Arnheiður Jónsdóttir: Álfkonusteinn í Siglufirði


Í Siglufirði er að finna nokkrar frásagnir af álfum og huldufólki líkt og annars staðar á landinu. Flestar þeirra eru upprunnar úr landi Staðarhóls, sem er handan við fjörðinn, gegnt kaupstaðnum. Þar búa álfar víða í klettum og steinum, auk þess sem þar eru margir álagablettir. Því hefur einnig verið haldið fram að þeir sem séu ættaðir frá Staðarhóli eigi auðveldara með samskipti við þetta fólk en margir aðrir. Víðar er þó að finna álagabletti og kletta sem fólk varaðist að valda nokkru rask á. Í þessu greinarkorni verður gerð grein fyrir steini einum utarlega í Siglufirði, í landi sem áður tilheyrði prestsetursjörðinni Hvanneyri.

Álfkonusteinn er á gilbarmi norðan við Selgil í fjallinu Strákum rétt innan við Strákagöng í Siglufirði. Steinninn stendur í austurbrún þjóðvegarins en ekki er auðvelt að koma auga á hann þegar ekið er eftir veginum. Áður fyrr var hann mun meira áberandi í landslaginu en nú er eftir að vegurinn var lagður svo nærri honum. Í steini þessum er talið að búi álfkona sem hefur að minnsta kosti tvisvar haft samskipti við menn. Örnefnið Álfkonusteinn er ekki að finna í Örnefnaskrám fyrir Siglufjörð þó svo að steinninn hafi verið mjög áberandi. Nafnið var samt þekkt af þó nokkrum áður fyrr en í dag eru ekki margir sem kannast við hann þó þeir séu fæddir og uppaldir í firðinum.

Í bókinni, Siglfirskar þjóðsögur og sagnir, er að finna sögu er gerist nærri gili nokkru út með Strönd og þó það sé ekki nafngreint má fullvíst telja að þar sé um að ræða Selgilið. Sagan heitir Sveinn í Engidal og ljúflingsstúlkan og er svohljóðandi:

Sveinn hét unglingspiltur og var Jónsson, sonur Jóns smiðs á Molastöðum í Fljótum. Hann var vel gefinn og hinn vandaðasti piltur til orðs og æðis.

Þegar hann var tæplega tvítugur að aldri var hann til heimilis í Engidal vestan Siglufjarðar. Einn dag að vori til var Sveinn sendur inn á Siglufjörð. Frost var og ísalög mikil svo að gengt var fyrir alla forvaða. Von var á honum aftur um kvöldið en hann kom ekki og þótti það undarlegt. Um morguninn var farið að leita að honum og fannst hann þá á ísnum fyrir framan svokallaða Strönd. Eru það sjávarbakkar út með sjónum fyrir utan Hvanneyri. Var hann mjög aðframkominn, kalinn á höndum og fótum og máttlítill. Sveinn var fluttur til séra Jóns Sveinssonar sem prestur var á Hvanneyri 1844-67. Var styst þangað að fara og svo var prestur líka talinn nærfærinn til lækninga. En allar lækningatilraunir urðu árangurslausar. Lifði Sveinn þó sumarlangt en dó snemma vetrar. Undarlegt þótti það að aldrei gat hann sagt neitt frá því hvað fyrir hann hefði komið og var hann þó oft spurður um það. Nokkru eftir lát hans dreymdi systur hans, er Sigríður hét, að hann kæmi til hennar og segði að nú gæti hann skýrt frá því hvað fyrir hann hefði komið úti á ísnum. Var það á þessa leið: Þegar hann var kominn heim á leið aftur út með Strönd, nálægt gili nokkru sem þar er, kom stúlka úr landi fram á ísinn til hans, heilsaði honum alúðlega og bað hann fylgja sér til hýbýla sinna. Þóttist Sveinn vita að þetta væri ljúflingsstúlka, hafði beyg af henni og tregðaðist við að verða við bón hennar en hún sótti því fastar á. Ætlaði hún að beita hann valdi og draga hann með sér en hann neytti allrar orku og streittist á móti svo sem hann mátti. Lauk svo þeirra viðskiptum að hann lá örmagna eftir á ísnum og næstum því meðvitundarlaus. 

Þessi saga gerðist um 1870 og eftir þennan atburð er allt með kyrrum kjörum um hríð.

Næst lætur álfkonan á sér bera á fyrri hluta 20. aldar, trúlega í kringum 1930, eða um 60 árum eftir að þetta kom fyrir Svein Jónsson, frá Molastöðum. Í þeirri frásögn kemur nafnið Álfkonusteinn fyrir svo ekki er neinn vafi á hvar hún gerist. Sá sem skráði þessa sögu er Hannes Baldvinsson, fæddur 1931, búsettur í Siglufirði. Hann skrásetur eftir föður sínum, Baldvini Þorsteinssyni, sem vann með söguhetjunni á árunum 1945-50 og var þessi saga þá þekkt meðal vinnufélaganna. En hún er á þessa leið:

Innfæddur Siglfirðingur, sem ættaður var frá Staðarhóli, Kristinn Skafti að nafni, fæddur 1888, missti konu sína á besta aldri. Tók hann konumissinn nærri sér og gerðist upp úr því nokkuð drykkfelldur. Tíðum sást hann ganga út á Strönd og setjast í námunda við Álfkonustein. Kenndur trúði hann vinum sínum fyrir því að hann hefði komist í allnáin kynni við álfkonuna, sem í steininum bjó, og eignast með henni son, sem þegar hann stálpaðist stundaði sjóróðra úr vör við Selgilið. Á haustin þegar tíð var rysjótt, allra veðra von og lítt gaf til sjóróðra heyrðist Kristinn stundum mæla fyrir munni sér: ?Ekki myndi álfkonan vilja eiga son sinn á sjó í nótt.?

