Bæjarbúi spyr


Nú þegar samfélagið er smám saman að færast í eðlilegt horf þá rennur upp fyrir manni hvað við vorum þrátt fyrir allt heppin að það kom ekki upp ennþá alvarlegri staða hér á Siglufirði. Engin alvarleg slys, veikindi eða eldsvoðar meðan farsímakerfin voru óvirk eftir að rafhlöður þeirra tæmdust og ekki hægt að ræsa út viðbragðsaðila nema með því að banka upp á heima hjá þeim.

Þegar rafmagnið fór af í seinna skiptið, aðfaranótt fimmtudags á slaginu 2, ef ég man rétt, þá var búið að aftengja bensínsrafstöð sem hlóð batteríin fyrir fastlínusímkerfið í bænum. Það var ekki búið að tengja bensínrafstöð við Tetrakerfið og GSM-senda enda trúðu allir og treystu að rafmagnið væri komið varanlega á frá Skeiðsfossvirkjun fyrir þessa mikilvægu öryggisþætti og einnig fyrir hitaveituna.

Það er skiljanlegt að það þurfi að skammta rafmagn og jafnvel taka það af tímabundið í ástandi eins og var hér í vikunni. En mér finnst grafalvarlegt að engin tilkynning eða viðvörun hafi borist frá RARIK hvorki fyrir né eftir að rafmagnið fór af eða var tekið af Siglufirði. Þessi skortur á upplýsingum skapaði óþarfa tímabil án farsímasambands sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef tilkynning hefði borist til viðbragðsaðila.

Í mínum huga sitja eftir þessar spurningar:

  1. Var það meðvituð ákvörðun að taka rafmagnið frá Skeiðsfossi af Siglufirði kl. 2 aðfaranótt fimmtudags eða var þetta bilun í kerfinu?
  2. Var verið að flytja rafmagn frá Skeiðsfossvirkjun á aðra staði meðan var rafmagnslaust á Siglufirði og í Ólafsfirði?
  3. Af hverju virðist engin tilkynning hafa borist frá RARIK til viðbragðsaðila eða fjarskiptafyrirtækja þegar rafmagnið fór af?
  4. Er hægt að treysta því að skýringar sem voru gefnar á skertri starfsemi Skeiðsfossvirkjunar séu réttar? A) Krapavandamál B ) Ísing á raflínum?

Ég hef heyrt efasemdir um báðar þessar skýringar.

  1. Af hverju var hætt við að flytja vararafstöðvar RARIK sem voru til taks á Akureyri til Siglufjarðar, þær hefðu dugað til að halda heita vatninu og fjarskiptum gangandi?

Ég veit að það voru allir að gera sitt besta undir miklu álagi en mér finnst mikilvægt að það komi fram trúverðugar skýringar á því hvað gerðist.

Það þarf ekkert að finna einhverja sökudólga eða blóraböggla. Það eru bara svo margar og misvísandi sögusagnir í gangi að best væri að fá réttar upplýsingar svo umræðan fari ekki út um víðan völl.

Vonandi þurfum við aldrei aftur að upplifa svona ástand en það sem hefur aldrei gerst getur alltaf gerst aftur, eins og einhver sagði.

Mynd og texti: Ingvar Erlingsson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]