Bæjarlífspistill


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem
nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð
og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni.
Þetta á að vera stutt og hnitmiðað. Þann 4. janúar og 10. september 2011
og 28. janúar og 21. júlí 2012 var komið að Siglufirði. Og í dag.

Og þar segir:

 • Í júlí hófu þeir feðgar Hjalti Hafþórsson og Hafþór Rósmundsson
  að endursmíða svokallaðan Vatnsdalsbát frá 10. öld í gamla slippnum á
  Siglufirði. Verkið tók um 500 klukkustundir. Laugardaginn 13. október
  síðastliðinn var báturinn sjósettur og þótti reynast vel.
 • Þann
  21. júlí afhenti Hafliðafélagið Síldarminjasafni Íslands glæsilegt
  líkan Búlgarans Daniels Todorov af síðutogaranum Elliða SI 1, en hann
  var einn af átta nýsköpunartogurum sem smíðaðir voru fyrir íslenska
  ríkið hjá skipasmíðastöð Cochrane & Sons í Selby í Yorkshire á
  Englandi. Hann sökk í aftakaveðri á Breiðafirði 10. febrúar 1962.
 • Tveir
  8 ára drengir fundu síðsumars tvær grænar lirfur hér í bæ og settu í
  tóma skyrdollu með loftgötum í og hugðust leyfa þeim að púpa sig, til að
  sjá hvað á bak við leyndist. Sama dag var kominn um þær loðinn vefur og
  þær lagstar í dvala. Þegar litið var í boxið nokkrum vikum síðar var
  fiðrildi komið í ljós. Þetta var gammaygla, sem á heimkynni erlendis.
  Þegar haft var samband við skordýrafræðing kom hann af fjöllum, hafði
  aldrei heyrt minnst á að þetta hefði gerst á Íslandi fyrr. Annar
  kannaðist við slíkt, en einungis í gróðrarstöðvum og þar sem aðstæður
  væru mildari og skilyrði betri. Að heyra um þetta frá Norðurlandi, hvað
  þá yst af Tröllaskaga, þótti honum merkileg tíðindi.
 • Þann
  28. ágúst var minnst 80 ára vígsluafmælis Siglufjarðarkirkju. Hún er
  talin vera fyrsta opinbera bygging á Íslandi sem kynt er með rafmagni.
  Því var hleypt á á jóladal 1933.
 • Margir jarðskjálftar
  urðu út af Norðurlandi fyrir skemmstu, eins og alþjóð veit, og sumir
  allharðir. Síðasta dag októbermánaðar boðaði Almannavarnardeild
  ríkislögreglustjóra til almenns fundar þar sem farið var yfir stöðuna og
  rædd hugsanleg viðbrögð og næstu skref við enn kröftugri skjálfta.
  Beygur er í fólki, ekki síst því sem man það sem gerðist 1934 og 1963.
 • Norðurljósin hafa bragað nokkuð yfir Fjallabyggð það sem af er vetri og glatt margt augað, íslenskt sem erlent.
 • Eftir
  tæpa viku héðan í frá, nánar tiltekið 15. nóvember, hverfur sólin á bak
  við fjöllin í suðri, fyrst Blekkil og svo þau sem vestar eru, og mun
  ekki sjást aftur fyrr en eftir 74 daga.

Siglufjörður 15. nóvember 2010, um kl. 13.45. Sólin við það að hverfa á bak við suðurfjöllin.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is