Kristinn stundaði sjó um haust og vetur á litlum báti, sem hann átti, eins og fleiri Siglfirðingar á þeim tíma. Hann veiddi oftast í háf og þótti óvenju fengsæll á miðunum, sem hann sótti á miðjum firðinum fram undan Selgilinu. Sumir Siglfirðingar töldu að veiðar Kristins á þessum stað byggðust á niðurburði, en aðrir vildu meina að álfkonan og sonur hennar í Álfkonusteini legðu Kristni lið og aflasæld hans væri að stærstum hluta þeim að þakka.

Hér hefur verið sett fram sú vitneskja sem þekkt er um ljúflinginn í Álfkonusteini. Ekki hef ég heyrt um að hún hafi látið á sér kræla eftir þetta, þó ekki sé hægt að útiloka það, en sú frásögn sem hér fer á eftir bendir til að ekki sé allt með kyrrum kjörum á þessum stað. Er hún höfð eftir Sveini Björnssyni, fæddum 1935, sjómanni í Siglufirði til fjölda ára og gerðist hún fyrir rúmum 30 árum.

?Þetta gerðist seinni partinn í apríl árið 1972. Þá vorum við á grásleppu, ég og Hafþór bróðir minn. Við vorum á stórum dekkbát sem við áttum sem hét Gullveig. Hún var frambyggð og með útistýri til þess að við gætum unnið úti á dekki. Við erum að koma frá því að vitja um grásleppunet seinni part dags, svona upp úr fjögur. Það er glaða sólskin og blíða þegar við komum hérna inn á fjörðinn. Við komum inn vestarlega og þegar við erum búnir að keyra þvert yfir Landsendavíkina og erum komnir fram að stóru steinunum sé ég að það er lítill bátur fram af Selgilinu. Ég segi við Hafþór að við skulum gæta okkar, sennilega sé það Gústi guðsmaður að draga þarna rauðmaganet. Hann játar því. Við vorum að greiða úr trossu sem við höfðum dregið inn í bátinn og sem við ætluðum að leggja daginn eftir, og svo siglum við áfram. Ég lít aftur út, fram með stýrishúsinu og þá sé ég bátinn; við höfum nálgast hann töluvert mikið. Ég var að klára eitthvað í sambandi við trossuna og þegar ég er búinn að því stekk ég inn í stýrishúsið til að beygja bátnum austur á fjörðinn til þess að keyra ekki á litla bátinn, hafa hann réttu megin við mig. En þegar ég lít út um gluggann þá sé ekki neitt, ég sé engan bát. Ég hugsaði með mér: ?Guð minn almáttugur, reiknaði ég þetta vitlaust, er ég kominn ofan á bátinn?? Og ég arga í Hafþór: ?Sérðu karlinn?? ?Nei?, argar hann til baka. Ég slæ af til að vera alveg öruggur og sé hann hvergi nokkurs staðar. Ég nánast stoppa bátinn og segi við Hafþór: ?Heyrðu, hvar er karlinn?? ?Ég sé engan karl?, svarar hann. Við lítum bæði til lands og austur fyrir okkur og sjáum ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég hugsa með mér þetta sé ekki eðlilegt, karlinn getur ekki hafa verið kominn í burtu á meðan við vorum að keyra þennan stutta spöl að honum og við náttúrulega settum bara á ferð aftur og keyrðum inn í dokk [smábátahöfnin]. Það fyrsta sem við sjáum þegar við komum þarna upp í dokkina er báturinn Gústa guðsmanns; hann liggur þarna við bryggju. Og ég segi við Hafþór: ?Hver var þetta? Það er enginn svona lítill bátur á sjó nema báturinn hans Gústa.? ?Ég veit það ekki?, svarar hann. Við vissum það að miðað við ferðina sem var á okkur, þá hefði þessi bátur ekki getað farið á þessum skamma tíma á undan okkur inn í dokk. Við vorum mikið búnir að velta því fyrir okkur hvað það var sem við sáum þarna. Manni datt fyrst í hug að þetta væru bara einhverjar sjóntruflanir, en ég sá þetta tvisvar og Hafþór sá þetta líka, þess vegna fannst mér svo einkennilegt að allt í einu var þetta farið. Það var ekkert. Við erum báðir álfatrúar og vorum alveg sannfærðir um að við hefðum séð huldumann á sjó.?

Sveinn hafði ekki heyrt sögurnar um álfkonuna og kannaðist heldur ekki við nafnið á steininum. Þegar hann heyrði svo af Álfkonusteininum nýverið, þá loksins fannst honum vera komin skýring á sýninni sem þeir bræður sáu fyrir rúmum 30 árum.

Það er ansi freistandi að ætla að þarna hafi sonur álfkonunnar og Kristins Skafta verið að sækja sér í soðið í veðurblíðunni fyrir þau mæðginin.

HEIMILDIR

Þ. Ragnar Jónasson 1996: Siglfirskar þjóðsögur og sagnir. Reykjavík, Vaka Helgafell, bls. 38-39.

Hannes Baldvinsson: Óútgefið handrit.

Hannes Baldvinsson 2005: Munnleg heimild.

Sveinn Björnsson 2005: Munnleg heimild.

Greinarhöfundur við Álfkonustein í Siglufirði árið 2005.

[Þetta skrif birtist upphaflega í bókinni: Á sprekamó : afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum, 11. júní 2005. Bókaútgáfan Hólar 2005. Bls. 35-38.]

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti:
Arnheiður Jónsdóttir
| arnheidurjo@hive.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is