Siglfirðingur í Helsinki


Myndlistarmaðurinn Arthur Ragnarsson heldur málverkasýningu á vegum Helsinki, höfuðborgar Finnlands. Sýningin verður opnuð þann 16. nóvember í Menningarmiðstöð Vuotalo í Helsinki. Þetta er önnur sýning listamannsins í Finnlandi þar sem hann hefur starfað undanfarið og kynnt sér forna söguheima og samíska fjölkyngi. Sýningin er jafnframt opnunarviðburður ársins 2020 í Menningarmiðstöð Vuotalo þar sem hafið er meginþemað.

Arthur Ragnarsson er frá Siglufirði en hefur starfað lengst af í Svíþjóð. Foreldrar hans eru Ragnar Páll Einarsson listmálari og Sigurrós Ósk Arthursdóttir. Arthur heitir í höfuðið á afa sínum, Arthuri Sumarliðasyni, en faðir hans var skósmiður á Siglufirði.

Listrænn heimur Arthurs á sér upptök í hans eigin ímyndunarafli og dulvitund. Í heimi sem er tengdur fortíðinni, þjóðsögum, hjátrú og reynslu hans sem sjómaður á norðurhjara veraldar býr hann til heimkynni drauga og norna þar sem galdrar og kukl ráða ríkjum. Náttúran er meginmáttur myndefnisins auk hins dulræna sem tengiliður náttúrunnar og samfélags manna. Listamaðurinn kannar mikilvægi arfleifðar menningarsögu í veruleika nútímans og finnur að veröldin er mun stærri og undarlegri en við getum ímyndað okkur.

NAUTILUS.
Nafn sýningarinnar er fengið að láni úr Sæfaranum, skáldsögu Jules Verne frá 1870. Efni sýningarinnar er ljóðrænn eiginleiki skáldsögunnar og stórbrotnar lýsingar á hinum ýmsu tegundum í lífríki hafsins þar sem þær líða hjá gluggum kafbátsins í djúpum heimshafanna. Skipstjórinn Númi lýsir nútímalegum viðhorfum sínum til náttúruverndar og þörfinni fyrir friðun lífríkis í útrýmingarhættu. Rétt eins og þegar kafbáturinn Nautilus uppgötvar auðlegð neðansjávarheimanna, tekur sýningin dýfu inn í veröld hugarflugsins.

Nautilus, eitt verka Arthurs Ragnarssonar. Á forsíðu hér fyrir ofan er Draumur völvunnar.

Myndir: Aðsendar.
Texti: Aðsendur / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]