Bæjarlífspistill


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem
nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð
og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni.
Þetta á að vera stutt og hnitmiðað. Þann 4. janúar og 10. september
2011, 28. janúar, 21. júlí og 10. nóvember 2012 og 6. apríl, 17. ágúst og 14. desember
2013 var komið að Siglufirði. Og svo í dag.

Þar segir:


Umsvif sjaldan meiri en nú

 • Miklar framkvæmdir standa nú yfir á Siglufirði og fara þarf aftur á fimmta áratug síðustu aldar til að finna sambærileg umsvif.
 • Þjónustuver ríkisskattstjóra er nú alkomið norður, til Siglufjarðar og Akureyrar. Þetta gerðist um áramótin. Starfsmenn eru 28.
 • Bæjarlistamaður
  Fjallabyggðar 2014 er Leikfélag Fjallabyggðar. ?Stöngin inn? var sem
  kunnugt er valin áhugaverðasta sýning hjá áhugamannaleikfélagi á landinu
  2013 og var LF í kjölfarið boðið að setja hana upp í Þjóðleikhúsinu.
 • Af
  rúmlega 33.000 fyrirtækjum sem skráð eru í hlutafélagaskrá verðskulda
  462 nafnbótina ?Framúrskarandi fyrirtæki 2013? samkvæmt mati Creditinfo.
  Þar í hópi eru Primex ehf. og SR-Vélaverkstæði hf. sem einnig var þarna
  2012 og 2011.
 • Þrír Siglfirðingar voru í hópi þeirra sem fengu
  Edduverðlaun í ár; Gunnar Pálsson fyrir leikmynd ársins (Fólkið í
  blokkinni), Karl Rúnar Karlsson Lillendahl fyrir framlag sitt til
  Djöflaeyjunnar og Sigríður Margrét Vigfúsdóttir hlaut heiðursverðlaun
  Eddunnar fyrir yfir tuttugu ára þrotlaust starf í þágu íslenskra
  kvikmynda á erlendri grundu.
 • Síldarminjasafn Íslands opnaði í
  mars nýja heimasíðu. Þar kemur m.a. fram, að árið 2013 hafi verið mesta
  aðsókn þangað frá upphafi, en þá litu inn um 20.000 gestir. Og
  útlendingar hafa aldrei verið fleiri. Safnið fagnar 20 ára afmæli á
  þessu ári.
 • Siglfirskir jaðrakanar hafa eins og aðrir farfuglar
  leitað á varpstöðvar sínar hér. Þar í hópi eru margir sem bera litmerki,
  sem þeir hafa fengið á síðustu árum, ýmist sem ungar eða fullvaxnir.
  Hefur komið í ljós að vetrarheimkynnin eru mikið til á Írlandi og
  Englandi, en þó eru einhverjir jafnframt í Skotlandi, Wales, Hollandi,
  Frakklandi, Portúgal og á Spáni.
 • Hallfríður Nanna Franklínsdóttir
  er elsti núlifandi Siglfirðingurinn. Hún fagnaði 98 ára afmæli sínu á
  mánudaginn var, er fædd 12. maí 1916 að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í
  Strandasýslu. Foreldrar hennar voru Franklín Þórðarson og Andrea
  Jónsdóttir, sem bjó síðustu árin á Siglufirði og lést þar 1979, 97 ára.
  Systkinin voru 13 og er meðalaldur þeirra 91 ár sem er met þegar svo
  mörg systkini eiga í hlut. Fjögur af systkinunun eru enn á lífi. Auk
  Nönnu eru það Guðborg Franklínsdóttir á Siglufirði, en hún varð 90 ára í
  síðustu viku, Margrét Franklínsdóttir á Siglufirði, 92 ára, og Anna
  Margrét Franklínsdóttir á Selfossi, sem verður 104 ára í næsta mánuði.
  Af þeim systkinum sem eru látin náði eitt 98 ára aldri, eitt varð 94
  ára, eitt 93 ára, eitt 92 ára og eitt 90 ára. Þannig hafa níu af þrettán
  systkinum frá Litla-Fjarðarhorni náð níutíu ára aldri.
 • Þjóðlagahátíðin
  sumarið 2014 verður haldin dagana 2.-6. júlí og núna í 15. sinn. Verður
  hún með líku sniði og undanfarin ár en ber að þessu sinni yfirskriftina
  Dragspilið dunar. Harmonikkan verður sumsé í öndvegi og koma
  harmonikkuleikarar víða að. Sérstök áhersla verður lögð á franska
  tónlist.

Siglufjörður 15. maí 2014.

Stærri mynd hér.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is