fram í Reykjavík og nágrenni fyrir jól en samkvæmt upplýsingum frá framleiðslufyrirtækinu, RVK Studios, eru tökudagar um 85. Hátt í 90 manns vinna að gerð þáttanna. Framleiðslukostnaður slagar hátt í milljarð króna, sem gerir hana jafnframt að dýrustu sjónvarpsþáttaröð sem Íslendingar hafa framleitt.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]